Spurt og svarað

Fyrirtæki með 70 starfsmenn eða færri:


1. Hvað geri ég ef ég vill ráða atvinnleitendur í gegnum „Hefjum störf?

Þú ferð á Mínar síður atvinnurekenda á vef Vinnumálastofnunar og skráir þar inn störfin. Athugaðu að opnað verður fyrir skráningu starfa þann 22. mars.

Fyrirtæki þurfa að vera með rafræn skilríki eða Íslykil á kennitölu fyrirtækis eða í umboði fyrirtækis til að geta farið inn á mínar síður atvinnurekenda.  Hér má sjá hvernig atvinnurekendur skrá sig inn á Mínar síður atvinnurekenda hjá Vinnumálastofnun með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

2. Er eitthvað lágmark hvað margir starfa hjá fyrirtækinu þegar sótt er um átakið?

Fyrirtæki þurfa  að hafa a.m.k. einn starfsmann á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitar kemur.

3. Við þurftum að segja upp fólki síðasta haust vegna Covid, getum við nýtt átakið?

Já að því gefnu að fyrirtækið uppfylli skilyrði ráðningarstyrks. Atvinnuleitandi þarf að hafa nýtt a.m.k. 12 mánuði af bótatímabili sínu til að eiga rétt á að með honum fylgi hærri styrkur. Hafi atvinnuleitandi verið skemur á atvinnuleysisbótum þá er hámark styrks 307.430 kr. auk 11,5% mótframlag.

4. Hversu háan styrk getur fyrirtæki fengið fyrir að ráða atvinnuleitanda í „Hefjum störf“?

Hámarksstyrkur getur verið 527 þús kr. með hverjum atvinnuleitanda sem er ráðinn í 100% vinnu.

5. Fáum við alltaf hámarksstyrk óháð þeim launum sem starfsmaður er á?

Nei, styrkurinn getur aldrei verið hærri en laun starfsmanns að viðbættum 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð.

6. Við erum með 60 starfsmenn starfandi hjá okkur í dag og viljum bæta 20 manns við í gegnum átakið „Hefjum störf“, hvað fengjum við háan styrk?

Fyrirtækið getur ráðið allt að 10 manns sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur og fengið allt að 527 þús. á mánuði í styrk í 6 mánuði með hverjum starfsmanni. Þegar heildar starfsmannafjöldi er kominn upp í 70 getur fyrirtækið nýtt sér almennan ráðningarstyrk sem er allt að 342 þús. á mánuði í 6 mánuði.

7. Hvað megum við ráða marga starfsmenn í gegnum átakið?

Fyrirtæki með færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur og fengið allt að 527 þús. á mánuði í styrk í 6 mánuði þangað til heildar starfsmannafjöldi er orðinn 70. Ekkert þak er á því hversu marga atvinnuleitendur má ráða á ráðningarstyrk sem er 342 þús. á mánuði.

8. Fyrirtækið vill ráða ákveðinn atvinnuleitanda, er það hægt?

Já að því gefnu að fyrirtækið og sá atvinnuleitandi sem á að ráða uppfylli skilyrðin. Hægt er að skila inn upplýsingum um atvinnuleitandann og afrit af ráðningarsamningnum þegar starfið er skráð á Mínum síðum.

9. Við erum með starfsmenn á hlutabótum, getum við nýtt okkur átaksverkefnið til að ráða nýja starfsmenn?

Já, það að fyrirtækið sé með starfsmenn í minnkuðu starfshlutfalli á hlutabótum hefur ekki áhrif.

10. Get ég aukið starfshlutfall hjá starfsmanni sem er á hlutabótum og fengið styrk fyrir auknu starfshlutfalli?

Nei, ekki er hægt að fá styrk til þess að auka starfshlutfall þeirra starfsmanna sem eru í minnkuðu starfshlutfalli og fá greiddar hlutabætur. Ráða þarf atvinnuleitanda sem er að fá greiddar hefðbundnar atvinnuleysisbætur en ekki hlutabætur.

11. Ég réði starfsmann áður en ég vissi af verkefninu Hefjum störf. Get ég sótt um og fengið styrk aftur í tímann?

Nei, því miður. Sækja þarf um og ganga frá ráðningu með styrk áður en starfsmaður hefur störf.


Sveitarfélög og opinberar stofnanir:


1. Hvernig sækja opinberar stofnanir eða sveitarfélög um átakið?

Sótt er um í gegnum Mínar síður atvinnurekenda á vef Vinnumálastofnunar og skráir þar inn störfin. Athugið að opnað verður fyrir skráningu starfa þann 22. mars.
Stofnanir og sveitarfélög þurfa að vera með rafræn skilríki eða Íslykil á kennitölu fyrirtækis eða í umboði fyrirtækis til að geta farið inn á mínar síður atvinnurekenda.  Hér má sjá hvernig atvinnurekendur skrá sig inn á Mínar síður atvinnurekenda hjá Vinnumálastofnun með Íslykli eða rafrænum skilríkjum

2. Er eitthvað lágmark hvað margir starfa hjá stofnun eða sveitarfélagi þegar sótt er um átakið?

Það  það þarf að vera   a.m.k. einn starfsmaður á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitar kemur.

3. Hvað fá opinberir aðilar háan styrk með atvinnuleitendum?

Sveitarfélög og opinberar stofananir geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 24 mánuði eða lengur og fengið allt að 527 þús. á mánuði í styrk í allt að 6 mánuði. Einnig er hægt að ráða atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu skemur en 24 mánuði á ráðningarstyrk sem er 342 þús. á mánuði.

4. Er alltaf greiddur hámarksstyrk óháð þeim launum sem starfsmaður er á?

Nei, styrkurinn getur aldrei verið hærri en laun starfsmanns að viðbættum 11,5% mótframlagi í lífeyrissjóð.

5. Hvað mega sveitarfélög og stofnanir ráða marga atvinnuleitendur í gegnum verkefnið?

Ekkert þak er á fjölda en styrkupphæð fer eftir því hversu langan tíma viðkomandi atvinnuleitandi hefur verið án atvinnu.

6. Við viljum ráða ákveðinn atvinnuleitanda, er það hægt?

Já að því gefnu að sveitarfélagið eða stofnunin og sá atvinnuleitandi sem á að ráða uppfylli skilyrðin. Hægt er að skila inn upplýsingum um atvinnuleitandann og afrit af ráðningarsamningnum þegar starfið er skráð á Mínum síðum.


Frjáls félagasamtök:


1. Hvaða skilyrði þurfa frjáls félagasamtök að uppfylla til þess að nýta sér átakið?

Frjáls félagasamtök sem starfa að góðgerðar-og/eða mannúðarmálum, eru ekki rekin í hagnaðarskyni og eru undanþegin skattskyldu falla undir átakið. Þessi félagasamtök geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur og fengið allt að 527 þús. á mánuði í styrk í 6 mánuði að viðbættu allt 25% álagi til að standa straum að föstum kostnaði

2. Frjáls félagasamtök sem ekki uppfylla skilyrði um að starfa að góðgerðarmálum og vera undanþegin skattskyldu, geta þau ekki nýtt sér verkefnið?

Öll frjáls félagasamtök sem uppfylla almenn skilyrði Ráðningarstyrks geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu 1 mánuð eða lengur og fengið styrk sem nemur allt að 342 þús. á mánuði í 6 mánuði.

3. Hvernig sækja Frjáls félagasamtök um átakið?

Sótt er um í gegnum Mínar síður atvinnurekenda á vef Vinnumálastofnunar og skráir þar inn störfin. Athugið að opnað verður fyrir skráningu starfa þann 22. mars.

Það þarf að vera með rafræn skilríki eða Íslykil á kennitölu félagasamtakanna eða í umboði félagasamtaka til að geta farið inn á mínar síður atvinnurekenda.  Hér má sjá hvernig atvinnurekendur skrá sig inn á Mínar síður atvinnurekenda hjá Vinnumálastofnun með Íslykli eða rafrænum skilríkjum.

4. Er eitthvað lágmark hvað margir starfa í félagasamtökunum þegar sótt er um átakið?

Það  það þarf að vera   a.m.k. einn starfsmaður á launaskrá áður en til ráðningar viðkomandi atvinnuleitar kemur.

5. Við viljum ráða ákveðinn atvinnuleitanda, er það hægt?

Já að því gefnu að félagssamtökin og sá atvinnuleitandi sem á að ráða uppfylli skilyrðin. Hægt er að skila inn upplýsingum um atvinnuleitandann og afrit af ráðningarsamningnum þegar starfið er skráð á Mínum síðum.


Atvinnuleitandi:


1. Ég er búinn að vera atvinnulaus skemur en 12 mánuði getur atvinnurekandi samt fengið styrk ef hann ræður mig?

Já, Atvinnurekandi getur fengið almennan ráðningarstyrk upp að hámarki 342 þús.

2. Fær fyrirtæki fullan styrk, 527 þúsund, ef ég fæ 400 þús. í laun á mánuði?

Atvinnurekandi fær aldrei hærri styrk en sem nemur mánaðarlaunum skv. ráðningarsamningi að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð.

3. Hvar get ég sótt um störfin?

Atvinnurekendur verða hvattir til að auglýsa störf á Mínum síðum atvinnuleitenda hjá Vinnumálastofnun þar sem þau verða sýnileg þeim atvinnuleitendum sem uppfylla skilyrði.

4. Hvernig sé ég hvort ég sé búin/n að nýta 12 eða 24 mánuði af bótatímabilinu mínu?

Á nýjasta greiðsluseðlinum þínum á mínum síðum sérðu hvað þú hefur nýtt marga mánuði.

5. Ákveðinn atvinnurekandi vill ráða mig án þess að þurfa að auglýsa starfið, getur hann samt fengið styrk?

Já, að því gefnu að þú og hann uppfylli skilyrðin. Þegar atvinnurekandinn skráir inn starfið á Mínum síðum getur hann skráð inn upplýsingar um þig og skilað inn afriti af ráðningarsamningnum. Þá er starfið ekki auglýst.

6. Ég er á hlutabótum, á ég rétt á að taka þátt í „Hefjum störf“?

Nei, einstaklingar sem fá hlutabætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli eiga ekki rétt á að fá styrk með sér til að ráða sig til starfa hjá atvinnurekanda.

7. Ég var ráðin/n í starf nýlega og hef afskráð mig hjá Vinnumálastofnun. Þeir sem réðu mig til starfa hefur áhuga á að sækja um styrk. Er það hægt?

Nei, því miður. Fyrirtæki/stofnun/sveitarfélag þarf að sækja um og ganga frá ráðningu með styrk áður en starfsmaður hefur störf.


Hlutabætur


1. Hvernig sæki ég um?

Fyrirtækið fer inn á Mínar síður atvinnurekenda og þar á forsíðunni er smellt á „Umsókn um styrk vegna hlutabóta“ í kassanum „Hlutabætur“.

2. Ég finn ekki nafnið á starfsmanninum í listanum á Mínum síðum?

Birtist starfsmaður ekki á listanum þýðir það að viðkomandi starfsmaður hefur ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfall (hlutabætur) í apríl og maí mánuði 2021. Uppfyllir því starfsmaðurinn ekki skilyrði þess að eiga rétt til greiðslu styrks vegna hækkunar á starfshlutfalli og getur því fyrirtækið ekki sótt um styrk vegna viðkomandi starfsmanns.

3. Hvað þýðir að starfsmaður njóti óskertra orlofsréttinda á yfirstandandi orlofsári?

Það þýðir að starfsmaður hafi áunnið sér orlofsréttindi í samræmi við það að hann hafi aldrei farið í minnkað starfshlutfall. Hafi starfsmaður verið í 100% starfshlutfalli en farið í 50% og þegið hlutabætur á móti þá þarf að leiðrétta útreikning ávinnslu orlofsréttinda vegna yfirstandandi orlofsárs og reikna út frá því að viðkomandi starfsmaður hafi verið í 100% starfshlutfalli.

Við bendum atvinnurekendum og starfsmönnum á að hafa samband við sitt stéttarfélag eða samtök atvinnurekanda um nánari leiðbeiningar hvað þetta atriði varðar.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni