Umsókn um alþjóðlega vernd

Sótt er um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun eða lögreglu. Eftir að lögregla hefur skráð grunnupplýsingar,  tekið fingraför, rannsakað ferðaleið og auðkenni, sendir lögregla umsóknina þína  til Útlendingastofnunar til frekari vinnslu og ákvarðanatöku.

Meðan umsókn er til afgreiðslu hjá Útlendingastofnun útvegar Vinnumálastofnun húsnæði og grunnþjónustu. Í grunnþjónustu fellst t.a.m.:

  • Læknisaðstoð
  • Skólaganga
  • Almenningssamgöngur/strætó innan sveitarfélags

Vinnumálastofnun er með samninga við félagsmálayfirvöld í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og Reykjavík um að útvega húsnæði og grunnþjónustu f.h. stofnunarinnar.

Þjónustuviðtal

Ef þig vantar upplýsingar eða þarft aðstoð  þá geturðu  mætt í þjónustuviðtal.  Upplýsingar um tímasetningar þjónustuviðtala færðu í þínu búsetuúrræði.

Í þjónustuviðtali færðu  m.a.

      • Framfærslukort
      • Aðstoð við að panta læknistíma
      • Aðstoð við að panta tíma hjá sálfræðingi
      • Farmiða í almenningssamgöngur
      • Úrlausn af fyrirspurnum af ýmsu tagi

Húsnæði

Allir umsækjendur hefja búsetu í tímabundnum úrræðum Vinnumálastofnunar nema þeir kjósi að búa á eigin vegum. Búsetuúrræði á vegum Vinnumálastofnunar  eru flest á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.Öryggisvörður tekur á móti þér í búsetuúrræðinu og úthlutar þér herbergi, lyklum og fer yfir húsreglur.  Öryggisverðir í búsetuúrræðum  Vinnumálastofnunar starfa allan sólarhringinn og því er ávallt hægt að leita til þeirra í bráðatilfellum.

Framfærsla

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á vikulegum fæðispeningum. Skilyrði fyrir greiðslu fæðispeninga eru m.a. að viðkomandi búi ekki í húsnæði sem fylgir fæði, mæti í viðtöl og birtingar sem hann hefur verið boðaður til og gangist undir að fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda í búsetuúrræði.

Fæðispeningar eru greiddir vikulega á greiðslukort sem umsækjandi fær til umráða. Upphæð er breytilegt eftir fjölskyldustærð.

Engin fjölskylda fær meira en 28.000 sama hver stærð fjölskyldunnar er.

Heilbrigðisþjónusta

Sem umsækjandi um alþjóðlega vernd áttu rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og lyfjum sem eru þér nauðsynleg á meðan mál þitt er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Önnur læknisþjónusta, svo sem tannlækningar eða aðgerðir sem ekki er brýn þörf á, standa utan þeirrar þjónustu og verður ekki veitt nema að undangengnu mati trúnaðarlæknis Vinnumálastofnunar.

Göngudeild sóttvarna á Egilsgötu 3, 101 Reykjavík sinnir fyrstu læknisskoðun fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í þjónustunni felst meðal annars nauðsynleg heilbrigðisþjónusta, skimun fyrir smitsjúkdómum og áfallastreituröskun, sálfræðiþjónusta og bólusetningar.

Almenn læknisþjónusta og mæðra og ungbarnavernd fer svo fram á heilsugæslu nálægt þínu búsetuúrræði. Eftir fyrstu læknisskoðun skaltu leita í þjónustuviðtöl Vinnumálastofnunar til að óska eftir læknistíma.


Fyrsta læknisskoðun

Samkvæmt viðmiðunarreglum sóttvarnarlæknis er öllum umsækjendur um alþjóðlega vernd skylt að gangast undir læknisskoðun við komu til landsins. Fyrsta læknisskoðun fer fram á fyrstu vikum eftir komu, hvort sem um er að ræða barn eða fullorðinn einstakling. Vinnumálastofnun bókar tíma fyrir þig í fyrstu læknisskoðun. Athugaðu að Vinnumálastofnun hefur heimild til að skerða þjónustu ef þú mætir ekki í fyrstu læknisskoðun.

Í fyrstu skoðun mun læknir meta heilsufar þitt og veita viðeigandi meðferð ef á þarf að halda. Þá er lögð áhersla á skimun vegna smitsjúkdóma og annarra sjúkdóma auk þess að skimað.

Sálfræðiþjónusta

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á sálfræðiþjónustu. Umsækjendur sem upplifa einkenni áfallastreitu, þunglyndis og kvíða eru sérstaklega hvattir til að leita sér aðstoðar sálfræðings. Þú getur óskað eftir sálfræðiþjónustu í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun og einnig hjá Vinnumálastofnun.

Sálfræðiviðtöl fara flest fram á Göngudeild Egilsgötu 3, 101 Reykjavík en í sumum tilfellum er leitast eftir öðrum fagaðilum sé það metið svo.


Samgöngur

Vinnumálastofnun sér til þess að þú i komist ferða þinna til að sinna þeim erindum sem tengjast umsókn þinni, heilbrigðisþjónustu eða flutninga milli búsetuúrræða.

