Ýmis ákvæði

Kæruheimild

Heimilt er að kæra ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa til félags- og jafnréttismálaráðuneytisins innan tveggja mánaða eftir að aðila barst tilkynning um ákvörðunina.  Kæra telst nægilega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist ráðuneytinu eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. 

Ráðuneytið skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að því berst mál til úrskurðar. Þetta skerðir þó ekki rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.

Skilyrði ábyrgðar

Sá sem gerir kröfu á hendur Ábyrgðasjóði launa má ekki aðhafast neitt það sem rýrt gæti endurkröfurétt sjóðsins á hendur búi vinnuveitanda.  Er honum óheimilt að samþykkja, án sérstaks leyfis stjórnar sjóðsins, að kröfur komist að við gjaldþrotaskipti sem ekki hefur verið lýst fyrir lok kröfulýsingarfrests.  Brjóti kröfuhafi eða umboðsmaður hans gegn þessu ákvæði fellur ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa niður.

Hafi launamaður framselt launakröfu sína á hendur vinnuveitanda áður en bú vinnuveitanda var tekið til gjaldþrotaskipta nýtur krafan ekki ábyrgðar sjóðsins.  Þetta á ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi eða Atvinnuleysistryggingasjóði.

Endurkrafa

Hafi greiðslu verið aflað úr Ábyrgðasjóði launa með því að gefa rangar upplýsingar eða leynt hafi verið atriðum sem leitt hefði til synjunar eða lækkunar greiðslu úr sjóðnum ber þeim er greiðsluna fékk að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hefur ranglega fengið. 

Krafa um endurgreiðslu fellur úr gildi fyrir fyrningu þegar tvö ár eru liðin frá því greiðsla átti sér stað.

Telji stjórn Ábyrgðasjóðs launa að greiðslu hafi verið aflað með saknæmum hætti er málinu vísað til opinberrar rannsóknar.  

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu