pageicon

Fyrstu skrefin

Hér finnur þú stutta samantekt yfir helstu atriði er viðkemur umsókn um fæðingarorlof eða fæðingarstyrk. Ítarlegri upplýsingar um einstök atriði er að finna á heimasíðunni. Einnig er velkomið að senda fyrirspurn á netfangið faedingarorlof@vmst.is eða hafa samband í síma 515-4800 og við munum aðstoða þig með ánægju.


Fæðingarorlof

Hafir þú verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 25% starfshlutfalli samfellt síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur getur þú sótt um sem starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi. 
Smelltu hér til að lesa nánar um hvað telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Hvenær þarf að skila gögnum:

Skila þarf umsókn og fylgigögnum 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann dag sem fæðingarorlof á að hefjast. Sjá hér

Skila þarf tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs til vinnuveitanda a.m.k. 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann dag sem fæðingarorlof á að hefjast. Sjá hér

Vinnsla umsókna

Vinnsla umsókna tekur að jafnaði 2-5 vikur hjá Fæðingarorlofssjóði.
Þegar vinnsla umsóknar hefst fær foreldri sent bréf um það. Ef allar upplýsingar liggja fyrir fær foreldri senda greiðsluáætlun eða réttindabréf ef það ætlar að hefja töku fæðingarorlofs á fæðingardegi barns og fæðingardagur liggur ekki fyrir. Ef frekari upplýsingar vantar fær foreldri sent bréf um það.

Gott að hafa í huga

Greitt er eftir á fyrir undanfarandi mánuð. Þannig er apríl greiddur í lok apríl.
Foreldri á alltaf rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi.
Með samkomulagi við vinnuveitanda er foreldri heimilt að skipta fæðingarorlofinu á fleiri tímabil eða dreifa því yfir lengra tímabil samhliða lækkuðu starfshlutfalli.
Ekki er hægt að taka fæðingarorlof skemur en tvær vikur í senn.
Móðir skal vera í fæðingarorlofi fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.
Hægt er að hefja töku fæðingarorlofs allt að mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns.
Réttur til töku fæðingarorlofs fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.

Fæðingarstyrkur

Hafir þú verið í a.m.k. 75% námi á 6 mánaða tímabili síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur  getur þú átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna.
Hafir þú verið utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi síðustu sex mánuði fyrir fæðingu barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur getur átt rétt á fæðingarstyrk.
Meginreglan er að foreldri hafi lögheimili á Íslandi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan.
Smelltu hér til að lesa nánar um fæðingarstyrki.

Hvenær þarf að skila gögnum:

Skila þarf umsókn og fylgigögnum 3 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns eða þann dag sem fæðingarstyrkur á að hefjast. Sjá hér

Skila þarf tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs til vinnuveitanda a.m.k. 8 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag eða þann dag sem fæðingarorlof á að hefjast ef foreldri er á vinnumarkaði. Sjá hér 

Vinnsla umsókna

Vinnsla umsókna tekur að jafnaði 3 vikur hjá Fæðingarorlofssjóði.
Þegar vinnsla umsóknar hefst fær foreldri sent bréf um það. Ef allar upplýsingar liggja fyrir fær foreldri senda greiðsluáætlun eða réttindabréf ef ekki er víst að barn fæðist í þeim mánuði sem áætlað er að hefja töku fæðingarstyrks. Ef frekari upplýsingar vantar fær foreldri sent bréf um það.

Gott að hafa í huga:

Greitt er eftir á fyrir undanfarandi mánuð. Þannig er apríl greiddur í lok apríl.
Heimilt er að hefja töku fæðingarstyrks í fæðingarmánuði barns.
Réttur til töku fæðingarstyrks fellur niður þegar barnið nær 24 mánaða aldri.


Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni