Í dag getur samkeppnin um góð störf verið hörð. Jafnvel hundruðir sækja um eftirsóknarverð störf. Því er viðbúið að þeir sem eingöngu treysta á að fá vinnu gegnum auglýst störf séu lengur að fá starf í dag en áður. Það getur hjálpað að vera talsvert sveigjanlegur, vera t.d. tilbúin að flytja milli staða fyrir starf til þess að fá tækifæri. Samsetning þeirra sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun hefur verið að breytast s.l. ár. Í dag er stærra hlutfall háskólamenntaðra á skrá en nokkru sinni, það er liðin tíð að háskólamenntun sé trygging fyrir því að fá starf. Þróunin hefur lengi verið þannig erlendis, sem dæmi má geta þess að í bandaríkjunum er helmingur háskólamenntaðra í starfi þar sem ekki er krafist háskólamenntunar.

En þá eru góð ráð dýr, ef ekki er hægt að stóla á auglýst störf.

Í rauninni er það þannig að mjög margir fá störfin sín í gegnum tengslanet. Hugsaðu aðeins til baka, hvernig hefur þú fengið störfin sem þú hefur sinnt gegnum tíðina? Ekki er óalgengt að t.d. fyrsta starfsreynsla sé í starfi sem fékkst í gegnum tengsl foreldra við atvinnulífið.

Allir eru með eitthvað tengslanet. Auðvitað er stærð tengslanetsins misjöfn og einstaklingar tilheyra mis mörgum hópum. Aldur, fyrri reynsla, menntun, orðspor: allt hefur sín áhrif.

Hvað er tengslanet?

Tengslanetið þitt er fólkið sem þú hefur kynnst í gegnum tíðina. Samnemendur, fyrrum samstarfsfólk, fólk sem þú hefur hitt í gegnum hópa sem þú hefur tilheyrt s.s kórinn þinn, foreldrafélagið ofl. Fólk sem þú kannast við, fólk sem þú treystir þér til að leita til um hvernig staðan er á þeirra vinnustað eða í faginu sem viðkomandi tilheyrir. Þú leitar auðvitað fyrst til einstaklinga sem þú telur að sé þér vinveitt, sem þekkir þig af gjörðum þínum eða umtali. Þetta snýst ekki um að vera að notfæra sér annað fólk, heldur snýst þetta um að þú ert að koma þér á framfæri, leita hófanna, sýna áhuga og metnað og vilja til að mynda góð tengsl.

Dæmi um tengslanet:

Fjölskyldumeðlimir, vinir, nágrannar, skólafélagar, kennarar, núverandi og fyrrverandi starfsfélagar, æfingafélagar, kunningjar úr félagsstarfi, sjálfboðaliðastarfi, foreldra- og bekkjarstarfi ofl. Þetta geta verið fyrrum yfirmenn, viðskiptavinir, verktakar eða einhver sem þú hefur tengst í gegnum fyrri störf. Kannski er þetta jafnvel einstaklingur sem þú þekkir lítið en veist að þið hafið svipuð áhugamál eða tilheyrið sama faginu og þú treystir þér til að leita til. Kannski ertu í fagfélagi eða í stéttarfélagi sem er með fingurinn á púlsinum. Síðast en ekki síst eru samfélagsmiðlarnir drjúgir í tengslamyndun, facebook, Instagram, tweet og ekki síst Linked In.

Það er einfaldlega þannig að ekki eru öll störf auglýst. Ekki fara allar ráðningar fram í gegnum ráðningarstofur eða fjölmiðla. Stundum eru störf eingöngu auglýst innan fyrirtækisins og spyrjast þannig út. Kannski þarf að ráða inn starfsmann með stuttum fyrirvara og atvinnurekandinn var einmitt að fá senda ferilskrá og kynningarbréf þar sem áhugasamur er að leita hófanna og getur komið í atvinnuviðtal daginn eftir. Það er vissulega betra að ráða inn starfskraft sem hefur lýst yfir áhuga og sýnt hann með gjörðum sínum, það getur verið einmitt hluti af því að velja rétta manneskju á réttan stað. Þess ber þó að geta í lokin að öll laus störf hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, ber lögum samkvæmt að auglýsa.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni