Sjálfstætt starfandi

Sjálfstætt starfandi einstaklingar geta átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta hafi rekstur verið stöðvaður (launagreiðandaskrá lokað hjá Skattinum) og staðið hafi verið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi.


Ef þú ert sjálfstætt starfandi með rekstur á eigin kennitölu:

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun, vegna tímabundinnar eða langvarandi stöðvun rekstrar, skal sjálfstætt starfandi einstaklingur fylla út þetta skjal RSK 5.04 https://www.skatturinn.is/media/rsk05/rsk_0504.is.pdf

Ef þú ert eigandi rekstrar með rekstur á sér kennitölu (yfirleitt ehf):

Ef þú þarft að stöðva rekstur, að hluta eða í heild, hefur þú rétt á að sækja um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Þegar þú sækir um atvinnuleysisbætur þarft að skila inn staðfestingu á starfstímabili til okkar.

Ef þú ert ársmaður:

Þá getur þú  sótt um venjulegar bætur (atvinnuleysisbætur). Ársmenn eru þeir sem gefa aðeins upp tekjur einu sinni á ári, yfirleitt í skattaskýrslu. Þú þarft að skila okkur: verktakayfirlýsingu og staðfestingu skattstjóra um skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu. Athugið að ef þú ert á landsbyggðinni fer það í gegnum sýslumann.  

Hér er nánari upplýsingar um sjálfstætt starfandi

Sjálfstætt starfandi einstaklingar á aldrinum 18 - 70 ára eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarrétt og uppfylli eftirfarandi skilyrði:  

 • séu í virkri atvinnuleit,
 • séu búsettir og staddir hér á landi,
 • hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,
 • hefur verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á ávinnslutímabili,
 • hefur stöðvað rekstur,
 • leggur fram staðfestingu um stöðvun rekstrar RSK 5.04, vottorð vinnuveitanda og vottorð frá skóla þegar það á við,
 • hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar,
 • hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.

Ertu verktaki?

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun, vegna tímabundinnar eða langvarandi stöðvun rekstrar, skal sjálfstætt starfandi einstaklingur fylla út þetta skjal RSK 5.04 https://www.skatturinn.is/media/rsk05/rsk_0504.is.pdf
Að því loknu skal senda skjalið til skatturinn@skatturinn.is

Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum fjármálaráðherra, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns.

Eigendur að eigin atvinnurekstri sem er sjálfstæður lögaðili  eða hafa ráðandi stöðu vegna stjórnaraðildar  teljast vera launamenn en ávinna sér bótarétt á sama hátt og sjálfstætt starfandi.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur telst að fullu tryggður eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur.

 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt.
 • Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur telst ekki tryggður.

Dæmi um útreikning bótaréttar:

 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér sem nemur fullri viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 12 mánuði hefur áunnið sér 100% bótarétt.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér sem nemur fullri viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 6 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér sem nemur 50% af viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 12 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.
 • Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem hefur greitt af sér 75% af viðmiðunarfjárhæð starfagreinar sinnar í 6 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.

Bótaréttur sjálfstætt starfandi einstaklings getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem hann er reiðubúinn að ráða sig til.

Nám sem sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.

 • Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stundað námið og lokið því.
 • Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings einu sinni á hverju tímabili skv. 29. gr. 

Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu sjálfstætt starfandi einstaklings en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil hefst. 

 


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni