Breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga

Þann 1. janúar 2017 taka í gildi breytingar á lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Lagabreytingin felur í sér ýmsar breytingar á reglum er varða útgáfu atvinnuleyfa og er henni meðal annars ætlað koma til móts við breyttar þarfir atvinnulífsins og vísindasamfélagsins.

Hér hafa verið tekin saman nokkur atriði sem felast í lagabreytingunni:

Rafræn tilkynningarskylda vegna skammtímavinnu
Í ákveðnum tilfellum verður útlendingi heimilt að dvelja og starfa hér á landi í allt að 90 daga á ári án atvinnuleyfis, í stað fjögurra vikna líkt og áður. Þá munu vísinda- og fræðimenn falla undir þessa undanþáguheimild í fleiri tilvikum en áður. Við lengingu á undanþágunni mun Vinnumálastofnun taka upp rafræna tilkynningarskyldu fyrir þá útlendinga sem koma hingað til lands og ætla sér að nýta undanþáguna. Sjá nánar um tilkynningarskylduna og rafræna formið hér.

Samstarfssamningar á sviði kennslu-, fræði- og vísindastarfa
Heimilt verður að veita útlendingi tímabundið atvinnuleyfi sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum erlends atvinnurekanda, sem ekki hefur starfstöð hér á landi, vegna samstarfs hins erlenda atvinnurekanda og innlends atvinnurekanda á sviði kennslu- fræði- eða vísindastarfa. Hér undir falla m.a. gestakennarar frá erlendum menntastofnunum sem koma hingað til lands til að kenna við innlenda menntastofnun. Ekki hefur verið heimilt að veita slík atvinnuleyfi áður.

Sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara undanþegnir kröfunni um atvinnuleyfi
Útlendingar sem fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli sambúðar með íslenskum ríkisborgara verða undanþegnir kröfunni um atvinnuleyfi en áður þurftu þeir að fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Aukinn réttur nánustu aðstandenda til að fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi
Í ríkari mæli en áður verður heimilt að veita nánustu aðstandendum útlendinga sem dvelja hér á landi tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Hér má sérstaklega nefna nánustu aðstandendur íþróttamanna og námsmanna sem stunda doktors- eða meistaranám á háskólastigi.

Atvinnuleyfi vegna vinnustaðanáms
Heimilt verður að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna náms sem fram fer á vinnustað hér á landi. Hér er átt við verk- eða starfsnám. Meðal skilyrða fyrir því að slíkt leyfi fáist veitt er að fyrir liggi staðfesting frá viðkomandi menntastofnun um að nám útlendings á vinnustað sé nauðsynlegur hluti af námi hans.

Atvinnurekandi getur óskað eftir því að sérfræðingar geti hafið störf strax
Almenna reglan er sú að útlendingur getur ekki hafið störf fyrr en bæði dvalar- og atvinnuleyfi hafa verið veitt. Á því verður breyting á hvað varðar störf sérfræðinga. Atvinnurekandi, sem ætlar að ráða útlending í starf sem krefst sérfræðiþekkingar, mun þannig geta óskað eftir því að útlendingur fái að hefja störf áður en dvalarleyfi hefur verið veitt. Skilyrði fyrir slíkri heimild er að atvinnuleyfi hafi verið veitt og að atvinnurekandi ábyrgist kostnað við að senda útlending aftur heim komi til þess að honum verði synjað um dvalarleyfi.

Óbundið atvinnuleyfi fellt brott
Óbundið atvinnuleyfi er fellt brott úr lögunum og verða allir útlendingar sem fá ótímabundið dvalarleyfi hér á landi undanþegnir kröfunni um atvinnuleyfi.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.