Tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings

Heimilt er, við sérstakar aðstæður, að veita tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf, sbr. 15. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:

Í tilviki þjónustusamnings:

  • að hið erlenda fyrirtæki sem veita á þjónustu hér á landi hafi ekki starfstöð hér á landi,
  • að gerður hafi verið þjónustusamningur milli hins erlenda þjónustufyrirtækis og hins innlenda notendafyrirtækis
  • að í þjónustusamningi eða staðfestum viðauka við hann komi fram að nauðsynlegt sé að sá útlendingur sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir sinni þeirri þjónustu sem á að veita og hann hafi sérhæfingu til að sinna umræddri þjónustu. Leyfi í þessum flokki eru ekki veitt vegna almennra ófaglærðra starfa.

Í tilviki samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf

  • Samstarfssamningur um kennslu-, fræði- eða vísindastörf milli hins innlenda og erlenda atvinnurekanda þarf að liggja fyrir. Samstarfssamningar um önnur störf falla ekki hér undir.
  • Í samstarfssamningi þarf að koma fram að um sé að ræða starf sem starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda mun gegna hér á landi á grundvelli samstarfs milli hins íslenska atvinnurekanda og erlenda atvinnurekandans í tengslum við kennslu-, fræði- eða vísindastörf.
  • Viðkomandi starfsmaður hins erlenda atvinnurekanda skal hafa lokið háskólanámi sem er nauðsynlegt til að gegna því starfi sem um ræðir.

Hafa samband

Þurfir þú frekari leiðbeiningar má hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is eða á símatíma atvinnuleyfa. Yfirlit símatíma má finna hér.

Nauðsynleg gögn með umsókn:

  1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings.
  2. Þjónustusamningur milli hins erlenda þjónustufyrirtækis og hins innlenda notendafyrirtækis
  3. Það þarf að koma fram í samningnum sjálfum eða staðfestum viðauka við hann að nauðsynlegt sé að sá útlendingur, sem sótt er um atvinnuleyfi vegna, sinni þeirri þjónustu sem á að veita og að sá starfsmaður sé sérhæfður til að sinna því starfi.
  4. .Ráðningarsamningur milli útlendings og hins erlenda þjónustufyrirtækis sem staðfestir ráðningarsamband á milli útlendings og erlenda fyrirtækisins. Þá þurfa að berast upplýsingar sem staðfesta launakjör útlendings meðan hann dvelur hér á landi en þau skulu vera til samræmis við lög og gildandi kjarasamninga hér á landi. Séu kjör starfsmanns lakari en svo fæst umbeðið atvinnuleyfi ekki veitt. 
  5. Í tilviki samstarfssamnings skal fylgja staðfesting á háskólamenntun starfsmanns, svo sem afrit af útskriftarskírteini.
  6. Ekki er gerð krafa um umsögn stéttarfélags vegna þessarar tegundar atvinnuleyfa sbr. 1. mgr. 15. gr. b-lið 1. mgr. 7. gr. laganna.

 

Hvert skal skila umsókn og fylgigögnum

Umsókn skal skilað til Útlendingastofnunar, Dalvegi 18, 201 Kópavogi eða viðeigandi skrifstofu sýslumannsembættanna utan höfuðborgarsvæðisins.


Hafa þarf í huga:

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðsla tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.

Einstaklingur sem starfar á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis er með öllu óheimilt að starfa fyrir annan atvinnurekanda en þann sem leyfi er útgefið hjá.

Það felst í eðli atvinnuleyfa á grundvelli þjónustu- eða samstarfssamninga að launagreiðslur starfsmanns fara fram í heimaríki starfsmanns hjá hinum erlenda launagreiðanda. Þrátt fyrir það þurfa umsækjendur leyfa að kynna sér þær reglur sem gilda um skattlagningu í heimaríki og hér á landi og samspil þeirra.

Gildistími leyfis:

Leyfi á þessum grundvelli eru almennt veitt til allt að 12 mánaða en þó aldrei lengur en til samræmis við fyrirhugaða þjónustuveitingu. Heimilt er að endurnýja leyfi á þessum grundvelli til 12 mánaða í senn.

Endurnýjun umsóknar:

Með umsókn um framlengingu á atvinnuleyfi þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn, að menntunargögnum undanskildum. Sé umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda skilað áður en fyrra leyfi rennur út má starfsmaður halda áfram störfum meðan umsókn um framlengingu er til vinnslu.

Starfsmaður lætur af störfum:

Láti starfsmaður af störfum áður en atvinnuleyfi rennur út er umsækjendum skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um það. Nægjanlegt er að tilkynna um starfslok með tölvupósti á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is.


Nánari upplýsingar  

Sé þörf á nánari upplýsingum eða leiðbeiningum en finna má á vef stofnunarinnar má senda erindi á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is eða hafa samband á símatíma. Yfirlit yfir símatíma má finna hér.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni