Afgreiðsla

Afgreiðslutími, vextir og staðgreiðsla skatta

Við gjaldþrotaúrskurð er skipaður skiptastjóri í þrotabú vinnuveitenda. Krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa er aðeins tekin gild berist hún sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaðinu þar sem skiptastjóri hefur ákvarðað kröfulýsingarfrest. Heimilt er þó að taka til greina kröfu sem berst innan 12 mánaða ef sýnt er að ekki hafi verið hægt að gera hana fyrr.

Að afstöðnum skiptafundi sendir skiptastjóri Ábyrgðasjóði launa umsögn yfir þær kröfur sem samþykktar hafa verið sem forgangskröfur í þrotabúið. Venjulega líða um 3-4 mánuðir frá gjaldþrotaúrskurði þar til umsögn skiptastjóra berst sjóðnum. Að því loknu tekur sjóðurinn að öllu jöfnu afstöðu til krafnanna innan fjögurra vikna. Ef ekki er hægt að taka afstöðu innan frestsins er kröfuhafa það tilkynnt og gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Kröfur sem sjóðurinn greiðir bera vexti, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Vextirnir reiknast frá gjalddaga krafnanna til þess dags sem þær eru greiddar.

Ábyrgðasjóði launa ber skylda til að reikna staðgreiðslu skatta af launakröfum og kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti og skila til innheimtumanns í samræmi við lög um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Eigi launamaður ónýttan persónuafslátt á því ári sem afgreiðsla fer fram er hægt að nýta hann til frádráttar reiknaðri staðgreiðslu.

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu