Langtímaundanþágur frá atvinnuleyfi

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga eru tilteknir útlendingar undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi samkvæmt lögunum. Þeim aðilum er því heimilt að starfa hér á landi án takmarkana, þ.e. án þess að þurfa að fá útgefið atvinnuleyfi. Þeir sem njóta slíkrar undanþágu er þannig heimilt að starfa hjá hvaða atvinnurekanda sem er án þess að þurfa að fá útgefið atvinnuleyfi. Einstaklingum með ótakmörkuð atvinnuréttindi er einnig heimilt að starfa sem sjálfstætt starfandi einstaklingur kjósi þeir það.

Sé atvinnurekandi eða útlendingur í vafa um hvort viðkomandi útlendingur falli undir neðan greindar undanþágur er nauðsynlegt að hafa samband við Vinnumálastofnun til að fá nánari svör. Þegar undanþága er byggð á tilteknu dvalarleyfi útlendings þarf viðkomandi almennt að hafa fengið útgefið slíkt dvalarleyfi af hálfu Útlendingastofnunar. Nánari upplýsingar um tegundir dvalarleyfa og skilyrði þeirra má finna á vef Útlendingastofnunar.

Eftirfarandi útlendingar eru undanþegnir kröfunni um atvinnuleyfi:

Hafa samband

Þurfir þú frekari leiðbeiningar má hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is eða á símatíma atvinnuleyfa. Yfirlit símatíma má finna hér.


Útlendingar sem falla undir samning um Evrópska efnahagssvæðisins, fríverslunarsamning Evrópu og samnings Íslands, Danmerkur og Færeyja

Hér undir falla ríkisborgarar frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins, ríkjum innan fríverslunarsamnings Evrópu eða frá Færeyjum. 

Smelltu hér til að sjá lista þessara ríkja 

Enn fremur falla hér undir aðstandendur framangreindra ríkisborgara. Til aðstandenda teljast:

  • Maki eða sambúðarmaki útlendings
  • Niðjar útlendings og/eða maka hans yngri en 21 árs eða á framfæri þeirra
  • Ættmenni útlendings eða maka hans, í beinan legg, sem er á framfæri þeirra

Aðstandendur framangreindra ríkisborgara þurfa þó að fá útgefið dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun til að dvelja löglega hér á landi. Sjá nánar á heimasíðu Útlendingastofnunar hér .

Útlendingar með ótímabundið dvalarleyfi

Hér undir falla útlendingar sem hafa gilt ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga. Nánari upplýsingar um ótímabundið dvalarleyfi má nálgast á heimasíðu Útlendingastofnunar, sjá hér.

Erlendir makar og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara og börn þeirra að átjan ára aldri

Hér undir falla makar og sambúðarmakar íslenskra ríkisborgara sem veitt hefur verið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar samkvæmt lögum um útlendinga. Enn fremur börn þeirra upp að átján ára aldri sem eru í forsjá og á framfæri þeirra.

Nánari upplýsingar um rétt til fjölskyldusameiningar má nálgast á vef  Útlendingastofnunar,

Með vísan til 22. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga eru umsækjendur um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar undanþegnir kröfunni um atvinnuleyfi sem makar EES-ríkisborgara og íslenskra ríkisborgara. Umsækjendum er því heimilt að hefja störf á innlendum vinnumarkaði meðan umsókn um dvalarleyfi er til úrvinnslu hjá Útlendingastofnun

Útlendingur sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar

Hér undir falla útlendingar sem hafa fengið alþjóðlega vernd hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga. Enn fremur útlendingar sem koma hingað til lands í boði stjórnvalda sem flóttafólk, þ.e. kvótaflóttamenn.

Sjá frekari upplýsingar um alþjóðlega vernd hér.

Útlendingar í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja

Hér undir falla þeir útlendingar sem koma hingað til lands í einkaþjónustu sendimanna erlendra ríkja s.s. þjónustufólk á heimili sendiherra, bílstjórar sendiherra og barnfóstra barna sendiherra.

Útlendingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli vinnudvalar ungs fólks

Dvalarleyfi vegna vinnudvalar ungs fólks er veitt á grundvelli sérstakra samninga Íslands við erlend ríki. Japan og Bretland eru einu ríkin sem íslensk stjórnvöld hafa gert slíka samninga við til þessa. Upplýsingar um dvalarleyfi á þessum grundvelli má nálgast á vef Útlendingastofnunar. 

Vakin er athygli á að samningur Íslands og Bretlands heimilar handhöfum slíkra dvalarleyfa ekki að starfa sem íþróttamenn eða íþróttaþjálfarar. Bent er á að hægt er að sækja um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk vegna slíkra starfa.

Þá bendir stofnunin á að handhafar slíkra dvalarleyfa eru ekki undanþegnir kröfu um að afla starfsleyfis kjósi þeir að starfa í löggiltri starfsgrein á borð við iðngreinar eða sem heilbrigðisstarfsmenn.

Útlendingar sem voru íslenskir ríkisborgarar frá fæðingu en hafa misst íslenskan ríkisborgararétt sinn

Upplýsingar um hvort einstaklingur fellur undir þessa undanþágu má nálgast hjá Útlendingastofnun.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Hér undir falla útlendingar sem hafa gilt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Nánari upplýsingar um dvalarleyfi má nálgast á vef Útlendingastofnunar.

Dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið

Hér undir falla útlendingar sem hafa gilt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Nánari upplýsingar um dvalarleyfi má nálgast á vef Útlendingastofnunar.

Erlendir makar og sambúðarmakar útlendinga sem veitt hefur verið tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar og börn þeirra að átján ára aldri

Hér undir falla makar og sambúðarmakar sérfræðinga sem veitt hefur verið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt lögum um útlendinga. Enn fremur börn þeirra upp að átján ára aldri sem eru í forsjá og á framfæri þeirra.

Nánari upplýsingar um rétt til fjölskyldusameiningar má nálgast á vef Útlendingastofnunar


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni