Stefnumið Vinnumálastofnunar
Mannauðsstefna Vinnumálastofnunar miðar að því að fá til starfa, rækta og viðhalda mannauð sem nauðsynlegur er til að stofnunin nái að uppfylla tilgang sinn og markmið og starfsemin endurspegli þau gildi sem stofnunin vinnur eftir.
Jafnréttisstefna Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun vill vinna að því að skapa öllum starfsmönnum forsendur til að nýta og rækta styrkleika sína í þágu þjónustuþega. Mikilvægur liður í því er að ekki eigi sér stað mismunun á grundvelli kyns.
Eineltisstefna Vinnumálastofnunar. Það er stefna Vinnumálastofnunar að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustöðum stofnunarinnar. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.
Jafnlaunastefna og markmið Vinnumálastofnunar. 4.2 Stefna Vinnumálastofnunar er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.
Um ábyrgð tölvupósts.Vinnumálastofnun leggur áherslu á að meðhöndlun tölvupósts sé skv. lögum um fjarskipti.
- Mannauðsstefna
- Eineltisstefna
- Jafnlaunastefna
- Upplýsinga- og kynningarstefna
- Um ábyrgð á tölvupósti / Email Disclaimer
Mannauðsstefna
Mannauðsstefna Vinnumálastofnunar miðar að því að fá til starfa, rækta og viðhalda mannauð sem nauðsynlegur er til að stofnunin nái að uppfylla tilgang sinn og markmið og starfsemin endurspegli þau gildi sem stofnunin vinnur eftir.
Eftirfarandi áherslum er ætlað að stuðla að því.
Áætlunargerð:
- Gerðar skulu áætlanir um mannaflaþörf í takt við stefnu og áherslur stofnunarinnar.
- Til skulu vera starfsgreiningar og starfslýsingar á öllum störfum.
Ráðningar:
- Ráðningarferlið miðar að því að ráða til starfa hæfasta umsækjenda hverju sinni og framfylgja lögum og reglum.
- Við ráðningar skal leitast við að fá fólk sem er líklegt að samsama sig og vinna í takt við gildi stofnunarinnar.
- Ráðningarferlið skal efla faglega ímynd stofnunarinnar og upplýsa skal umsækjendur um stöðu umsóknar svo fljótt sem auðið er.
Halda í og rækta gott fólk:
- Taka skal þannig á móti nýju starfsfólki að það nái fljótt að aðlagast vinnustaðnum, tileinka sér þau vinnubrögð sem nauðsynleg eru til að skila góðu starfi og vinni í takt við markmið og gildi stofnunarinnar. Leitast skal við að nýta þá þekkingu sem nýr starfsmaður hefur til framþróunar fyrir starfsemina.
- Stjórnendur séu meðvitaðir um mikilvægi hvatningar og endurgjafar og beiti henni markvisst og reglulega.
- Lögð skal rækt við að starfsmenn viðhaldi og þrói þekkingu og faglega hæfni þannig að stofnunin sé ávallt vel í stakk búin að veita afburðar þjónustu. Gerð skal einstaklingsbundin þróunaráætlun í tengslum við árleg starfsmannasamtöl. Sérstök fræðslustefna skal vera til.
- Starfsmannasamtöl skulu fara fram einu sinni á ári. Fyrir starfsmannasamtölin skal gert frammistöðumat sem yfirmaður og starfsmaður ræða í starfsmannasamtalinu.
- Starfsmenn njóta jafns réttar óháð kynferði, aldri, fötlun, kynhneigð, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trú eða þjóðerni. Sérstök jafnréttisstefna skal vera til.
- Leitast skal við að bjóða uppá eins mikinn sveigjanleika er lítur að vinnutíma og jafnvægi vinnu og einkalífs og kostur er án þess að það komi niður á þjónustu við ytri og innri viðskiptavini.
- Hvatt skal til og stutt við að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni. Leitast skal við að vinnuumhverfi og vinnuaðstæður séu aðlaðandi og öruggar. Til skal vera öryggisáætlun
- Leitast skal við að starfsfólk stofnunarinnar myndi sterka liðsheild þar sem samskiptin einkennist af hreinskiptni, stuðningi og virðingu. Hegðun sem veldur öðrum vanlíðan og óþægindum verður ekki liðin. Til staðar skal vera sérstök eineltisáætlun.
- Launakjör eru ákveðin í kjarasamningum og taka jafnframt mið af einstaklingsbundnum þáttum í stofnanasamningum milli Vinnumálastofnunar og hlutaðeigandi stéttarfélags. Einnig skal leitast við að horfa til frammistöðu starfsmanna, hæfni þeirra til úrlausnar mála og þekkingar á viðfangsefninu við ákvörðun launa.
Starfslok
- Vanda skal til viðskilnaðar vegna starfsloka hver svo sem ástæða þeirra er. Leitast skal við að fram fari starfslokasamtal .
- Veita skal samstarfsfélögum nauðsynlegan stuðning og upplýsingar þannig að þeir geti áfram veitt viðskiptavinum góða þjónustu.
Eineltisstefna
Það er stefna Vinnumálastofnunar að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í samskiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnustöðum stofnunarinnar. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd.
Skilgreining stofnunarinnar á hvað einelti og kynferðisleg áreitni er styðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. gr.:
Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.
Stjórnendur bera ekki aðeins ábyrgð á störfum starfsfólks heldur einnig á því að grundvallarreglur samskipta á vinnustað séu virtar. Nýjum starfsmönnum er kynnt stefna og viðbragðsáætlun stofnunarinnar í eineltismálum strax við upphaf starfs.
Stefnan og viðbragsáætlunin eru rifjaðar upp reglulega á starfsmannafundum.
Á vinnustöðum geta komið upp ágreiningsmál og hagsmunaárekstrar sem valdið geta óþægindum. Mikilvægt er að leita til næsta yfirmanns eða trúnaðarmanns og leitast við að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar.
Tekið verður á fölskum ásökunum um einelti af sömu festu og einelti almennt.
Komi upp einelti skulu þolendur leita til næsta yfirmanns. Ef yfirmaðurinn er gerandinn eða hundsar vandamálið er hægt að leita til tveggja annarra aðila (sjá næsta kafla). Þessir aðilar skulu sýna þolanda fullan trúnað.
Vinnumálastofnun mun grípa til aðgerða gagnvart starfsmönnum sem leggja aðra í einelti, t.d. með áminningu, tilflutningi í starfi eða uppsögn. Alvarleg atvik verða hugsanlega kærð að höfðu samráði við þolanda. Gerandi eineltis verður látinn axla ábyrgð.
VIÐBRÖGÐ
Starfsmaður sem verður fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns og tilkynna um atvikið. Ef næsti yfirmaður er gerandi málsins eða sinnir því ekki er hægt að snúa sér til tveggja annarra trúnaðaraðila.
Þegar yfirmaður eða trúnaðaraðilar fyrirtækisins fá vitneskju um einelti munu þeir bregðast við samkvæmt eftirfarandi viðbragðsáætlun. Strax er metin þörf þolanda fyrir bráðan stuðning og hann veittur. Lögð verður áhersla á að leysa málið hið fyrsta og koma í veg fyrir frekara einelti.
Auk yfirmanna fyrirtækisins eru i trúnaðaraðilar tilbúnir að ræða viðstarfsmenn um meint einelti á vinnustaðnum.
Sá aðili, sem samband er haft við, ákvarðar síðan í samráði við þolandann hvert framhaldið verður. Hægt er að velja á milli óformlegrar eða formlegrar málsmeðferðar.
Óformleg málsmeðferð
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Aðrir innan vinnustaðarins eru ekki upplýstir um málið.
Formleg málsmeðferð
Gerð er hlutlaus athugun á málsatvikum af utanaðkomandi óháðum aðila. Rætt er við þolanda, geranda og aðra sem veitt geta upplýsingar um málið. Mikilvægt er að leita upplýsinga um tímasetningar og fá fram gögn ef einhver eru, s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað.
Fundin verður lausn sem m.a. getur falist í breytingum á vinnustaðnum, vinnubrögðum eða vinnuskipulagi. Gerandi mun fá leiðsögn og aðvörun, hann gæti líka verið færður til í starfi.
Málinu verður fylgt eftir og rætt við aðila þess að ákveðnum tíma liðnum. Fylgst verður með samskiptum aðila málsins.
Láti gerandi ekki segjast og viðheldur eineltinu leiðir það til uppsagnar hans úr starfi sbr. lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Stefna Vinnumálastofnunar er að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.
Með jöfnum kjörum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru launaákvörðunum til grundvallar skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Laun eru í 9. tölul. 2.gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar þóknun, bein eða óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.
Til að framfylgja jafnlaunastefnunni skuldbindur stofnunin sig til að skjalfesta, innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnun jafnlaunakerfisins í samræmi við kröfur staðalsins ÍST85 og ákvarða hvernig kröfur hans verða uppfylltar. Stofnunin hefur innleitt verklag og skilgreint viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt út frá verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum.
Markmið Vinnumálastofnunar er að óútskýrður launamunur kynja skal ekki vera meiri en 2%.
Til þess að ná því markmiði mun stofnunin:
- Innleiða vottað jafnlaunakerfi sem byggist á jafnlaunastaðlinum ÍST 85, það skjalfest og því viðhaldið.
- Framkvæma launagreiningu a.m.k. einu sinni á ári þar sem borin eru saman jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist munur á launum eftir kyni og kynna helstu niðurstöður fyrir starfsfólki.
- Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti. Ef um óútskýrðan mun hjá einstaklingi er að ræða skal bregðast við því strax en ef um óútskýrðan mun er að ræða milli hópa skal leiðrétta það frá og með næstu áramótum.
- Gera innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
- Fylgja viðeigandi lögum, reglum og kjarasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta á fundi hlítni við lög.
- Kynna stefnuna árlega fyrir starfsmönnum stofnunarinnar. Stefnan skal einnig vera almenningi aðgengileg á ytri vef stofnunarinnar.
Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Vinnumálastofnunar.
Samþykkt á yfirstjórnarfund 13. nóvember 2021
Unnur Sverrisdóttir forstjóri
Upplýsinga- og kynningarstefna
Vinnumálastofnun vinnur að þeim verkefnum sem henni er falið skv. lögum á hverjum tíma auk annarra verkefna sem velferðarráðherra felur henni.
Markmið stefnunnar er að:
- Upplýsa viðskiptavini hennar og almenning (ytri upplýsingamiðlun).
- Upplýsa stjórn og starfsmenn (innri upplýsingamiðlun).
- Kynna stofnunina með skipulögðum og samræmdum hætti.
- Byggja upp góða ímynd og traust á störfum hennar.
Ytri kynningar- og upplýsingamál
Markmið
Vinnumálastofnun veitir góðan aðgang að upplýsingum um þau málefni sem stofnunin fer með og um verkefni hennar. Stofnunin sinnir öflun, úrvinnslu og birtingu tölulegra upplýsinga um vinnumarkaðsmál s.s. atvinnuleysi og úrræði sem í boði eru. Stofnunin kynnir verkefni sín og starfsemi með markvissum og sýnilegum hætti.
Framkvæmd
Vefsíða Vinnumálastofnunar (www.vmst.is) þjónar lykilhlutverki í upplýsingagjöf til viðskiptavina og hagsmunaaðila.
Stofnunin heldur ársfund og gefur út ársskýrslu þar sem nálgast má upplýsingar um starfsemi stofnunarinnar.
Skýrslur um vinnumarkaðsmál og árangur ýmissa vinnumarkaðssúrræða eru aðgengilegar á vefsíðu stofnunarinnar auk þess sem stofnunin hefur frumkvæði að kynningarfundum fyrir utanaðkomandi aðila.
Upplýsingagjöf til fjölmiðla, hagsmunaaðila, stofnana, fyrirtækja og opinberra aðila.
Þátttaka í fundum, ráðstefnum og öðrum atburðum sem tengjast starfsemi stofnunarinnar. Stofnunin nýtir samfélagsmiðla með samræmdum hætti til að deila upplýsingum.
Ábyrgð
Forstjóri ber ábyrgð á upplýsingagjöf stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar en aðstoðarforstjóri í fjarveru forstjóra.
Forstjóri felur kynningarteymi stofnunarinnar að vinna að framkvæmd upplýsingastefnunnar eftir nánari lýsingu.
Vefstjóri ber ábyrgð á vefsíðu stofnunarinnar.
Innri upplýsingamiðlun
Markmið
Markmið innri upplýsingamiðlunar er að upplýsa starfsmenn um starfsemi stofnunar og verkefni.
Framkvæmd
Upplýsingagjöf til starfsmanna fer fram með eftirfarandi hætti:
- Með upplýsingagjöf í gegnum Workplace samfélagsmiðaðan innri vef starfsmanna.
- Á deildar/sviðsfundum og starfsmannafundum er upplýsingum einnig komið á framfæri.
- Í gæðahandbók er að finna upplýsingar um vinnuferla verkefna stofnunarinnar.
- Með morgunfundum á þriðjudögum og síðdegisfundum á föstudögum sem er vettvangur fyrir upplýsingagjöf til starfsfólks um hin ýmsu málefni sem tengjast stofnuninni á einn eða annan hátt.
Ábyrgð
Yfirstjórn (sviðsstjórar og forstjóri) bera ábyrgð á því að upplýsingum sé komið á framfæri til starfsmanna.
Sérhver starfsmaður ber ábyrgð á því að upplýsingum sé komið á framfæri á Workplace, samfélagsmiðuðum innri vef starfsfólks.
Endurmat
Sviðsstjóri Upplýsingatækni- og rannsóknarsviðs tekur upp stefnuna í októbermánuði hvers árs og yfirfer með sérfræðingum málaflokksins.
Fyrirvari
Vegna tölvupósts sem hugsanlega berst á röng netföng
Fyrirvari
Vinsamlegast athugið að þessi tölvupóstur og viðhengi hans eru eingöngu ætluð þeim sem tölvupósturinn er stílaður á og gætu innihaldið upplýsingar sem eru trúnaðarmál. Hafir þú fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekið við tölvupósti þessum og viðhengjum hans biðjum við þig að fara eftir 4. mgr. 88. gr. laga um fjarskipti nr. 70/2022 og gæta fyllsta trúnaðar, hvorki lesa efni þeirra né skrá þau hjá þér né notfæra þau á nokkurn hátt og tilkynna okkur samstundis að þau hafi ranglega borist þér. Brot gegn ákvæðinu getur varðað sektum og refsingu skv. XV. kafla laganna.“
Disclaimer
Please note that this e-mail and its attachments are intended for the named addressee only and may contain information that is confidential and privileged. If you have by coincidence or mistake or without specific authorization received this e-mail and its attachments we request that you notify us immediately that you have received them in error, uphold strict confidentiality and neither read, copy, nor otherwise make use of their content in any way.