Námskeið

Ef þú ert í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun á Norðurlandi eystra býðst þér að auka möguleika þína á vinnumarkaði með ýmsum úrræðum, m.a. námskeiðum sem eru þér að kostnaðarlausu. Til að ræða stefnu í atvinnuleit og aðstoð við atvinnuleit, auk möguleika til náms stendur atvinnuleitendum til boða þjónusta náms- og starfsráðgjafa og atvinnuráðgjafa. Ráðgjöfin hvetur einnig til virkrar þátttöku í uppbyggingu á eigin hæfni og hvernig má mæta breyttum aðstæðum.

Einnig býðst atvinnuleitendum að fara í áhugasviðsgreiningu hjá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar.

Hægt er að panta tíma í áhugasviðspróf og ráðgjöf í gegnum netfangið ellen.saemundsdottir@vmst.is og ingolfur.helgason@vmst.is 

Minnum á að atvinnuleitendur geta sótt um námssamning samhliða atvinnuleysisbótum og einnig námskeiðsstyrk. Skila þarf inn umsókn áður en námið /námskeið hefst. Nánari upplýsingar á nordurland.eystra@vmst.is 

Námskeiðin sem eru í boði eru fyrir þá atvinnuleitendur sem eru með samþykkta umsókn. Rétt er að benda á að þátttaka ræður hvort af námskeiði verður og því ekki tryggt að námskeið fari af stað.

Athugið að það er takmarkaður fjöldi sem kemst að á hverju námskeiði. Skráning á námskeið fer fram á netfanginu nordurland.eystra@vmst.is. Þegar tilskyldum fjölda er náð fá allir sem hafa skráð sig sms og tölvupóst til að staðfesta mætingu. Mikilvægt er að fram komi heiti námskeiðs, nafn og kennitala þátttakanda.

Ef atvinnuleitandi velur að sækja eitt af eftirtölum valnámskeiðum sem greitt er fyrir að fullu á hann ekki rétt á frekari námsstyrk á þeirri önn. Frekari upplýsingar um námsstyrki má finna hér.

Raunfærnimat í almennri starfshæfni

Fyrir atvinnuleitendur sem eru 25 ára og eldri,  hafa ekki lokið formlegu námi og hafa að lágmarki fimm ára starfsreynslu á vinnumarkaði. Í raunfærnimatinu er farið í sjálfstyrkingu, færnimöppugerð, sjálfsmat, hópavinnu, ferilskrá, náms- og starfsráðgjöf, viðtal við matsaðila og eftirfylgni náms- og starfsráðgjafa í hálft ár eftir að verkefninu lýkur. 

Starfsleitarstofa

Á námskeiðinu fer náms- og starfsráðgjafi yfir helstu þætti virkrar og markvissrar atvinnuleitar. Þátttakendur fá tækifæri til að skoða sig og þá reynslu sem þeir búa yfir þar sem kortlögð er færni og persónulegir styrkleikar hvers og eins. Þá setja þátttakendur sér raunhæf markmið þar sem hver og einn skoðar hvert hann vill stefna og hver væru fyrstu skrefin. Í kjölfarið gera allir ferilskrá og kynningarbréf og koma þannig til skila upplýsingum um hæfni og þekkingu.

Náms- og starfsráðgjafi kynnir fyrir þátttakendum vef VMST og þær vinnumiðlanir sem eru á svæðinu.  Farið er yfir mikilvægi þess að virkja tengslanetið, undirbúning fyrir atvinnuviðtöl og allir fá eitt „atvinnuviðtal“ á námskeiðinu.

Þátttakendum fá kynningu á þeim námsúrræðum sem eru í boði á svæðinu og möguleika þeirra þegar kemur að þeim. Námskeiðið er tilvalið fyrir alla sem vilja styrkja stöðu sína  og hefur margoft sýnt sig að þeir sem undirbúa sig hvað best á þessum tímamótum eru mun fyrri til að finna starf eða nýta sér önnur úrræði sem eru í boði.  

Lífsvefurinn - sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur

Lífsvefurinn er námskeið fyrir konur sem vilja læra að þekkja sjálfar sig betur og ná að vefa hinn margþætta vef lífsins á markvissan hátt.  Helstu efnisþættir námskeiðsins eru: sjálfsþekking, sjálfsmynd og samskipti; saga, hlutverk og staða kvenna; heilsa kvenna og tilfinningar; draumar og goðsagnir; fyrirmyndir og fordómar.

Markmiðin eru m.a. að: læra að þekkja og virða sjálfa sig; læra að greina og vinna úr því sem er erfitt og setja sér raunhæf markmið; læra leiðir til betri samskipta; styrkja jákvæða kvenímynd/sjálfsmynd sína; og þekkja sögu sína, lífsgildi, lífstilgang, rétt sinn og skyldur.

Leiðbeinandi: Valgerður H. Bjarnadóttir 

Íslenskunámskeið / icelandic - level 1 (beginners course)

Námskeið fyrir þá sem tala litla eða enga íslensku en langar að læra meira. Námskeiðið byggir mikið á talþjálfun og er grunnorðaforði kenndur með einföldum samtölum og verkefnum. Allir þættir tungumálsins eru þjálfaðir eins og skilningur, hlustun, tal, lestur og ritun.

Íslenskunámskeið / icelandic - level 2 (Second level course)

Ætlað þeim sem hafa áður sótt námskeið í íslensku og/eða þeim sem hafa nokkra undirstöðu. Lögð er áhersla á talað mál til daglegrar notkunar með umræðum í tímum. Allir þættir tungumálsins eru þjálfaðir eins og skilningur, hlustun, tal, lestur og ritun. Farið verður í grunnþætti í málfræði.

     

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.