Bótatímabil

Tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar

Einstaklingur getur samtals átt rétt á atvinnuleysisbótum í 30 mánuði frá því að hann sótti um bætur hjá Vinnumálastofnun. Biðtími eftir greiðslum atvinnuleysisbóta eða viðurlög teljast hluti tímabilsins. Bótatímabilið heldur jafnframt áfram að líða þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur og þegar tilfallandi veikindi standa yfir.

Sá tími sem einstaklingur er í starfi og er afskráður af atvinnuleysisskrá telst ekki hluti bótatímabilsins. Einnig telst sá tími sem atvinnuleysisbætur geymast ekki hluti tímabilsins.

 

Sjá nánar um bótatímabil  

Samkvæmt 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar getur atvinnuleitandi átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög standa yfir.  Hið sama á við um þann tíma þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr. laganna, og um þann tíma er tilfallandi veikindi standa yfir skv. 5. mgr. 14. gr. laganna.

Sá tími sem hinn tryggði starfar á vinnumarkaði eftir að tímabil hefst telst ekki hluti tímabilsins. Enn fremur telst sá tími sem atvinnuleysistryggingar geymast skv. V. kafla laganna ekki hluti tímabilsins.

Sá tími sem Vinnumálastofnun veitir styrk skv. 1. mgr. 62. gr. laganna vegna þátttöku hins tryggða í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði.

Tímabilið heldur áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

 

Nýtt bótatímabil eftir að fyrra tímabili lýkur

Ef atvinnuleitandi fullnýtir 30 mánaða  bótatímabilið sitt getur hann áunnið sér inn nýtt tímabil með því að starfa á innlendum vinnumarkaði.

Til að ávinna sér rétt á nýju 30 mánaða bótatímabili, eftir að fyrra tímabil er fullnýtt, þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt:

1). 24 mánuðir þurfa að líða frá því að atvinnuleitandi fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

2). Atvinnuleitandi þarf að hafa starfað á vinnumarkaði í a.m.k. 6 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.  Starfshlutfall þarf að nema 25% eða meira.

Ef einstaklingur klárar 30 mánaða bótatímabilið þurfa því tvö ár að líða áður en hann á rétt á atvinnuleysisbótum að nýju. Á þessum tveimur árum þarf hann að auki að hafa unnið í a.m.k. sex mánuði.  

 

Sjá nánar um nýtt bótatímabili ef fyrra tímabil er fullnýtt

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um endurnýjun tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar. Samkvæmt ákvæðinu getur sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í þrjú ár, áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Hefst þá nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna en að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

Nýtt bótatímabil hefst áður en fyrra tímabil líkur að fullu

Atvinnuleitandi getur áunnið sér inn nýtt bótatímabil þó svo að hann sé ekki búinn að fullnýta 30 mánaða bótatímabilið sitt. Til að ávinna sér rétt á nýju 30 mánaða bótatímabili á meðan fyrra tímabil varir þarf atvinnuleitandi að starfa samfellt í a.m.k. tvö ár.

Hafi einstaklingur t.d. þegið atvinnuleysisbætur í eitt ár en starfar svo samfellt í tvö ár, hefur hann áunnið sér inn nýtt 30 mánaða bótatímabil ef hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Sjá nánar um nýtt bótatímabili ef fyrra tímabil er ekki fullnýtt 

Í 31. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um þegar nýtt tímabil hefst áður en fyrra tímabili lýkur að fullu. Þar segir að nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

 

 

Tenglar

Skrá mig á námskeið í ferilskrárgerð

Ferilskrárgerð

Nokkur góð ráð í

Atvinnuleitinni
 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu