Synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur á meðan á sumarlokun í leikskóla stendur staðfest - ráðningarsamningur í gildi
Nr. 79 - 2003

 

Úrskurður

 

Hinn 3. október 2003 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 79/2003.  Úrskurðarnefndin tók málið fyrir á fundi sínum þann 12. september s.l. en ákvað að fresta málinu til næsta fundar þann 3. október til frekari gagnaöflunar.

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið ákvað á fundi sínum þann 14. júlí 2003, að synja umsókn X frá 1. júlí 2003 um atvinnuleysisbætur.  Ákvörðunin var tekin með vísan til þess að hún væri með gildan ráðningarsamning og teljist ekki á vinnumarkaði á meðan.  Vísað var til 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 þar sem segir m.a. að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem verða atvinnulausir eigi rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögunum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.

 

2.

            X kærði framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 18. ágúst 2003.  Í bréfi sínu greinir hún frá því að henni hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur vegna sumarlokunar leikskóla á þeim forsendum að hún hafi ráðningarsamning við leikskólann og sé því ekki á vinnumarkaði á sama tíma.  Hún segist kæra ákvörðunina á þeim forsendum að hún sé nemi við Kennaraháskólann og sé þar af leiðandi ekki fastráðin við leikskólann.  Hún hafi verið ráðin á leikskólann til afleysinga án ráðningarsamnings, þ.e.um fastráðningu.  Starfsmaður úthlutunarnefndar hafi hins vegar tjáð henni að hún væri með ráðningarsamning í þrjá mánuði, sem sé ekki rétt.  Þegar að lokun leikskólans hafi komið var henni frjálst að taka að sér hvaða sumarvinnu sem væri fram að skóla.  Við lokun leikskólans í lok júní var henni boðið að hætta þar sem hún væri búin að leysa af í sumar, en þar sem hún er í skóla hafi hún ekki getað það fjárhagslega, þannig að leikskólastjórinn var svo elskuleg að leyfa henni að koma aftur í 8 daga eftir fríið.  Að mati X skýri þetta sig sjálft, það var ekki um neinn ráðningarsamning að ræða, henni hefði getað verið sagt upp hvenær sem var, þar sem hún hafi verið sumarstarfsmaður.  Að lokum vill X koma því að, að hún hafi átt í erfiðleikum með að finna sér sumarvinnu og hvað þá í 5 vikur vegna lokunarinnar.  Að sjálfsögðu hafi hún tekið því fegins hendi að fá að koma aftur, þó einungis væru um nokkra daga að ræða.

 

3.

            Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá Hb þar sem kemur fram að X hafi verið aðstoðarmaður á leikskóla.  Í vinnuveitendavottorðinu kemur fram að á árinu 2002 hafi hún starfað á leikskóla H tímabilið 21. maí til 31. ágúst.  Á árinu 2003 er vinnutímabil hennar sagt vera frá 6. maí til 30. júní, en vinnuveitendavottorðið er dagsett 7. júlí 2003.  Fyrir liggur ráðningasamningur dags. 16. maí þar sem segir að X sé ráðin til sumarafleysinga við leikskólann H.  Í bréfi dags. 10. september 2003 frá leikskólastjóra H er staðfest að X hafi verið starfsmaður leikskólans tímabilið 6. maí 2003 til 15.ágúst 2003.  Í bréfinu segir leikskólinn hafi verið lokaður í 5 vikur í júlí/ágúst og að þann tíma hafi X verið í launalausu leyfi.  Einnig liggur fyrir brottfarartilkynning frá launadeild Hb þar sem segir að síðasti vinnudagur X hafi verið 15. ágúst 2003.  Einnig liggur fyrir að sumarið 2002 starfaði X allt sumarið við sama leikskóla en þá var ekki um neina sumarlokun að ræða.

 

Niður­staða

 

1.

            Í 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, segir að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eigi rétt á bótum úr atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Í 5. tölul. 2. gr. laganna er það eitt af skilyrðum bótaréttar að umsækjandi hafi í upphafi bótatímabils verið skráður sem atvinnulaus í þrjá daga samfellt.

 

            Samkvæmt skriflegri staðfestingu leikskólastjóra dags. 10. september var kærandi starfsmaður við leikskólann tímabilið 6. maí 2003 til og með 15. ágúst 2003 og að hún hafi verið í launalausu leyfi í fimm vikur í júlí/ágúst er leikskólinn var lokaður. Fram hefur komið að kæranda var boðið að hætta störfum er leikskólinn lokaði, en hún kaus að hætta ekki og snúa aftur til starfa eftir sumarlokun. Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að þrátt fyrir að kærandi hafi verið ráðin til sumarafleysinga, þá hafi hún verið með gildan ráðningarsamning við leikskólann á H á því tímabili sem hún sótti um atvinnuleysisbætur.  Kærandi var því ekki atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, sbr. 1. gr. laganna. Það að áunninn orlofsréttur hennar hafi verið minni en samsvaraði sumarlokun leikskólans veitir henni ekki rétt til atvinnuleysisbóta. 

 

2.

 

            Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða útskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 14. júlí 2003 um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur.

 

 

Úr­skurðar­orð:

 

Ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 14. júlí 2003, um synjun á umsókn X um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Þuríður Jónsdóttir

for­maður

 

 

Árni Benedikts­son                                 Benedikt Davíðs­son

 

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni