Bótatímabil

Einstaklingur getur samtals átt rétt á atvinnuleysisbótum í 30 mánuði frá því að hann sótti um bætur hjá Vinnumálastofnun. Biðtími eftir greiðslum atvinnuleysisbóta eða viðurlög teljast hluti tímabilsins. Bótatímabilið heldur jafnframt áfram að líða þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur og þegar tilfallandi veikindi standa yfir.

Sá tími sem einstaklingur er í starfi og er afskráður af atvinnuleysisskrá telst ekki hluti bótatímabilsins. Einnig telst sá tími sem atvinnuleysisbætur geymast ekki hluti tímabilsins.

Ef atvinnuleitandi fullnýtir 30 mánaða  bótatímabilið sitt getur hann áunnið sér inn nýtt tímabil með því að starfa á innlendum vinnumarkaði.

Til að ávinna sér rétt á nýju 30 mánaða bótatímabili, eftir að fyrra tímabil er fullnýtt, þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt:

1). 24 mánuðir þurfa að líða frá því að atvinnuleitandi fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

2). Atvinnuleitandi þarf að hafa starfað á vinnumarkaði í a.m.k. 6 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.  Starfshlutfall þarf að nema 25% eða meira.

Ef einstaklingur klárar 30 mánaða bótatímabilið þurfa því tvö ár að líða áður en hann á rétt á atvinnuleysisbótum að nýju. Á þessum tveimur árum þarf hann að auki að hafa unnið í a.m.k. sex mánuði.  

Sjá nánar um nýtt bótatímabili ef fyrra tímabil er fullnýtt

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um endurnýjun tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar. Samkvæmt ákvæðinu getur sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í þrjú ár, áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Hefst þá nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna en að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

Atvinnuleitandi getur áunnið sér inn nýtt bótatímabil þó svo að hann sé ekki búinn að fullnýta 30 mánaða bótatímabilið sitt. Til að ávinna sér rétt á nýju   30 mánaða bótatímabili á meðan fyrra tímabil varir þarf atvinnuleitandi að starfa samfellt í a.m.k. tvö ár.

Hafi einstaklingur t.d. þegið atvinnuleysisbætur í eitt ár en starfar svo samfellt í tvö ár, hefur hann áunnið sér inn nýtt 30 mánaða bótatímabil ef hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Sjá nánar um nýtt bótatímabili ef fyrra tímabil er ekki fullnýtt 

Í 31. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um þegar nýtt tímabil hefst áður en fyrra tímabili lýkur að fullu. Þar segir að nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.

  • Þeir sem fá greiðslur vegna ótekins orlofs við starfslok - ráðstafa þarf óteknu orlofi. Orlofi frá eldri orlofstímabilum þarf að ljúka áður en atvinnuleysisbætur eru greiddar. Sé orlofi ekki ráðstafað er það skráð frá dagsetningu umsóknar.
  • Þeir sem fá greiðslur vegna starfsloka - Hægt er að sækja um atvinnuleysisbætur að loknu því tímabili sem að greiðsla vegna starfsloka á við.
  • Námsmenn sem eru í námi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum.
  • Námsmenn á milli anna og/eða skólastiga.
  • Þeir sem njóta slysa- eða sjúkradagpeninga vegna óvinnufærni að fullu.
  • Þeir sem fá endurhæfingarlífeyri. 
  • Þeir sem njóta greiðslna í fæðingarorlofi.
  • Þeir sem fá greiðslur vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.
  • Þeir sem leggja niður störf í verkfalli eða verkbanni vinnuveitanda.
  • Þeir sem eru sviptir frelsi sínu með dómi eða úrskurði, eða taka út refsingu í samfélagsþjónustu.
  • Þeir sem starfa sem verktakar - umsækjandi verður að afskrá sig á meðan verkefni/vinnu stendur.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni