Meðal verkefna Vinnumálastofnunar er að annast skipulag vinnumarkaðsúrræða, en þar er um að ræða styttri námskeið, starfstengd úrræði, námsúrræði, atvinnutengd endurhæfing og ráðgjöf.

Þjónusta ráðgjafa Vinnumálastofnunar miðast við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins atvinnuleitanda, þar sem lagt er mat á vinnufærni atvinnuleitanda þegar hann sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Á grundvelli matsins er gerð áætlun um atvinnuleit hans og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum, eða honum leiðbeint um aðra þjónustu ef þörf er talin á.

Vinnumálastofnun er heimilt að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra sem tryggðir eru úr sjóðnum í vinnumarkaðsaðgerðum sem nemur bótarétti þeirra.

Samvinnan er vinnumarkaðsúrræði með þáttöku fyrirtækja, sveitarfélaga, stofnana eða frjálsa félagasamtaka.

Hvernig virkar samvinnan?

Fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir og frjáls félagasamtök geta fjölgað starfsmönnum með þáttöku í vinnumarkaðsúrræðum. Atvinnurekandi ræður einstakling sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Atvinnurekandi greiðir einstaklingnum laun samkvæmt gildandi kjarasamningum en á móti þeim greiðslum greiðir Vinnumálastofnun atvinnurekandanum grunnatvinnuleysisbætur einstaklingsins ásamt 8% mótframlagi í lífeyriss

Markmiðið  er að atvinnuleitandi fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið eða stofnunin starfar innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.

Samningur

Vinnu­mála­stofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og viðkomandi atvinnuleitandi undir­rita samn­ing um starfsþjálfun. Með undirritun sinni skuldbindur atvinnuleitandi sig til að taka þátt í þeirri starfsþjálfun sem honum ber á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnu­mála­stofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fyrirtækis eða stofnunar. Þá skuldbindur hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjara­samnings.

Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í tólf mánuði eða lengur þegar samningur er gerður, greiðir Vinnumálastofnun atvinnurekanda styrk sem nemur fjárhæð grunn­atvinnuleysis­bóta í hlutfalli við starfshlutfall við­kom­andi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals skemur en í tólf mánuði þegar samningur er gerður greiðir Vinnumálastofnun atvinnurekanda sem nemur 50% af fjárhæð grunn­atvinnuleysisbóta í hlutfalli við starfshlutfall við­kom­andi atvinnuleitanda auk 11,5% mótframlags af styrkfjárhæð í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði.

Óheimilt er að framlengja gildistíma samnings vegna sama atvinnuleitanda nema atvinnuleitandinn hafi skerta starfsorku og nauðsynlegt sé að veita honum lengri tíma til þjálfunar að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og er þá einungis heimilt að framlengja gildistíma samnings einu sinni í aðra sex mánuði að hámarki.

Starfstengd vinnumarkaðsúrræði telja ekki af bótarétti atvinnuleitanda og því þarf atvinnuleitandi ekki að staðfesta atvinnuleit á meðan úrræðinu stendur.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðaliðastarfi enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði.

Vinnumálastofnun, frjálsu félagasamtökin og atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn um samþykki sitt. Með undirritun sinni samþykkir atvinnuleitandinn að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi sem hann hefur valið sér en samhliða starfi sínu sem sjálfboðaliði skal hann vera í virkri atvinnuleit.

Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleitanda á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar og skulu frjálsu félagasamtökin sjá til þess að atvinnuleitandi sé slysatryggður við sjálfboðaliðastarfið.

Frjálsu félagasamtökin sem gera sjálfboðaliðastarfssamning skulu tilnefna sérstakan tengilið við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skulu þeir vera í reglulegum samskiptum á gildistíma samningsins til að meta framvindu hans. Atvinnuleitandi skal jafnframt vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Sá tími sem þátttaka í sjálfboðaliðastarfi stendur yfir telst ekki til ávinnslutímabils.

Vinnumálastofnun er heimilt að gera sérstakan starfsendurhæfingarsamning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

Með starfsendurhæfingarsamningnum skuldbindur atvinnuleitandi sig til að taka fullan þátt í starfsendurhæfingaráætlun sem hann hefur gert í samvinnu við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og aðra þjónustuaðila, og greiðir Vinnumálastofnun honum á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar.

Skilyrði er að starfsendurhæfingaráætlunin komi til með að nýtast atvinnuleitandanum beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og sé til þess fallin að skila honum árangri við að finna starf.

Atvinnuleitandi skal eiga regluleg samskipti við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og aðra þjónustuaðila, þegar við á, meðan á gildistíma starfsendurhæfingarsamnings stendur en hann þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á sama tíma.

Gildistími hvers starfsendurhæfingarsamnings getur að hámarki verið þrettán vikur. Heimilt er að framlengja starfsendurhæfingarsamninginn einu sinni enda hafi starfsendurhæfingin borið viðunandi árangur að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Starfsendurhæfingaráætlun er fylgiblað með samningi um atvinnutengda endurhæfingu

Sá tími sem starfsendurhæfing á grundvelli starfsendurhæfingarsamnings stendur yfir telst ekki til ávinnslutímabils.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.