Ættleiðingarstyrkur

Markmið laga 152/2006 um ættleiðingarstyrki er að aðstoða kjörforeldra vegna þess kostnaðar sem skapast við ættleiðingarferlið.

Ef kjörforeldrar uppfylla skilyrði laganna kunna þeir að eiga rétt á eingreiðslu að upphæð kr. 687.660,-. Ef ættleidd eru fleiri en eitt barn samtímis er veittur styrkur vegna hvers barns umfram eitt sem nemur 20% af þeirri upphæð.

Ættleiðingarstyrkur er eingreiðsla sem er greidd út samkvæmt umsókn kjörforeldra þegar erlend ættleiðing hefur verið staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi hefur verið gefið út hér í samræmi við ákvæði laga um ættleiðingar.  Kjörforeldrar sem hafa fengið útgefið forsamþykki í samræmi við lög um ættleiðingar eiga einir rétt á ættleiðingarstyrk.  Þessi réttur er ekki framseljanlegur.

Skattalagning
Ættleiðingarstyrkir eru undanþegnir staðgreiðslu skatta og hefur lögum um tekjuskatt verið breytt, sbr. 30. gr. l. nr. 90/2003.  Þannig að nú er leyfður frádráttur frá tekjum sem byggist á sannanlegum kostnaði sem fólk verður fyrir við ættleiðingu barns.  Skilyrði fyrir frádrættinum er að fullnægjandi reikningar liggi að baki.  Aldrei er þó leyfð hærri fjárhæð til frádráttar en talin yrði til tekna sem ættleiðingarstyrkur.  Ef fjárhæð frádráttar verður lægri en styrkurinn ber að greiða tekjuskatt af mismuninum.  Á skattframtali er styrkurinn talinn upp sem tekjur, skv. útgefnum launamiða, en framteljendur skrá inn kostnað á móti.

Umsókn
Sækja skal um styrk innan sex mánaða frá því erlend ættleiðing er staðfest hér á landi eða ættleiðingarleyfi hefur verið gefið út hér í samræmi við lög um ættleiðingar.  Réttur til ættleiðingarstyrks fellur niður að þessum tíma liðnum.

Umsókninni skulu fylgja eftirfarandi fylgigögn:

  • Staðfesting Þjóðskrár um lögheimili umsækjenda samkvæmt íbúaskrá

  • Forsamþykki sýslumanns til ættleiðingar barns erlendis frá

  • Staðfesting erlends stjórnvalds um ættleiðinguna

  • Bréf frá sýslumanni um áritun/stimplun hins erlenda ættleiðingarskjals

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu