Spurningar og svör

1. Hve langur er afgreiðslutími sjóðsins eftir að samþykki skiptastjóra liggur fyrir?

Eftir að Ábyrgðasjóði launa berst umsögn og kröfuskrá skiptastjóra tekur sjóðurinn að öllu jöfnu afstöðu til krafnanna innan fjögurra vikna.

2. Hversu langan tíma tekur að fá greitt úr sjóðnum?

Ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa til greiðslu krafna er háð því skilyrði að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. lögum um gjaldþrotaskipti. 

Við gjaldþrotaúrskurð er skipaður skiptastjóri í þrotabú vinnuveitanda sem fer með öll mál sem lúta að meðferð þrotabúsins.  Kröfulýsingarfrestur er sá tími sem kröfuhafar hafa til að lýsa inn kröfum í þrotabúið.  Að öllu jöfnu er sá frestur um tveir mánuðir, en standi sérstaklega á má skiptastjóri skv. lögum ákveða að fresturinn verði tiltekinn mánaðarfjöldi, frá þremur til sex mánaða. 

Eftir lok kröfulýsingarfrests gerir skiptastjóri kröfuskrá þar sem hann lætur í ljós afstöðu sína til viðurkenningar eða höfnunar hverrar kröfu fyrir sig.  Eftir að Ábyrgðasjóði launa berst umsögn og kröfuskrá skiptastjóra tekur sjóðurinn að öllu jöfnu afstöðu til krafnanna innan fjögurra vikna.

3. Hver er ábyrgð sjóðsins á launum?

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu vangoldinna vinnulauna þrjá síðustu starfsmánuði fyrir gjaldþrotaúrskurð vinnuveitenda sem falla innan ábyrgðartímabils.  Til vinnulauna teljast greiðslur vegna umsamins vinnuframlags launamanns, þ.á.m. launauppbætur, í hlutfalli við þann tíma sem krafa nýtur ábyrgðar sjóðsins. Sjóðurinn ábyrgist einnig kröfur launamanna um bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði vegna slita á ráðningarsamningi eða í uppsagnarfresti.  

4. Innan hvaða frests er hægt að sækja um greiðslu?

Krafa á hendur Ábyrgðasjóði launa er aðeins tekin gild berist hún sjóðnum innan sex mánaða frá birtingu innköllunar í Lögbirtingablaðinu þar sem skiptastjóri hefur ákvarðað kröfulýsingarfrest.  Heimilt er þó að taka til greina kröfu sem berst innan 12 mánaða ef sýnt er að ekki hafi verið hægt að gera hana fyrr.

5. Hver er hámarksábyrgð vegna launa?

Hámarksábyrgð Ábyrgðasjóðs launa vegna vangoldinna launa eða bóta vegna slita á ráðningarsamningi, sem falla í gjalddaga eftir 1. janúar 2015 er 385.000 kr. fyrir hvern mánuð. 

Hafi vinnuveitandi greitt upp í launakröfurnar fyrir gjaldþrotaúrskurð koma þær greiðslur til frádráttar.  Á sama hátt koma greiddar atvinnuleysisbætur og atvinnutekjur á uppsagnarfresti til frádráttar kröfum um bætur vegna launamissis í uppsagnarfresti.

6. Er hægt að sækja um greiðslu launa og orlofs hjá Ábyrgðasjóði launa vegna vinnuveitanda sem ekki er orðinn gjaldþrota?

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu orlofslauna skv. lögum nr. 30/1987 í þeim tilvikum sem atvinnurekandi hefur ekki staðið skil á greiðslu þeirra, án þess þó að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta.  Ábyrgð sjóðsins nær til greiðslu orlofs sem unnið hefur verið til á síðustu 18 mánuðum.

Ábyrgð sjóðsins nær ekki til greiðslu vangoldinna vinnulauna hjá vinnuveitanda sem ekki er orðinn gjaldþrota. 

7. Fyrir hversu langt tímabil eru lífeyrisréttindi tryggð?

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist kröfu lífeyrissjóðs um lífeyrissjóðsiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag.  Heimilt er að miða við frestdag ef sú niðurstaða er hagstæðari fyrir kröfuhafa.

Ábyrgðin takmarkast við 12% lágmarksiðgjald og allt að 4% viðbótarlífeyrissparnað samkvæmt samningi um viðbótartryggingarvernd eða kjarasamninga. 

8. Eiga stjórnendur fyrirtækja rétt á greiðslu?

Kröfur framkvæmdarstjóra og stjórnarmanna hins gjaldþrota fyrirtækis njóta ekki ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa og gildir hið sama um eigendur að verulegum hlut í fyrirtækinu.  Á þetta hvoru tveggja við um greiðslu launa og lífeyrissjóðsiðgjalda vegna gjaldþrots og greiðslu orlofs vegna greiðsluerfiðleika vinnuveitanda.

9. Er ábyrgð á lögfræðikostnaði vegna krafnanna?

Njóti krafa ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa á kröfuhafi rétt á greiðslu eðlilegs kostnaðar vegna innheimtu hennar, þ.m.t. dæmds málskostnaðar.  Auk kostnaðar ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu skiptatryggingar sem launamaður eða lífeyrissjóður hefur greitt. 

Ábyrgð sjóðsins á kröfum vegna innheimtukostnaðar nær eingöngu til krafna vegna lögfræðiþjónustu og nauðsynlegs útlagðs kostnaðar og miðast ávallt við gerða kröfu. 

Stjórn Ábyrgðasjóðs launa setur reglur sem ráðherra staðfestir um hámark á greiðslu kostnaðar og önnur skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á kröfum.

 

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu