Fiskvinnslufyrirtæki – Greiðslur vegna vinnslustöðvunar í hráefnisskorti

Fiskvinnslufyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi frá Matvælastofnun geta sótt greiðslur til Vinnumálastofnunar vegna vinnslustöðvunar í hráefnisskorti.  


Réttur til kauptryggingar

Kveðið er á um kauptryggingu fiskvinnslufólks í almennum kjarasamningum og tekur til starfsfólks við verkun og vinnslu sjávarafla, þ.e. í slægingu, ferskfiskvinnslu, frystingu, söltun, fiskþurrkun og rækju- og skelvinnslu.

Vinnuveitandi skuldbindur sig til þess að greiða starfsmanni sem nýtur kauptryggingarréttar föst laun fyrir dagvinnu skv. samningi þótt hráefnisskortur valdi vinnslustöðvun, svo og á grunnnámskeiðum fyrir fiskvinnslufólk.

Atvinnuleysistryggingasjóður innir af hendi greiðslur til fiskvinnslufyrirtækja vegna tímabundinnar vinnslustöðvunar vegna þeirra starfsmanna sem njóta réttar til kauptryggingar.

Þeir starfsmenn sem eiga rétt á kauptryggingu eru ráðnir til allra almennra starfa í fiskvinnslu og hafa gert kauptryggingarsamning byggðan á almennum kjarasamningum.

Kauptryggingarsamning skal gera skriflega eftir eins mánaðar samfellt starf og tekur samningurinn gildi við undirskrift hans. Gildistími kauptryggingarsamnings er sami og gildistími ráðningarsamnings og fellur ekki úr gildi fyrr en við ráðningarslit.

Kauptryggingarsamningur þarf að vera útfylltur, dagsettur og undirritaður.

Aðilar kjarasamninga um kauptryggingu

AFL Starfsgreinafélag

Aldan stéttarfélag

Báran stéttarfélag

Drífandi stéttarfélag

Efling stéttarfélag

Eining-Iðja

Framsýn stéttarfélag

Stéttarfélagið Samstaða

Stéttarfélag Vesturlands

Verkalýðsfélag Akraness

Verkalýðsfélag Grindavíkur

Verkalýðsfélagið Hlíf

Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur

Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis

Verkalýðsfélag Snæfellinga

Verkalýðsfélag Suðurlands

Verkalýðsfélag Vestfirðinga

Verkalýðsfélag Þórshafnar

Tímabundin vinnslustöðvun

Með tímabundinni vinnslustöðvun er átt við að hráefnisskortur valdi því að vinnsla liggur niðri á annars venjubundnum vinnslutíma fyrirtækis.

Eðlilegri vinnslu verður ekki haldið áfram í fiskvinnslufyrirtæki, í tiltekinni deild þess eða vinnslulínu vegna hráefnisskorts eða annara viðlíka ástæðna, svo sem bruna, bilunar í vélum eða vegna þess að ekki er talið réttlætanlegt að vinna afla vegna ónógs afla, enda taki vinnslustöðvunin til meirihluta starfsmanna í hluteigandi deild eða vinnslulínu.

Ekki er átt við vinnslustöðvun á annars venjubundnum tíma fyrirtækis sem rekja má eingöngu til uppsetningar á nýjum tækjabúnaði fyrirtækis, breytinga á vinnsluhúsnæði fyrirtækis eða sumarorlofs starfsmanna.

Hafi fyrirtæki fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það á rétt á samkvæmt lögum, á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga ber því að endurgreiða þær. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að draga ofgreiddar fjárhæðir frá greiðslum sem fyrirtækið getur átt rétt á síðar samkvæmt

Endurgreiðsla til fiskvinnslu vegna vinnslustöðvunar

Fyrirtæki, sem starfrækir fiskvinnslu og hefur starfsleyfi frá Matvælastofnun, getur óskað eftir endurgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði fyrir hvern heilan vinnudag sem það greiðir starfsmönnum laun á meðan á tímabundinni vinnslustöðvun stendur.

  • Fyrirtæki sem hyggst sækja um greiðslu vegna tímabundinnar vinnslustöðvunar skal tilkynna um fyrirhugaða vinnslustöðvun með eins sólarhrings fyrirvara til Vinnumálastofnunar.
  • Sækja þarf um greiðslur út Atvinnuleysistryggingasjóði þegar vinnslustöðvun lýkur.
  • Hafi umsókn eða umbeðin gögn ekki borist innan þriggja mánaða frá því að vinnslustöðvun hófst, fellur réttur fyrirtækisins til greiðslu niður er varðar umrædda vinnslustöðvun.

Fyrirtæki á rétt á greiðslu vegna:

  • Starfsfólks við almenn störf í fiskvinnslu og hafa gildan kauptryggingarsamning skv. viðeigandi kjarasamningi.
  • Starfsfólks sem sannanlega var verkefnalaust vegna vinnslustöðvunar.
  • Starfsfólks sem fékk greidd dagvinnulaun fyrir heilan dag/daga á meðan vinnslustöðvun stóð.
  • Starfsfólks sem hefði verið við vinnu ef ekki væri vinnslustöðvun.

Greiðsla nemur fjárhæð óskertra grunnatvinnuleysisbóta fyrir hvern starfsmann í fullu starfi sem orðið hefur verkefnalaus á meðan tímabundin vinnslustöðvun varir, þó ekki lengur en 15 greiðsludaga í senn og aldrei lengur en 35 greiðsludaga á hverju almanaksári.

Vegna starfsmanna í hlutastarfi skal greiðslan vera í samræmi við samningsbundið starfshlutfall hlutaðeigandi starfsmanns.

Fyrirtæki á ekki rétt á greiðslu vegna:

  • Fyrstu fimm daga í vinnslustöðvun á tímabilinu 1. janúar til 30. júní og fyrstu fimm daga í vinnslustöðvun á tímabilinu 1. júlí til 31. desember á hverju almanaksári. Samt sem áður þarf að tilkynna um vinnslustöðvun og óska eftir greiðslu vegna þeirra.
  • Tímabundinnar vinnslustöðvunar ef hún ber upp á föstudag og fimmtudagurinn á undan er lögbundinn frídagur.
  • Tímabundinnar vinnslustöðvunar á dögum sem ekki eru heilir vinnudagar.
  • Starfsmanna sem ekki njóta kauptryggingarréttar skv. sínum kjarasamningi.
  • Starfsmanns sem hefur störf annars staðar á meðan vinnslustöðvun varir og launagreiðslur fyrirtækisins falla niður. Greiðsla sjóðsins fellur niður frá sama tíma.
  • Starfsmanna sem væru fjarverandi vegna veikinda, orlofs eða af öðrum ástæðum ef vinnslustöðvun væri ekki til staðar.

Hafi fyrirtæki fengið hærri fjárhæðir úr Atvinnuleysistryggingasjóði en það á rétt á samkvæmt lögum, á grundvelli rangra eða ófullnægjandi upplýsinga ber því að endurgreiða þær. Þá er Vinnumálastofnun heimilt að draga ofgreiddar fjárhæðir frá greiðslum sem fyrirtækið getur átt rétt á síðar samkvæmt lögum

Endurgreiðsla til fiskvinnslu vegna námskeiðs starfsmanna

Fyrirtækjum sem nýta rétt sinn til greiðslna vegna kauptryggingar í tímabundinni vinnslustöðvun, er skylt að hlutast til um að starfsfræðslunámskeið fyrir fiskvinnslufólk verði fyrst og fremst haldið á þeim tíma sem vinnslustöðvun varir. Verði því með engu móti við komið þarf fyrirtæki að tilkynna um fyrirhugað námskeiðshald með sólarhrings fyrirvara líkt og vegna fyrirhugaðrar vinnslustöðvunar.

Greitt er vegna starfsmanna skv. 100% eða 50% starfshlutfalli og að hámarki eru greiddar 40 stundir vegna hvers einstaklings.

Leggja skal fram staðfestingu þess aðila er stendur fyrir námskeiðinu, þar sem fram koma nöfn þeirra starfsmanna er sóttu námskeiðið, lengd námskeiðs (klst), hvaða daga það stóð yfir og efni þess.

Umsóknarferli

Tilkynningar um fyrirhugaða vinnslustöðvun og umsóknir um greiðslur vegna vinnslustöðvunar fara fram rafrænt í gegn um mínar síður Atvinnurekenda á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Íslykill eða rafræn skilríki eru notuð til innskráningar, annað hvort á kennitölu fyrirtækisins eða á kennitölu einstaklings í umboði fyrirtækis.

  • Nánari upplýsingar um Íslykil og notkun hans eru hjá Þjóðskrá á vefsíðunni: island.is/islykill
  • Nánari upplýsingar um Rafræn skilríki og notkun þeirra eru á vefsíðunni skilriki.is 

Umsóknarferlið er tvískipt

  1. Tilkynna um fyrirhugaða vinnslustöðvun
  2. Umsókn um endurgreiðslu

Tilkynna þarf með sólarhrings fyrirvara um fyrirhugaða vinnslustöðvun. Þegar ljóst er hversu lengi vinnslustöðvun varði er hægt að sækja um endurgreiðslu vegna þeirra daga sem vinnslustöðvun stóð.

Tilkynning um fyrirhugaða vinnslustöðvun

Tilkynna þarf um fyrirhugaða vinnslustöðvun sólarhring áður en hún hefst. Tilkynning er send í gegn um mínar síður og ef fyrirtækið hefur skráðar fleiri en eina deild eða fiskvinnslu þá þarf að skrá fyrirhugaða vinnslustöðvun á viðkomandi einingu.

Ef breyting verður á fyrirhugaðri vinnslustöðvun þarf að tilkynna að nýju með sólarhrings fyrirvara. Það á einnig við ef t.d. vinnslustöðvun frestast um einn dag.

Ekki þarf að tilkynna daglega um vinnslustöðvun ef stöðvun stendur yfir samfellt tímabil. Aðeins skal tilkynna um upphaf vinnslustöðvunar í hvert skipti.

Þegar tilkynning um vinnslustöðvun hefur verið skráð á mínum síðum berst staðfesting þess efnis til fyrirtækis með tölvupósti.  

Umsókn um greiðslur

Þegar tímabundinni vinnslustöðvun er lokið og vinnsla fyrirtækis er hafin að nýju má sækja um greiðslu vegna viðkomandi tímabils. Aðeins skal gera eina umsókn vegna hverrar vinnslustöðvunar.

Sækja verður um greiðslur vegna tímabundinnar vinnslustöðvunar innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi vinnslustöðvun hófst. Að þeim tíma liðnum fellur réttur fyrirtækis til endurgreiðslu niður.

Umsókn er framkvæmd undir dagsetningu viðkomandi vinnslustöðvunar á mínum síðum og send rafræn til afgreiðslu hjá Vinnumálastofnun. Kauptryggingarsamningur þarf að vera skráður fyrir hvern starfsmann ásamt starfshlutfalli viðkomandi.

Aðeins skal sækja um greiðslu vegna starfsmanna sem sannanlega lögðu niður störf og tóku ekki annað launað starf á meðan vinnslustöðvun stóð, hvort sem það var hjá sama fyrirtæki eða öðru.

Fyrirtæki þurfa að sjá til þess að allar upplýsingar um starfsfólk sitt séu réttar s.s. réttur til kauptryggingar og starfshlutfall.

Hér er hægt að sjá stutt myndband um umsóknarferlið.

Greiðslur

Greiðslur til fiskvinnslufyrirtækja í vinnslustöðvun, vegna starfsmanna með kauptryggingasamninga, eru dagpeningar atvinnuleysisbóta. Fjárhæð dagpeninga atvinnuleysisbóta eru 13.360 kr. á dag miðað við 100% starfshlutfall og greiðast hlutfallslega miðað við samningsbundið starfshlutfall launþegans.

Fjöldi greiðsludaga sem heimilt er að greiða í samfellu eru að hámarki 15 dagar en þó aldrei fleiri en 35 á hverju almanaksári. Fyrstu 5 skráðir dagar á hvorum árshelmingi eru ekki greiddir.

Þegar umsókn um greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði hefur verið samþykkt berst greiðsla inn á reikning fyrirtækis. Greiðsluyfirlit má nálgast á mínum síðum og þar má sjá óafgreiddar umsóknir í gulum lit.

Upplýsingagjöf til Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun skal hafa aðgang að launa- og framreiðslubókhaldi fyrirtækis s.s. afritum úr vinnslubókhaldi fyrirtækis, launaseðlum og tímaskráningum starfsmanna, ásamt kauptryggingarsamningum sem í gildi eru á milli fyrirtækis og starfsmanna þess.

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari gögnum telji hún það nauðsynlegt.

Örleiðbeiningar - samantekt

Fyrirhuguð vinnslustöðvun tilkynnt í gegn um mínar síður með eins dags fyrirvara.

  • Þau fyrirtæki sem hafa fleiri en eina starfsstöð eða deild þurfa að tilkynna um fyrirhugaða vinnslustöðvun undir réttri einingu.
  • Aðeins þarf að tilkynna einu sinni um hverja vinnslustöðvun, ekki fyrir hvern dag sem hún varir.
  • Alltaf þarf að tilkynna um fyrirhugaða vinnslustöðvun, einnig þegar ný vinnslustöðvun skarast við mögulegt umsóknartímabil fyrri vinnslustöðvunar.

Að vinnslustöðvun lokinni má sækja um endurgreiðslu.

  • Aðeins skal sækja einu sinni um endurgreiðslu vegna hverrar vinnslustöðvunar, það er gera á eina umsókn fyrir hverja vinnslustöðvun, en ekki t.d. umsókn fyrir hvern dag vinnslustöðvunar.
  • Aðeins skal sækja um fyrir þá starfsmenn sem eiga rétt á kauptryggingu.

Þarftu aðstoð eða ertu  með spurningar?
Sendu þá póst á:

hraefnisskortur@vmst.is

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni