Tilkynning Vinnumálastofnunar vegna yfirstandandi sjómannaverkfalls

Í ljósi þess ástands sem skapast hefur hjá fiskvinnslufyrirtækjum í kjölfar sjómannaverkfallsins telur Vinnumálastofnun rétt að varpa ljósi á þær leiðir sem fyrirtækin geta valið til að aðstoða starfsfólk sitt á meðan á verkfallinu stendur. Unnt er að bregðast við með tvennum hætti :

  1. Tilkynna lokun skv. lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, nr. 51/1995.
    Í lögunum er heimild til Vinnumálastofnunar um að fjölga dögum sem greitt er fyrir vegna hráefnisskorts sem stafar af verkföllum og/eða verkbönnum.

  1. Tilkynna um rekstrarstöðvun skv. lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979.

Vinnumálastofnun mun taka fullt tillit til þessara lagaheimilda við móttöku og skráningu hráefnisskorts og rekstrarstöðvunar sbr. fyrrgreind lög. Það þýðir að stofnunin mun huga að fjölga dögum sem greitt er fyrir í hráefnisskorti. Jafnframt getur starfsfólk fengið greiddar atvinnuleysistryggingar þrátt fyrir að vera í ráðningarsambandi við viðkomandi fyrirtæki í fiskvinnslu.

Kjósi fyrirtæki að fara leið A þá ber því að tilkynna Vinnumálastofnun um rekstrarstöðvun vegna hráefnisskorts, sjá meðfylgjandi slóð á heimasíðu stofnunarinnar: https://www.vinnumalastofnun.is/atvinnurekandi/fiskvinnslufyrirtaeki

Í þessu tilviki rofnar ekki ráðningarsambandið á milli atvinnurekanda og starfsmannsins, fyrirtækið heldur áfram að greiða honum laun en Vinnumálastofnun greiðir sem samsvarar grunnatvinnuleysisbótum í styrk með hverjum einstaklingi.

Kjósi fyrirtæki að fara leið B þá tilkynnir það stofnuninni um stöðvun rekstrar og gagnkvæm skylda um laun og störf á milli atvinnurekanda og starfsmanns fellur niður. Hver og einn starfsmaður þarf að sækja sjálfur um atvinnuleysisbætur í þessu tilviki og er umsóknin metin skv. lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Sótt er um með rafrænum hætti á heimasíðu Vinnumálastofnunar, sjá meðfylgjandi slóð :

https://www.vinnumalastofnun.is/

Um er að ræða persónuleg tryggingaréttindi sem starfsmenn hafa áunnið sér og eru réttindi hvers og eins metin og greiðslur dragast frá bótatímabili viðkomandi einstaklinga.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.