Starfsleitar- og hvatningarnámskeið

Að efla eigin getu og styrkleika

Á þessu námskeiði verða kenndar aðferðir jákvæðrar sálfræði til að efla eigin getu, finna styrkleika sína og auka sjálfstraustið. Fjallað verður um þætti sem hafa áhrif á að lífið gangi vel og hvernig hægt er að framkalla jákvæðar tilfinningar og auka vellíðan og virkni í daglegu lífi. Hver og einn þátttakandi vinnur að áætlun, finnur út hverju hann vill breyta og hvað þarf að bæta til að lífið komist í meira jafnvægi. Fjallað verður um hvernig gildi okkar og styrkleikar stjórna því hvernig við hugsum og hegðum okkur. Kenndar verða leiðir til að auka þrautseigju, bjartsýni og von og hvernig hægt er að bæta gleði og hamingju inn í lífið. Aðferð markþjálfunar verður notuð í hverjum tíma til að aðstoða hvern þátttakanda til að sjá ný tækifæri og vinna að sinni framtíðarsýn.  Þátttakendur þurfa að vera tilbúnir að skoða sjálfan sig, vinna verkefni í tímum og taka þátt í umræðum.

Námskeiðið er 24 klst.

Umsjón:  Hugrún Linda Guðmundsdóttir

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

BTM - Breytingar, tækifæri, markmið

Námskeið í lífsskoðun, –styrkingu og stefnumótun
BTM er námskeið fyrir fólk sem óskar eftir að fara í sjálfsskoðunarferli. Þá sem vilja finna og efla innri styrk og/eða eru á krossgötum í lífinu, svo sem vegna atvinnumissis, veikinda, skilnaðar eða annarra persónulegra ástæðna sem skapa þörf fyrir endurskoðun á; „Hver er ég - hvar er ég - hvert fer ég... og hvernig fer ég þangað?"

Hvers vegna virkar það?  

Vegna þess að þér er mætt þar sem þú ert og ég ber fullt traust til að þú hafir allan þann styrk sem þarf til að gera þær breytingar sem eru bestar fyrir ÞIG. 

Því BTM byggir á hugmyndafræði NLP og markþjálfun sem eru mjög virkar aðferðir til sjálfsskoðunar, styrkingar og stefnumótunar og mikið notaðar í heiminum í dag.
Þú færð enn betri innsýn í þig og lífsstöðu þína sem getur skapað frekari löngun og hvatningu til að gera þær breytingar sem þarf til að öðlast það líf sem ÞÚ óskar.
Þér er kennt að nýta viðeigandi „verkfæri“ sem hjálpa þér að ganga í gegnum óvæntar Breytingar, sjá ónotuð Tækifæri og nýta nýja  Möguleika“.

Umsjón: Hrefna Birgitta Bjarnadóttir

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Færniþættir á 21. öldinni. Námskeið ætlað háskólamenntuðum

Námskeiðið er ætlað háskólamenntuðum og verður fjallað um styrkleika, samskiptafærni og samvinnu. Kynntir eru þeir þverfaglegu færniþættir sem vinnuveitendur telja mikilvægasta þegar þeir ráða starfsmenn í vinnu. Fjallað er um áherslur atvinnurekenda á færniþættina, samspil þeirra og tengingu við starfsánægju, styrkleika og trú á eigin færni. Þátttakendur ræða hvaða lykilfærniþáttum þeir búa yfir og hvernig þeir geta aukið gildi sitt sem starfsmenn með því að efla tiltekna færniþætti í eigin fari. Farið er yfir mikilvægi þess að mæta breytingum með jákvæðum hug og helstu leiðir til þess. Einnig er farið ítarlega í undirbúning fyrir atvinnuviðtöl, markmiðssetningu, leiðir til að gera atvinnuleitina árangursríkari og mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér á atvinnuleitartímabili.

Námskeiðið er 17,5 klst.

Umsjón:  Sigríður Hulda Jónsdóttir

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.  

Í leit að nýju starfi

Á námskeiðinu er atvinnuleit skoðuð á nýjum og breiðari grunni en almennt gerist. Námskeiðið vekur fólk til umhugsunar um viðhorf sitt til vinnunnar, fjölskyldunnar, lífsins sjálfs og mikilvægi þess að lifa hamingjusamari í nútímanum en festast ekki í hinu liðna. Þekkingaröflun á að vera gefandi og skemmtileg og því er þetta námskeið byggt upp á dæmisögum, myndskeiðum og opnum og frjálslegum umræðum þar sem allar skoðanir fá að njóta sín.

Viljir þú auka líkurnar á að fá starf við þitt hæfi og öðlast aukið sjálfstraust í atvinnuviðtalinu er þetta námskeið sem hentar þér. Gerðu þér grein fyrir gildi jákvæðs viðhorfs og auktu sjálfstraust þitt, horfðu bjartari augum til framtíðar og láttu ekki ótta stoppa þig í því sem þig langar til að gera.

Námskeiðið er  18 klst.

Umsjón:  Ásgeir Jónsson

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.  

Ný tækifæri

Lögð er áhersla á að draga fram styrkleika þátttakenda um leið og áskoranir eru skilgreindar og leiðir til að takast á við þær markaðar í því skyni að efla lífsgæði og tækifæri. Fjallað er um þá færniþætti sem mikilvægir eru í atvinnulífi og skilgreina þátttakendur styrkleika sína og áskoranir út frá færniþáttunum.

Fjallað er um árangursrík samskipti og samvinnu í teymi, áhugasvið og starfsánægju, tengingu hæfni, áhuga og árangurs. Þátttakendur taka áhugasviðsgreiningu og vinna með niðurstöður sínar undir handleiðslu námskeiðshaldara. Farið er ítarlega í tengsl atvinnuleitar, reynslu og sjálfsmyndar og mikilvæg atriði í atvinnuviðtali. Námskeiðið byggir á innleggi kennara, virkni og samvinnu þátttakenda ásamt markmiðssetningu.

Námskeiðið er 17,5 klst.

Umsjón: Sigríður Hulda Jónsdóttir

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.  

Sjálfstyrkingar- og starfsleitarnámskeið

Sjálfsmynd og sjálfstraust, samskipti og samskiptafærni, styrkleikar og markmiðasetning.

Starfsleit – ferilskrá, auglýsingar, viðtöl, notkun netmiðla og fleira.

Streita og kvíði og jákvætt hugarfar.

Námskeiðið er 27 klst.

Umsjón:  Menntasetrið við lækinn, Hafnarfirði

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.  

Virk atvinnuleit - starfsleitarnámskeið

Námskeiðinu er ætlað að undirbúa og hvetja einstaklinga fyrir árangursríka atvinnuleit. Megináhersla er lögð á að kenna aðferðir og tækni til starfsleitar. Þátttakendur fá aðstoð við að gera ferilskrá eða bæta ferilskrá sem til er ásamt því að sækja um rafrænt hjá ráðningaskrifstofum og beint hjá fyrirtækjum. Farið er yfir ýmsar leiðir í virkri atvinnuleit, m.a. að hafa frumkvæði, kynna sig í fyrirtækjum, nýta tengslanet og nota samfélagsmiðla. Þá fá nemendur þjálfun í að fara í atvinnuviðtal og undirbúa sig fyrir það. Lögð er áhersla á samskiptahæfileika, samskipti og hegðun á vinnustað, framkomu og tjáningu í atvinnuviðtalinu. Námskeiðið er haldið í tölvuveri.

Námskeiðið er 12 klst.

Umsjón: Sigurður Tómas Björgvinsson

Skráning á námskeið fer fram í gegnum netfangið namskeidhb@vmst.is Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.  

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu