Starfsorka

Markmið með starfsorku er að:

 • Styðja við nýsköpun og þróun í fyrirtækjum.
 • Koma á tengslum milli atvinnuleitenda og fyrirtækja.
 • Styðja við frumkvöðla með hugmyndir um nýsköpun.
 • Styðja við atvinnuleitendur og auðvelda þeim leit að störfum.


 Forsendur fyrir þátttöku í starfsorku er að:

 • Um starfandi fyrirtæki er að ræða og að velta síðasta árs sé fimm milljónir eða meira. Rannsóknarstyrkir, hlutafé, hlutafjárloforð og verksamningar geta verið jafngildir veltu.
 • Eitt eða fleiri stöðugildi séu nú þegar í fyrirtæki.
 • Veruleg nýsköpun/þróun sé í því verkefni sem atvinnuleitandi er ráðinn til.
 • Atvinnuleitandi sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og eigi rétt á atvinnuleysisbótum.
 • Atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og á skrá hjá Vinnumálastofnun.
 • Ráðning atvinnuleitanda feli í sér fjölgun starfsmanna hjá fyrirtækinu.
 • Verkefni raski ekki samkeppni innanlands í viðkomandi starfsgrein.


Samningur

Starfsorka er úrræði sem hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í nýsköpun og þróun að ráða fólk til starfa. Verkefnið er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þátttaka í verkefninu er opin fyrirtækjum og einstaklingum með rekstur á öllu landinu.

Starfsorka felur í sér þríhliða samning milli Vinnumálastofnunar, fyrirtækis og atvinnuleitanda af atvinnuleysisskrá um ráðningu í starf sem snýr að nýsköpun og þróun. Fyrirtæki skuldbindur sig til að ráða atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði og greiðir laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Vinnumálastofnun greiðir sem nemur fjárhæð þeirra grunnatvinnuleysisbóta sem atvinnuleitandi á rétt á úr atvinnuleysistryggingasjóði til fyrirtækisins auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð þann tíma. 

Umsóknarferli

Umsóknum er skilað til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands sem hefur umsjón með mati. Vinnumálastofnun hefur umsjón með ráðningarferli í samráði við fyrirtæki.

 1. Mat umsókna

Verkefnisstjóri Impru fer yfir umsóknir og setur í hendur matshóps á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar sem metur hvort viðkomandi umsókn uppfylli þær kröfur sem gerðar eru. Verkefnisstjóri sendir rafrænt svar til umsækjanda þar sem fram kemur hvort verkefnið geti haldið áfram í ferlinu. Vinnumálastofnun fær afrit af svarinu.

 1. Leit að starfsmanni

Uppfylli umsækjandi skilyrði um þátttöku hefur hann samband við Vinnumálastofnun og leitar að starfsmanni sem uppfyllir þær kröfur sem koma fram í umsókninni. Vinnumálastofnun bendir á atvinnuleitendur sem hafa þá menntun, reynslu eða hæfni sem leitað er eftir.

 1. Ráðning
  Fyrirtæki finnur starfsmann við hæfi og gerir ráðningarsamning. Fyrirtækið, starfsmaður og Vinnumálastofnun undirrita síðan sérstakan samning þar sem fram kemur að Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleysisbætur í ákveðinn tíma til fyrirtækisins. Hámarkstími er tólf mánuðir.
 2. Áfangaskýrsla
  Eftir þrjá mánuði skilar fyrirtæki inn skýrslu um gang verkefnisins til Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Verkefnisstjóri Impru fer yfir skýrsluna og ber saman við umsóknina og metur hvort framvinda er í samræmi við það sem áætlað var skv. umsókninni og sendir niðurstöður sínar til Vinnumálastofnunar og fyrirtækis.
 3. Framlenging á samningi

Eftir fimm mánuði getur fyrirtækið sótt um að framlengja samninginn um sex mánuði. Það skilar áfangaskýrslu nr. 2 til Impru. Verkefnisstjóri fer yfir skýrsluna og sendir niðurstöður til Vinnumálastofnunar og fyrirtækis. Sé framgangur verkefnisins í samræmi við áætlun geta fyrirtækið, Vinnumálastofnun og viðkomandi starfsmaður endurnýjað samning þar um skv. lið 3.

 1. Lokaskýrsla
  Þegar verkefninu lýkur (eftir sex eða tólf mánuði) skilar fyrirtækið lokaskýrslu um verkefnið, þar sem fram kemur hvort og þá hvernig markmið náðust og hvort viðkomandi starfsmaður hafi verið ráðinn ótímabundið.

 

Greiðslur

Reikningar geta verið innheimtir mánaðarlega eða í lok úrræðis.
Skilyrði fyrir greiðslu frá VMST er að reikningur berist frá atvinnurekanda númeraður úr bókhaldi fyrirtækisins/stofnunarinnar og sé án VSK.

Atvinnurekandi sendir reikning til Vinnumálastofnunar:

Vinnumálastofnun 
b.t Jóngeirs Hlinasonar

Kringlan 1

103 Reykjavík

Eða á netfangið:
jongeir.hlinason@vmst.is

Reikningur skal vera í samræmi við efni samningsins.

Á reikningnum skal koma fram:

a. Nafn atvinnuleitanda.

b. Tímabil samnings.

c. Kjarasamningur sá sem laun eru tekin eftir eða miðuð við.

Afrit launaseðils skal fylgja reikningi og staðfesting úr banka um að laun hafi verið greidd inn á reikning starfsmanns.

 

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu