Starfsmannaleigur
Upplýsingaskylda
Lög nr. 139/2005 gilda um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra. Með starfsmannaleigu er átt við þjónustufyrirtæki sem samkvæmt samningi leigir út starfsmenn sína gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess síðarnefnda. Starfsmannaleigum sem ekki hafa staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í EFTA ríki er óheimilt að veita hér þjónustu án staðfestu nema samningar sem Ísland á aðild að heimili slíkt.
Hver sá sem vill veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi, innlendur sem erlendur, skal tilkynna um það til Vinnumálastofnunar eigi síðar en sama dag og starfsemin hefst í fyrsta skipti.
Hyggist fyrirtæki veita starfsmannaleiguþjónustu hér á landi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skal Vinnumálastofnun veitt upplýsingar um starfsmenn sem munu starfa hér á landi, upplýsingar um dvalarstað og dvalartíma, nafn og kennitölu notendafyrirtækisins o.fl. Fyrrgreind skylda er jafnrík hvort sem starfsmannaleigustarfsemi telst til aðalstarfsemi fyrirtækis eða viðbótarstarfsemi við t.a.m. almenna byggingavinnu.
Starfskjör
Starfsmaður starfsmannaleigu skal á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið ef hann hefði verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi. Vinnumálastofnun kallar ávallt eftir ráðningarsamningum til að tryggja starfskjör þessara starfsmanna. Stofnunin mun einnig ávallt athuga hvort starfskjör standist íslenska kjarasamninga.
Fulltrúi
Starfsmannaleiga sem veitir þjónustu á Íslandi samtals lengur en tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum skal hafa fulltrúa hér á landi. Fulltrúinn getur verið einn af þeim starfsmönnum starfsmannaleigunnar sem starfa hér á landi. Fulltrúi fyrirtækisins kemur fram fyrir hönd þess og ber ábyrgð á að veita stjórnvöldum upplýsingar samkvæmt lögum.
Notendafyrirtæki
Notendafyrirtæki ber að óska eftir skriflegri staðfestingu um að starfsmannaleiga hafi sinnt tilkynningarskyldu sinni til Vinnumálastofnunar.
Hafi starfsmaður áður starfað hjá notendafyrirtæki er óheimilt að leigja hann út til þess fyrirtækis fyrr en að sex mánuðum liðnum. Þá er starfsmannaleigu óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar ráðningarsamband við það fyrirtæki.