Nánari lög um hópuppsagnir

Lög um hópuppsagnir nr. 95/1992 tóku gildi hér á landi 1. janúar 1993 í kjölfar þess að Íslendingar fullgiltu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.  Tilskipun nr. 75/129/EEC um að samræma lög aðildarríkjanna um hópuppsagnir var tekin upp í XVIII. viðauka við samninginn.  Með lögum nr. 135/1994 var fyrrgreindum lögum um hópuppsagnir breytt vegna tilskipunar ráðsins 92/56/EBE frá 24. júní 1992 um breytingu á tilskipun 75/129/EBE um að samræma lög aðildarríkjanna um hópuppsagnir.

Evrópusambandið gaf út þann 20. júlí 1998 tilskipun nr. 98/59/EC um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir.  Með tilskipun þessari eru fyrri tilskipanir ESB um sama efni nr. 75/129/EEC og 92/56/EEC felldar úr gildi.

lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 tóku gildi 19. maí 2000.

Lagafrumvarpið og athugasemdir félagsmálaráðherra með frumvarpi til laga um hópuppsagnir

Um gildissvið laganna

Í 2. grein laganna er kveðið á um undanþágur frá ákvæðum laganna.  Lögin um hópuppsagnir taka ekki til:

 • uppsagna sem koma til framkvæmda samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna nema slíkar uppsagnir eigi sér stað áður en þeir samningar renna út eða verkefni lýkur
 • áhafna skipa.

Samkvæmt 3. grein þá gilda ákvæði 7. greinar og 1. málsgreinar 8. greinar ekki þegar starfsemi fyrirtækis stöðvast vegna dómsúrskurðar. Þó skal atvinnurekandi senda svæðisvinnumiðlun tilkynningu samkvæmt 7. grein fari hún fram á það.

Í 4. grein kemur fram að lögin gildi án tillits til þess hvort ákvörðun um hópuppsagnir er tekin af atvinnurekanda sjálfum eða fyrirtæki sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart honum. Komi fram staðhæfing um brot á kröfum um upplýsingar, samráð og tilkynningar sam-kvæmt þessum lögum getur atvinnurekandi ekki borið því við að honum hafi ekki borist nauðsynlegar upplýsingar frá fyrirtækinu þar sem ákvörðun um hópuppsagnir var tekin.

Skilgreining hópuppsagnar

Í 1. grein laganna um hópuppsagnir er kveðið á um að þau gildi um uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum þeirra um sig, þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er:

 • að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu
 • að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn, en færri en 300 starfsmenn í vinnu
 • að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Við útreikning á fjölda þeirra sem sagt er upp samkvæmt 1. málsgrein skal litið á uppsögn ráðningarsamnings einstakra starfsmanna sem jafngilda hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.

Upplýsingar og samráð um hópuppsagnir

Í 5. grein laganna er kveðið á um að ef atvinnurekandi áformi hópuppsagnir skuli hann svo fljótt sem auðið er hafa samráð við trúnaðarmann stéttarfélaga.  Ef ekki hefur verið kjörinn trúnaðarmaður skal atvinnurekandi hafa samband við annan fulltrúa starfsmanna sem þeir hafa valið, með það fyrir augum að ná samkomulagi.

Í samráði felst skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, samanber 1. málsgrein, um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Með samráðinu skal að minnsta kosti leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða.  Þannig skal reynt að draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda flutning í önnur störf eða endurhæfingu starfsmanna sem áformað er að segja upp.  Ef sérstök nauðsyn krefur er trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, samanber 1. málsgrein, heimilt að kveðja til sérfræðinga sér til aðstoðar meðan á samráði stendur.  Kostnaður af störfum sérfræðinga er atvinnurekanda óviðkomandi.

Í 6. grein kemur fram að atvinnurekandi skal vegna samráðs aðila samkvæmt 5. grein láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, samanber 1. málsgrein 5. greinar, í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir og að minnsta kosti tilgreina skriflega:

 1. ástæður fyrirhugaðra uppsagna
 2. fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvaða störfum þeir gegna
 3. hve margir eru að jafnaði í vinnu og hvers konar störfum þeir gegna
 4. á hvaða tímabili fyrirhugaðar uppsagnir eiga að koma til framkvæmda
 5. viðmiðanir sem til stendur að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp
 6. upplýsingar um sérstakar greiðslur til starfsmanna vegna uppsagna aðrar en þær sem kveðið er á um í lögum eða kjarasamningum og hvernig þessar greiðslur eru reiknaðar.

Atvinnurekandi skal senda svæðisvinnumiðlun afrit af þeim skriflegu upplýsingum sem um getur í 1–6-lið 1. málsgreinar.

Tilkynning um hópuppsagnir

Í 7. grein laganna er kveðið á um að atvinnurekandi skuli, að höfðu samráði samkvæmt 5. og 6. grein, senda skriflega tilkynningu um fyrirhugaðar uppsagnir til svæðisvinnumiðlunar í því umdæmi þar sem viðkomandi starfsmenn vinna.  Í tilkynningunni skulu koma fram allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar hópuppsagnir og um samráð samkvæmt 5. og 6. grein, einkum ástæður uppsagnanna, hve mörgum starfsmönnum stendur til að segja upp, hve margir starfsmenn eru að jafnaði í vinnu og á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi.

Atvinnurekandi skal koma afriti af tilkynningu samkvæmt 1. málsgrein til fulltrúa starfsmanna.

Trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna, samanber 1. málsgrein 5. greinar, getur komið á framfæri öllum athugasemdum starfsmanna við svæðisvinnumiðlun.

Gildistaka hópuppsagna

Samkvæmt 8. grein skulu uppsagnir samkvæmt lögunum fyrst taka gildi 30 dögum eftir að tilkynning um fyrirhugaðar uppsagnir berst stjórn svæðisvinnumiðlunar í umdæminu.
Þennan frest skal svæðisvinnumiðlun nota til að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir mundu valda. 

Ein meginbreytingin sem fólst í tilskipun 92/56/EEC, en varðaði þó að litlu leyti íslenskar aðstæður, miðaði að því að koma í veg fyrir að atvinnurekendur gætu notað höfuðstöðvar fyrirtækis sem afsökun fyrir því að geta ekki uppfyllt upplýsingaskyldu innan tímamarka sem mælt er fyrir um í tilskipuninni.  Ákvæði um þetta efni var bætt við í 4. grein en þar segir að atvinnurekandi geti ekki borið því við að honum hafi ekki borist nauðsynlegar upplýsingar frá fyrirtækinu þar sem ákvörðun um hópuppsagnir var tekin.

Áhrif á uppsagnarfrest

Í 9. grein segir að uppsagnarfrestur starfsmanna samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningum breytist ekki þrátt fyrir ákvæði laganna, samanber þó ákvæði 1. málsgreinar 8. greinar að því er snertir þá starfsmenn sem eiga styttri uppsagnarfrest en 30 daga.

Trúnaðarskylda

Í 10. grein kemur fram að trúnaðarmaður eða fulltrúi starfsmanna, samanber 1. málsgrein 5. greinar, sérfræðingar samkvæmt 4. málsgrein 5. greinar og atvinnurekandi eða fulltrúar hans skulu gæta trúnaðar varðandi upplýsingar sem gefnar eru samkvæmt ákvæðum þessara laga.

Viðurlög

Í 11. grein kemur fram að atvinnurekandi sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum.

Í 12. grein kemur fram að brot gegn 5.–7. grein laga þessara geta varðað sektum sem renna í ríkissjóð

       

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu