Fiskvinnslufyrirtæki

Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja vegna vinnslustöðvunar af völdum hráefnisskorts.

Hér fylgja  upplýsingar varðandi umsókn um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks.

1. Tilkynningarskylda

Tilkynna skal til Vinnumálastofnunar Kringlunni 1 um vinnslustöðvun skriflega daginn áður en henni er ætlað að hefjast. Verði breyting á fyrirhugaðri vinnslustöðvun skal tilkynna hana að nýju.

Senda skal tilkynninguna til Vinnumálastofnunar  á netfangið  hraefnisskortur@vmst.is

 2.  Umsókn um greiðslur

Fyrirtæki skal senda staðfesta tilkynningu með umsókn um greiðslu innan mánaðar frá því að vinnslustöðvun átti sér stað á þar til gerðu eyðublaði. Vinnumálastofnun getur óskað ítarlegri ganga um vinnslustöðvunina. Hafi hvorki umsókn eða umbeðin gögn borist innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst, fellur réttur fyrirtækisins til greiðslu niður.
Smelltu hér til að nálgast eyðublaðið

Á eyðublaðinu þurfa að koma fram eftirfarandi upplýsingar:

  • Nafn fyrirtækis, heimilisfang, símanúmer og kennitala.  Upplýsingar um banka og bankareikning hjá viðkomandi fyrirtæki en greitt er beint inná reikning fyrirtækisins frá Atvinnuleysistryggingasjóði.

  • Nafnalisti með kennitölum þeirra einstaklinga sem eru heima í vinnslustöðvun. Sundurliðað tímabil sem sótt er um greiðslu fyrir og eru þá tilteknir vikudagar þeir sem fyrirtækið greiddi fólki og það var heima.  Athugið að einungis eru greiddir heilir dagar.

  • Með fyrstu umsókn fyrirtækis skal senda afrit af gerðum kauptryggingarsamningum.  Verði breytingar á starfsfólki eða starfshlutfalli starfsmanns ber fyrirtæki að senda afrit kauptryggingarsamninga með umsókn.

  • Staðfesting f.h. fyrirtækisins og undirskrift.

  • Ef um starfsfræðslunámskeið er að ræða þarf að merkja umsóknina sérstaklega þannig að enginn vafi sé á efni hennar.

Vegna breyttra verklagsreglna þurfa eftirfarandi gögn að fylgja umsóknum um endurgreiðslu til fiskvinnslufyrirtækja vegna hráefnisskorts, sem eru fyrir tímabil frá 1. janúar 2008:

  • Launalisti fyrir það tímabil sem sótt er um

  • Framleiðslulisti yfir það tímabil sem sótt er um

  • Hráefnisbirgðaskrá, bæði fyrir vikuna áður og vikuna eftir stöðvunin átti sér stað

 3. Upphæð greiðslna 

Greiðslur til fiskvinnslufyrirtækja vegna starfsmanna með kauptryggingasamninga eru dagpeningar atvinnuleysisbóta (hámark kr. 10.495) á dag) og fer upphæðin eftir samningsbundnu starfshlutfalli launþegans. 
Fjöldi greiðsludaga sem heimilt er að greiða í samfellu er að hámarki 15 dagar en þó aldrei fleiri en 35 á hverju almanaksári. Fyrstu 5 skráðir dagar á hvorum árshelmingi eru ekki greiddir.

 

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu