Skilgreining hópuppsagna

Í 1. grein laganna um hópuppsagnir er kveðið á um að þau gildi um uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum þeirra um sig, þegar fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er:

  • að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu
  • að minnsta kosti 10% starfsmanna í fyrirtækjum sem venjulega hafa hið minnsta 100 starfsmenn, en færri en 300 starfsmenn í vinnu
  • að minnsta kosti 30 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 300 starfsmenn eða fleiri í vinnu.

Við útreikning á fjölda þeirra sem sagt er upp samkvæmt 1. málsgrein skal litið á uppsögn ráðningarsamnings einstakra starfsmanna sem jafngilda hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.

Um gildissvið laganna

Í 2. grein laganna er kveðið á um undanþágur frá ákvæðum laganna.  Lögin um hópuppsagnir taka ekki til:

uppsagna sem koma til framkvæmda samkvæmt ráðningarsamningum sem gerðir eru til ákveðins tíma eða vegna sérstakra verkefna nema slíkar uppsagnir eigi sér stað áður en þeir samningar renna út eða verkefni lýkur 

Lögin gilda án tillits til þess hvort ákvörðun um hópuppsagnir er tekin af atvinnurekanda sjálfum eða fyrirtæki sem er í ráðandi aðstöðu gagnvart honum. Komi fram staðhæfing um brot á kröfum um upplýsingar, samráð og tilkynningar getur atvinnurekandi ekki borið því við að honum hafi ekki borist nauðsynlegar upplýsingar frá fyrirtækinu þar sem ákvörðun um hópuppsagnir var tekin


Tilgangur laga um hópuppsagnir er tvíþættur:

  1. Annars vegar að leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða. Þannig skal kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna um fyrirhugaðar hópuppsagnir, rökstyðja þær og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin
  2. Í öðru lagi að opinber vinnumiðlun í landinu (Vinnumálastofnun) hafi nægilegar upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir starfsmanna, þannig að hún geti tímanlega komið að því að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda

 

Upplýsingar um hópuppsagnir

Verklag vegna birtingar upplýsinga um hópuppsagnir sem berast Vinnumálastofnun verður framvegis þannig að 2. virka dag hvers mánaðar, kl. 12 verður á heimasíðu stofnunarinnar, birt samantekt um fjölda hópuppsagna sem borist hafa stofnuninni mánuðinn á undan, í hvaða atvinnugrein þau starfa og hvar á landinu, fjöldi þeirra starfsmanna sem sagt er upp, hvenær þeir muni missa vinnuna og heildarfjöldi starfsmanna viðkomandi fyrirtækja.

Nauðsynlegt er fyrir stofnunina að hafa nokkurn tíma til að yfirfara tilkynningar um hópuppsagnir áður en upplýsingar eru birtar, en í flestum tilvikum berast þær stofnuninni síðasta dag mánaðar og eru þá yfirfarnar strax á fyrstu dögum nýs mánaðar. Eftir sem áður mun stofnunin uppfæra skjal með tilkynntum hópuppsögnum reglulega eftir því sem staðfestar upplýsingar liggja fyrir, á upplýsingasíðu stofnunarinnar um hópuppsagnir. 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni