Söguágrip

Stutt ágrip af sögu Atvinnuleysistryggingasjóðs

Á útmánuðum 1955 var háð langt og strangt verkfall. Til lausnar á verkfalli þessu var gerður samningur milli verkfallsaðila og ríkisstjórnarinnar þess efnis að sett skyldi löggjöf um atvinnuleysistryggingar. Þann 2. júní 1955 var skipuð nefnd til að semja frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og varð frumvarpið að lögum 7. apríl 1956. Fyrstu stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skipuðu sjö menn, einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn af Vinnuveitendasambandi Íslands og fimm skyldu kosnir af sameinuðu Alþingi. Tryggingaráðherra skyldi skipa formann og varaformann úr hópi þeirra aðalmanna sem valdir voru af sameinuðu Alþingi. Fyrsti fundur stjórnarinnar var haldinn 22 apríl 1956. Þar voru mættir stjórnarmenn kjörnir af sameinuðu Alþingi: Hjálmar Vilhjálmsson, ráðuneytisstjóri, sem hafði verið skipaður formaður, Óskar Hallgrímsson, rafvirkjameistari, varaformaður, Jóhann Hafstein, bankastjóri, Kjartan J. Jóhannsson alþingismaður og Eðvarð Sigurðsson, ritari Dagsbrúnar.

Miklar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað í starfsemi Atvinnuleysistryggingasjóðs frá fyrstu árum hans.  Um tíma voru úthlutunarnefndir atvinnuleysisbóta um 140 og greiðslustaðir atvinnuleysisbóta jafnmargir.  Í dag er starfrækt ein úthlutunarnefnd. Með lögum nr. 12/1997 um atvinnuleysistryggingar, sem tóku gildi 1. júlí 1997, urðu breytingar frá fyrri lögum þar sem Vinnumálastofnun falið að annast sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð í umboði sjóðstjórnar og undir umsjá og eftirliti hennar. Jafnframt urðu breytingar á öflun  réttar til atvinnuleysisbóta,  á lengd bótatímabils og fleira.  Enn var gerð breyting á skipulagi og rekstri Atvinnuleysistryggingasjóðs með lögum 54/2006 sem tóku gildi 1. júlí það ár. Með þeim var Vinnumálastofnun falið að annað annast allar greiðslur atvinnuleysistrygginga.  Sett var á fót sérstök greiðslustofa stofnunarinnar í þeim tilgangi og er hún staðsett á Skagaströnd.

Nú rekur Vinnumálastofnun níu  þjónustuskrifstofur út um landið en höfuðstöðvar hennar eru í Kringlunni 1 í Reykjavík.

Saga atvinnuleysistrygginga hefur verið skráð og kom út í bók árið 2007 undir heitinu Öryggissjóður verkalýðsins – baráttan fyrir atvinnuleysistryggingum á Íslandi. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafði forgöngu um útgáfu bókarinnar en höfundar er Þorgrímur Gestsson blaðamaður

 
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu