Tímabundið atvinnuleyfi vegna náms
Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa útlendings sem stundar nám hér á landi (námsmannaleyfi), sbr. 13. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:
- að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekenda,
- að starfshlutfall útlendings sé ekki meira en 40% nema vinna sem innt er af hendi í námsleyfi eða í verknámi og
- að útlendingi hafi verið veitt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga.
Hafa samband
Þurfir þú frekari leiðbeiningar má hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is eða á símatíma atvinnuleyfa. Yfirlit símatíma má finna hér.
Nauðsynleg gögn með umsókn um námsleyfi:
1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna náms.
2. Ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda þar sem m.a. þarf að koma fram:
a. Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum.
b. Upplýsingar um starfshlutfall.
c. Upplýsingar um vinnufyrirkomulag.
d .Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.
e. Launakjör útlendings þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga. Allar launatölur þurfa að koma fram á samningi.
3. Umsögn viðeigandi stéttarfélags þarf að liggja fyrir (reitur IV.) nema stéttarfélag sé EFLING stéttarfélag. Í þeim tilvikum aflar stofnunin þeirrar umsagnar.
4. Umsókn og ráðningarsamningur skulu undirrituð af bæði starfsmanni og atvinnurekanda.
5. Vinsamlegast athugið að ekki er krafa um að notast sé við staðlað form ráðningarsamnings af vef Vinnumálastofnunar en gæta þarf að því að efnislegar kröfur til samnings eru þær sömu. Sjá nánar almennan gátlista hér að neðan.
Hvert skal skila umsókn og fylgigögnum
Umsókn skal skilað til Útlendingastofnunar, Dalvegi 18, 201 Kópavogi eða viðeigandi skrifstofu sýslumannsembættanna utan höfuðborgarsvæðisins.
Hvenær má starfsmaður hefja störf?
Starfsmaður má ekki hefja störf fyrr en atvinnuleyfi er veitt.
Atvinnuleyfi færast aldrei með einstaklingi á milli atvinnurekenda heldur þarf ávallt að sækja um nýtt atvinnuleyfi vegna nýrrar vinnu.
Hér getur þú nálgast almennar leiðbeiningar við að fylla út umsókn um atvinnuleyfi
Hér getur þú nálgast leiðbeiningar við að fylla út umsókn um atvinnuleyfi samhliða ráðningarsamning
Endurnýjun umsóknar:
Með umsókn um framlengingu á námsmannaleyfi þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn. Sé umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda skilað áður en fyrra leyfi rennur út má starfsmaður halda áfram störfum meðan umsókn um framlengingu er til vinnslu.
Það er á ábyrgð beggja umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni eða upplýsingum á þeim er ábótavant leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.
Starfshlutfall námsmanna:
Almennt er námsmönnum óheimilt að starfa meira en sem nemur 40% starfshlutfalli meðan á námsönn stendur. Stofnuninni er í undantekningartilvikum heimilt að veita atvinnuleyfi umfram 40% starfshlutfall þegar starf er í beinum tengslum við nám námsmanns svo sem í formi verknáms. Þá er námsmönnum heimilt að starfa í fullu starfshlutfalli í námsleyfum, s.s. sumar- og jólafríum hjá þeim atvinnurekanda þar sem atvinnuleyfi gildir hjá.
Nýr atvinnurekandi:
Með umsókn um nýtt atvinnuleyfi hjá nýjum atvinnurekanda þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn, þ.e. umsóknareyðublaði og ráðningarsamningi. Gæta þarf að nauðsynlegar upplýsingar komi fram á þeim gögnum og afla umsagnar stéttarfélags áður en umsókn er skilað inn til úrvinnslu.
Starfslok:
Láti starfsmaður af störfum áður en atvinnuleyfi rennur út er umsækjendum skylt að upplýsa Vinnumálastofnun um það. Nægjanlegt er að tilkynning berist með tölvupósti á atvinnuleyfi@vmst.is
Almennar reglur viðeigandi kjarasamnings gilda um uppsögn starfsmanns enda skuli starfsmenn sem starfa á grundvelli atvinnuleyfa njóta sömu réttinda og innlendir starfsmenn.
Nánari upplýsingar
Sé þörf á nánari upplýsingum eða leiðbeiningum en finna má á vef stofnunarinnar má senda erindi á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is
eða hafa samband á símatíma. Yfirlit yfir símatíma má finna hér.