Allir þeir sem eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu fá úthlutað strætókorti innan höfuðborgarsvæðis.

Þeir umsækjendur sem eru búsettir á Ásbrú fá úthlutað strætókorti innan Reykjanesbæjar.

Í vissum tilfellum er Vinnumálastofnun með sérstakar samgöngur fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd til að komast milli staða. Upplýsingar um slíkar samgöngur getur þú nálgast í þjónustuviðtali.

Það er misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig samgöngum er háttað fyrir þá umsækjendur sem dvelja hjá þeim. En alltaf eru tryggðar samgöngur til að sinna erindum tengdum umsókn viðkomandi.

Eftir að umsækjendur flytja úr móttökumiðstöð fá þeir úthlutað símkorti séu umsækjendur með síma. Í sumum tilfellum fara boðanir og upplýsingar frá Rauða Krossinum á Íslandi, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnunar fram símleiðis.

Rauði Krossinn


Félagslegur stuðningur

Rauði krossinn býður upp á viðtalstíma fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd vikulega. Tilgangur tímanna er að skapa vettvang fyrir umræður um mál sem liggja umsækjendum á hjarta, hvort sem þau snúa að félagslegum þáttum, s.s. aðbúnaði og líðan, málsmeðferð eða tengslum við fjölskyldu í upprunaríki.

Í viðtalstímum er boðið upp á túlkaþjónustu í gegnum síma svo allir geta tjáð sig óhindrað.

Viðtalstímar Rauða Krossins

Viðtalstímar fara fram á eftirfarandi tímum:

Reykjavík
Miðvikudagar kl 12-15
Árskógar 4
Strætisvagnastöð: Mjódd

Keflavík
Fimmtudaga kl 12-15
Smiðjuvellir 8
Strætisvagnastöð: Fjölbrautarskóli

Félagsstarf

Rauði krossinn í Hafnarfirði og Garðabæ heldur úti félagsstarfi og stuðningi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Umsækjendum eru boðið upp á vettvang til að hittast og eiga samskipti sín á milli, en einnig mikilvæga tengingu við íslenskt samfélag og menningu.

 

Stuðningurinn sem Rauði krossinn veitir er tvíþættur; bæði heimsóknir til umsækjenda þar sem þeir búa og félagsstarf. Í félagsstarfinu er  meðal annars tungumálakennsla, hjólaverkefni, farið í stuttar ferðir, íþróttir stundaðar, gönguferðir í og við höfuðborgarsvæðið, safnaferðir og ýmis námskeið auk reglulegs félagsstarfs á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ.

https://virtualvolunteer.org/ síða fyrir umsækjendur á nokkrum tungumálum með helstu upplýsingum.

*Upplýsingar teknar af heimasíðu Rauða Krossins www.raudikrossinn.is


Atvinnuleyfi

Ef þú er umsækjandi um alþjóðlega vernd á Íslandi geturðu  sótt um bráðabirgða dvalar- og atvinnuleyfi á meðan umsókn er til meðferðar. Slíkt leyfi myndar ekki grundvöll fyrir búsetuleyfi og er háð ákveðnum skilyrðum. Leyfið er einungis veitt sem tímabundið úrræði þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir í máli þínu. 


Til að sækja um bráðabirgða dvalar- og atvinnuleyfi þarf að leggja fram:

  1. Umsókn um bráðabirgðadvalarleyfi, í frumriti, vel útfyllt og undirrituð af umsækjanda. 
  2. Umsókn um atvinnuleyfi vegna sérstakra aðstæðna, í frumriti og undirrituð af umsækjanda og atvinnurekanda og staðfest af viðeigandi stéttarfélagi.
  3. Ráðningarsamning sem nær lágmarksframfærslu. Samningurinn þarf að vera í frumriti og undirritaður af umsækjanda og atvinnurekanda.
  4. Annað sem þarf að liggja fyrir svo hægt sé að afgreiða umsókn:
  • Sjúkrakostnaðartrygging. Umsækjandi þarf að leggja fram staðfestingu tryggingar sem gildir jafn lengi og bráðabirgðadvalarleyfið frá tryggingafélagi með starfsleyfi á Íslandi.
  • Læknisvottorð sóttvarnarlæknis.

Tímabundið atvinnuleyfi:

Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta sótt um tímabundið atvinnuleyfi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Það er gert með umsókn til Vinnumálastofnunar þar sem fylgja þarf ráðningarsamningur, undirritaður af vinnuveitanda og umsækjanda, og yfirlýsing frá þinglýstum eiganda húsnæðis um að umsækjandi hafi þar búsetu. Verði umsókn samþykkt hafa umsækjendur ekki lengur rétt á að búa í búsetuúrræðum Útlendingastofnunar.


Umsækjendur sem eru í málsmeðferð samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni þurfa að hafa verið á landinu í þrjá mánuði áður en þeir geta sótt um atvinnuleyfi. Útfylltum umsóknum skal skila til Útlendingastofnunar sem kemur umsókn áfram til Vinnumálastofnunar.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni