Tilfinningarússibani og atvinnuleit;

Að standa á tímamótum, að vera í atvinnuleit, lenda í óvæntri uppsögn, er ávísun á áfall,  í besta falli á dálítinn tilfinningarússibana. Einn daginn gengur allt vel, framtíðin björt og allt leikur í höndunum og svo næsta dag, eða jafnvel nokkrum mínútum síðar er veröldin hrunin, áhyggjur og kvíði einkennandi og örvænting; Hvað ætli sé að fara að taka við í þessu lífi? Vissulega geta líka falist í því tækifæri að lenda í þessari stöðu en það getur tekið talsvert langan tíma að sjá það. Alla vega kalla svona breytingar á mikla aðlögun sem getur verið tímafrek. Allar aðstæður eru breyttar og þessu fylgir mikil óvissa og enginn veit hvenær þessu tímabili lýkur. Sveiflurnar geta verið háar og farið hratt yfir.

Það getur verið ágætt að gera sér grein fyrir þessu, þekkja sín eign viðbrögð og gefa sér það svigrúm sem þarf til að vinna úr hlutunum og ana ekki að neinu. Settu þér því hæfileg markmið og áætlun sem þú treystir þér til að fylgja og vertu í góðu sambandi við fólk í kringum þig sem er hvetjandi og skilur aðstæður þínar og ekki gleyma að þetta er tímabil sem mun líða hjá.

Að missa starfið sitt, tengsl við samstarfsfélaga, menninguna í  vinnunni, árlega árshátíð og annað, verkin sín og framtíðarvonir getur kallað á sorgarferli. Léttara er að takast á við áfallið ef það eru fleiri sem lenda í þessu á sama tíma, s.s. vegna samdráttar eða ytri aðstæðna. En að missa starfið sitt getur verið líkt því að missa nákominn ástvin.

Vissulega vinna engir tveir eins úr sorg, en þó má segja að sorgarferlið sé ákveðið þekkt ferli sem flestir upplifa sem lenda í sorg á annað borð. Að upplifa sorg er ekki einhver ein tilfinning heldur samansafn af allskonar tilfinningum. Fyrst kemur óraunveruleikatilfinning og doði, við getur tekið uppnám, vanlíðan og jafnvel reiði, einnig depurð sem getur þróast í þunglyndi með tímanum ef ekkert er að gert. Það getur skipt sköpum að leita sér aðstoðar fagaðila og uppbyggilegra vina.

Eftir því sem tímanum líður og fólk fer að átta sig og sættast við það sem gerðist, geta svo skapast ný tækifæri, ný von verður til og bjartsýni eykst. Ýmislegt óvænt eða nýtt getur rekið á fjörurnar s.s. nýtt starf, nám, námskeið sem kveikir neista og hugmyndir svo dæmi sé nefnd. Kannski er hér tækifæri til að fara eigin leiðir og verða sinn eigin atvinnurekandi eða venda sínu kvæði í kross og hefja allt annan starfsferil í annarri grein.

Það er kannski hægara sagt en gert en reyndu af fremsta megni að taka þessu sem minnst persónulega, þú lentir í aðstæðum þar sem þú réðst ekki ferðinni og sennilega höfðu aðstæðurnar ekkert með þig að gera. Stundum snýst þetta bara um að vera rétt kona/maður á réttum stað.

Í þessu ferli öllu mun reyna á styrkleika þína og seiglu. Að gefast ekki upp þótt á móti blási og leita nýrra lausna. Vertu tilbúin að prófa nýjar leiðir og vera ófeimin að leita ráða hjá öðrum, kannski gömlum samstarfsfélaga eða skólafélaga ofl. Reyndu að skapa þér aðstæður þar sem þú hefur sem mesta trú á eigin getu með þeim aðferðum sem henta þér.  Vertu vel á þig kominn þegar þú ferð í næsta atvinnuviðtal eða kemur þér á framfæri með einhverjum hætti. Haltu rútínu þar sem þú ferð á fætur á morgnanna, ferð í göngutúr, hreyfir þig, hittir annað fólk og hugar að líðan þinni, borðar hollt og reglulega og hlúir að þér.

Kannski þarftu að taka að þér starf sem gefur þér salt í grautinn, þótt ekki sé það draumastarfið en þú heldur þá bara áfram að leita að réttara starfi fyrir þig samhliða. Gerðu þér grein fyrir hverju í aðstæðunum þú hefur stjórn á og hverju ekki. Listaðu það niður á blað sem þú hefur svo hjá þér til að minna þig á. Svo reynir þú að vinna í þeim þáttum sem þú hefur stjórn á og sleppir hendinni af öðru. Það eina sem við getum valið í þessum aðstæðum er hvernig við bregðust við og reyna að velja okkur viðhorf sem er gagnlegt.

Yfirleitt er ekki við neinn að sakast, hertu upp hugann, gerðu það sem þú getur í málunum, settu þér upp áæltun, ekki ætla þér um of heldur skiptu verkefnunum niður í viðráðanlega bita og svo vinnur þú markvisst og skipulega í þínum málum.

Leitaðu óhikað til ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun. Skoðaðu námskeiðin sem eru í boði og námsstyrki og önnur úrræði sem eru í boði. Skoðaðu verkefnið Frumkvæði, ef þú t.d. gengur með hugmynd að fyrirtæki í maganum. Frumkvæði er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni