U1 Tryggingartímabil frá löndum innan EES
Réttur til atvinnuleysisbóta
Atvinnuleysistryggingar frá Íslandi til annars lands innan EES
Ætlir þú að flytja til annars EES-ríkis er hægt að fá vottað að þú eigir rétt til atvinnuleysistrygginga á Íslandi. Á þann hátt er unnt að flytja áunnin atvinnuleysistryggingaréttindi milli Evrópulanda.
Þetta er gert með því að sækja um U1 vottorð hjá Vinnumálastofnun í því landi sem þú hyggst búa í.
Ferlið er rafrænt, þar sem þjónustuskrifstofur skiptast á upplýsingum um vinnusögu og réttindi. U1 vottorð er einungis gefið út til Vinnumálastofnunar í því landi sem á að nota U1, vottorð eru ekki gefin út til einstaklinga.
Athugaðu að sum lönd gera þá kröfu um að vinna þurfi í dvalarlandi til að virkja U1 vottorðið.
Atvinnuleysistryggingar frá öðrum löndum innan EES.
Ef þú ætlar í atvinnuleit á Íslandi þá getur þú fengið vottað að þú hafir verið atvinnuleysistryggður í öðru EES-ríki með U1 vottorði og aukið þannig rétt þinn til atvinnuleysisbóta á Íslandi. Skilyrði er að þú hafir verið launamaður og greitt hafi verið tryggingargjald af launum þínum.
Skilyrði fyrir því að Vinnumálastofnun geti reiknað með tryggingar- og starfstímabilum í öðru EES-ríki er að þú hafir starfað á Íslandi eftir að þú komst til landsins og áður en þú sækir um atvinnuleysisbætur og tímabilin séu staðfest með U1 vottorði frá viðkomandi EES-ríki.. Ef þú hefur ekki unnið neitt á Íslandi eftir að þú komst til landsins og áður en þú sækir um atvinnuleysisbætur þá getur Vinnumálastofnun ekki litið til tímabilsins samkvæmt U1 vottorði til að auka rétt þinn til atvinnuleysisbóta á Íslandi.
Vinnumálastofnun vekur athygli á því að þú þarft ekki að sækja um U1 vottorð nema þú sért orðin atvinnulaus og ætlir þér að vera áfram á Íslandi og þiggja atvinnuleysisbætur.
Smelltu hér til þess að sækja um staðfestingu á tryggingatímabili erlendis frá.
Starfstími í öðru norðurlandaríki nýttur til ávinnslu atvinnuleysisbóta á Íslandi – U1
Ef þú ætlar í atvinnuleit á Íslandi þá getur þú fengið vottað að þú hafir verið atvinnuleysistryggður í öðru norðurlandaríki (Danmörk, Finnland, Færeyjar, Noregur eða Svíþjóð) með U1 vottorði og aukið þannig rétt þinn til atvinnuleysisbóta á Íslandi. Skilyrði er að þú hafir verið launamaður og greitt hafi verið tryggingargjald af launum þínum.
Skilyrði fyrir því að Vinnumálastofnun geti reiknað með tryggingar- og starfstímabilum í öðru norðurlandaríki er að þú hafir starfað á Íslandi í a.m.k. þrjá mánuði í 25% starfi einhverntímann á síðustu fimm árum áður en þú sækir um atvinnuleysisbætur.
Vinnumálastofnun vekur athygli á því að þú þarft ekki að sækja um U1 vottorð nema þú sért orðin atvinnulaus og ætlir þér að vera áfram á Íslandi og þiggja atvinnuleysisbætur.