Tímabundin atvinnuleyfi
Almennt þarf atvinnurekandi sem vill ráða útlending til starfa frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA eða Færeyja að sækja um og fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi áður en útlendingur hefur störf. Hefji útlendingur störf án þess að hafa til þess atvinnuleyfi kann það að leiða til höfnunar á umsókn um atvinnuleyfi sem og það varðar sektum eða fangelsi til allt að tveggja ára.
Fái atvinnurekandi útgefið tímabundið atvinnuleyfi þá er það skilyrt við þann útlending sem sótt erum leyfi fyrir sem og útlendingnum er eingöngu heimilt að starfa hjá þeim atvinnurekanda sem atvinnuleyfið er veitt til. Vilji útlendingur skipta um vinnu þarf hann því að sækja um nýtt atvinnuleyfi hjá hinum nýja atvinnurekanda og þarf það að vera veitt áður en honum er heimilt að hefja þar störf, sjá nánar neðar á þessari síðu
Hafa samband
Þurfir þú frekari leiðbeiningar má hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is eða á símatíma atvinnuleyfa. Yfirlit símatíma má finna hér.
Ferli umsóknar um tímabundið atvinnuleyfi:
Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi ásamt öllum nauðsynlegum gögnum skal skila til Útlendingastofnunar. Almennt kannar Útlendingastofnun fyrst hvort útlendingur uppfylli skilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi áður en umsókn um atvinnuleyfi er áframsend til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu.
Eftir að Vinnumálastofnun berst umsókn til afgreiðslu kannar stofnunin hvort öll nauðsynleg gögn hafi fylgt með umsókn sem og hvort umsóknin uppfylli skilyrði laga um atvinnuréttindi útlendinga. Vanti einhver gögn eða frekari upplýsingar sendir Vinnumálastofnun atvinnurekanda og útlendingi bréf þar sem óskað er eftir þeim gögnum eða upplýsingum sem vantar.
Í kjölfar þess að umsókn er metin fullnægjandi eða frestir til að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar eru liðnir tekur Vinnumálastofnun afstöðu til umsóknarinnar. Er þá umbeðið tímabundið atvinnuleyfi veitt eða hafnað. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt atvinnurekanda og útlendingi með bréfi en jafnframt fær Útlendingastofnun tilkynningu um ákvörðunina þar sem hún getur haft áhrif á rétt útlendings til dvalarleyfis hér á landi. Synji Vinnumálastofnun um útgáfu atvinnuleyfis er hægt að kæra þá ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins.
Grunnskilyrði tímabundinna atvinnuleyfa:
Eftirfarandi skilyrði þurfa ávallt að vera uppfyllt svo Vinnumálastofnun sé heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi.
- Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi undirrituð af atvinnurekanda og útlendingi.
- Ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings undirritaður af atvinnurekanda og útlendingi.
- Umsögn viðeigandi stéttarfélags.
Enn fremur þurfa viðeigandi sérskilyrði hverrar tegundar af tímabundnu atvinnuleyfi að vera uppfyllt. Sjá nánar um sérskilyrði hverrar tegundar með því að velja viðeigandi tegund atvinnuleyfis hér að neðan.
Framlenging atvinnuleyfis:
Umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi þarf að skila inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en það rennur út. Við framlengingu þarf að uppfylla öll skilyrði hins tímabundna atvinnuleyfis og atvinnurekandi þarf að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.
Nýr atvinnurekandi útlendings:
Útlendingi með tímabundið atvinnuleyfi er óheimilt að starfa hjá öðrum atvinnurekanda en þeim sem fær útgefið atvinnuleyfi til að hafa hann í vinnu. Vilji útlendingur skipta um vinnustað þarf hann að skila inn umsókn um atvinnuleyfi til Útlendingastofnunar frá hinum nýja atvinnurekanda og þarf það leyfi að vera veitt áður en honum er heimilt að hefja störf.