Tímabundin atvinnuleyfi

Almennt þarf atvinnurekandi sem vill ráða útlending til starfa frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA eða Færeyja að sækja um og fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi áður en útlendingur hefur störf. Hefji útlendingur störf án þess að hafa til þess atvinnuleyfi kann það að leiða til höfnunar á umsókn um atvinnuleyfi sem og það varðar sektum eða fangelsi til allt að tveggja ára.

Fái atvinnurekandi útgefið tímabundið atvinnuleyfi þá er það skilyrt við þann útlending sem sótt erum leyfi fyrir sem og útlendingnum er eingöngu heimilt að starfa hjá þeim atvinnurekanda sem atvinnuleyfið er veitt til. Vilji útlendingur skipta um vinnu þarf hann því að sækja um nýtt atvinnuleyfi hjá hinum nýja atvinnurekanda og þarf það að vera veitt áður en honum er heimilt að hefja þar störf, sjá nánar neðar á þessari síðu.

Ferli umsóknar um tímabundið atvinnuleyfi:

Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi ásamt öllum nauðsynlegum gögnum skal skila til Útlendingastofnunar. Almennt kannar Útlendingastofnun fyrst hvort útlendingur uppfylli skilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi áður en umsókn um atvinnuleyfi er áframsend til Vinnumálastofnunar til afgreiðslu.

Eftir að Vinnumálastofnun berst umsókn til afgreiðslu kannar stofnunin hvort öll nauðsynleg gögn hafi fylgt með umsókn sem og hvort umsóknin uppfylli skilyrði laga um atvinnuréttindi útlendinga. Vanti einhver gögn eða frekari upplýsingar sendir Vinnumálastofnun atvinnurekanda og útlendingi bréf þar sem óskað er eftir þeim gögnum eða upplýsingum sem vantar.

Í kjölfar þess að umsókn er metin fullnægjandi eða frestir til að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar eru liðnir tekur Vinnumálastofnun afstöðu til umsóknarinnar. Er þá umbeðið tímabundið atvinnuleyfi veitt eða hafnað. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt atvinnurekanda og útlendingi með bréfi en jafnframt fær Útlendingastofnun tilkynningu um ákvörðunina þar sem hún getur haft áhrif á rétt útlendings til dvalarleyfis hér á landi. Synji Vinnumálastofnun um útgáfu atvinnuleyfis er hægt að kæra þá ákvörðun til velferðarráðuneytisins.

Grunnskilyrði tímabundinna atvinnuleyfa:

Eftirfarandi skilyrði þurfa ávallt að vera uppfyllt svo Vinnumálastofnun sé heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi.

 • Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi undirrituð af atvinnurekanda og útlendingi.
 • Ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings undirritaður af atvinnurekanda og útlendingi.
 • Umsögn viðeigandi stéttarfélags.

Enn fremur þurfa viðeigandi sérskilyrði hverrar tegundar af tímabundnu atvinnuleyfi að vera uppfyllt. Sjá nánar um sérskilyrði hverrar tegundar með því að velja viðeigandi tegund atvinnuleyfis hér að neðan.

Framlenging atvinnuleyfis

Umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi þarf að skila inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en það rennur út. Við framlengingu þarf að uppfylla öll skilyrði hins tímabundna atvinnuleyfis og atvinnurekandi þarf að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.

Almennt þarf eingöngu að skila inn eftirfarandi gögnum þegar sótt er um framlengingu atvinnuleyfis:

 • Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi undirrituð af atvinnurekanda og útlendingi.
 • Ráðningarsamningur milli atvinnurekanda og útlendings undirritaður af atvinnurekanda og útlendingi.
 • Umsögn viðeigandi stéttarfélags.

Í eftirfarandi tilvikum þarf að skila inn frekari gögnum með umsókn um framlengingu atvinnuleyfis:

 • Tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki.
 • Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings eða samstarfssamnings um kennslu-, fræði- eða vísindastörf.

Sjá frekari upplýsingar um hvaða gögn þarf að leggja fram með því að velja viðeigandi tegund atvinnuleyfis hér að neðan.

Nýr atvinnurekandi útlendings:

Útlendingi með tímabundið atvinnuleyfi er óheimilt að starfa hjá öðrum atvinnurekanda en þeim sem fær útgefið atvinnuleyfi til að hafa hann í vinnu. Vilji útlendingur skipta um vinnustað þarf hann að skila inn umsókn um atvinnuleyfi til Útlendingastofnunar frá hinum nýja atvinnurekanda og þarf það leyfi að vera veitt áður en honum er heimilt að hefja störf.

Öll skilyrði þeirrar tegundar af atvinnuleyfi sem sótt er um þurfa að vera uppfyllt óháð því hvaða tegund atvinnuleyfis útlendingur hafði hjá fyrri atvinnurekanda. Sjá frekari upplýsingar um skilyrði hvers atvinnuleyfis fyrir sig hér að neðan.


Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar

Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi sem krefst sérfræðiþekkingar (sérfræðileyfi), sbr. 8. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfisins eru m.a.:

 • að leitað hafi verið aðstoðar Vinnumálastofnunar við að finna starfsmann innanlands og innan Evrópska efnahagssvæðinu, EFTA-ríkja eða Færeyja,
 • að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekanda um að gegna tilteknu starfi sem krefst sérfræðiþekkingar samkvæmt lögum eða venju hér á landi,
 • sérfræðiþekking útlendingsins sé nauðsynleg hlutaðeigandi fyrirtæki og
 • sérfræðiþekking útlendingsins feli í sér háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntun sem viðurkennd er hér á landi, eða, í undantekningartilvikum, að útlendingur búi yfir langri starfsreynslu sem jafna megi við sérfræðiþekkingu.

Umsókn um sérfræðileyfi skal leggja fram hjá Útlendingastofnun ásamt nauðsynlegum fylgigögnum.

Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir að þar til bærir aðilar, að mati stofnunarinnar, votti um að starfið sé þess eðlis að það krefjist þess að sá sem því gegnir búi yfir tiltekinni sérfræðiþekkingu.

Nauðsynleg gögn með umsókn:

 1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

a)   Afla þarf umsagnar stéttarfélags á umsókn áður en henni er skilað inn (reitur IV á umsókn).

b)   Bæði útlendingur og atvinnurekandi þurfa að skrifa undir umsóknina.

 1. Ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda þar sem m.a. þarf að koma fram:

a)   Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekanda, s.s. starfsheiti.

b)   Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.

c)   Launakjör útlendings þurfa að vera sambærileg og launakjör annarra sérfræðinga sem starfa í atvinnugreininni.

 1. Ítarlegar upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum og hvernig útlendingurinn uppfyllir þær kröfur sem starfið gerir.
 2. Staðfest afrit af prófskírteini útlendings á íslensku eða ensku.

a)   Ef um lögverndað starfsheiti er að ræða eða löggilda iðngrein þarf að fylgja með staðfesting frá þar til bærum íslenskum yfirvöldum að útlendingur hafi tilskilin réttindi til að sinna því starfi sem ráða skal hann til. Sjá nánar vegna iðngreina hér  og heilbrigðisstarfstétta hér.

 1. Ef sérfræðiþekking útlendings byggist á langri starfsreynslu þarf að fylgja með umsókn upplýsingar um fyrri vinnustaði og starfstíma.
 2. Upplýsingar um tilraunir atvinnurekanda til að ráða starfsmann sem nú þegar hefur aðgang að íslenskum vinnumarkaði áður en leitað var  utan Evrópska efnahagssvæðisins að starfsfólki eða, ef slíkt var ekki gert, röksemdir fyrir ástæðum þess að slíkt var ekki gert áður en leitað var að starfsfólki utan Evrópska efnahagssvæðisins og af hverju Vinnumálastofnun ætti að veita undanþágu frá þeirri skyldu.
 3. Staðfesting á því að atvinnurekandi greiði heimflutning útlendings að starfstíma loknum ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á eða ef útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slyss. Tiltaka skal til hvaða lands heimflutningur nær.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem nauðsynleg eru með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.

Hér má nálgast gátlista yfir þau gögn og upplýsingar sem leggja þarf fram þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar er heimilt að veita til allt að tveggja ára í senn.

Beiðni um að útlendingur geti hafið störf sem fyrst:

Útlendingur má almennt ekki hefja störf áður en atvinnu- og dvalarleyfi hefur verið veitt. Hins vegar er atvinnurekanda heimilt að óska eftir því að útlendingur geti hafið störf áður en dvalarleyfi hefur verið veitt. Skilyrði fyrir slíkri heimild er að atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar hafi verið veitt og að atvinnurekandi ábyrgist kostnað við að senda útlending aftur heim komi til þess að honum verði synjað um dvalarleyfi.

Umsókn um framlengingu atvinnuleyfis:

Með umsókn um framlengingu á sérfræðileyfi þarf almennt einungis að skila inn gögnum sem tilgreind eru í lið 1 og 2 að ofan. Vinnumálastofnun er þó heimilt að óska eftir frekari upplýsingum vegna umsóknar, þar á meðal að atvinnurekandi leggi fram upplýsingar um það á hvaða hátt sérfræðiþekking útlendings hafi nýst í því starfi sem hann var ráðinn til að gegna. Enn fremur þarf atvinnurekandi að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.

Útlendingi er almennt heimilt að starfa meðan að umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda er í vinnslu. Það er þó skilyrði að umsókn um framlengingu sé lögð inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en að fyrra leyfi rennur út.

Nýr atvinnurekandi:

Vilji útlendingur sem hefur fengið útgefið sérfræðileyfi skipta um vinnu þarf hann að sækja um atvinnuleyfi hjá hinum nýja atvinnurekanda. Þarf að skila inn gögnum sem tilgreind eru í liðum 1-3 og 6 að ofan. Enn fremur vekur Vinnumálastofnun athygli á því að stofnun metur hvort sú sérfræðikunnátta sem útlendingur býr yfir uppfylli skilyrði sérfræðileyfis með hliðsjón af hinu nýja starfi óháð fyrra mati stofnunarinnar á sérfræðiþekkingu útlendings. Niðurstaða slíks mats getur verið að eðli hins nýja starfs sé svo ólíkt hinu fyrra starfi sem útlendingur gegndi að hann teljist ekki sérfræðingur á því sviði að mati Vinnumálastofnunar og því sé útgáfu atvinnuleyfisins hafnað.

Réttur útlendings til að dveljast hér á landi eftir atvinnumissi:

Útlendingur sem missir starf sitt getur sótt um 3 mánaða dvalarleyfi til Útlendingastofnunar til þess að leita sér að öðru starfi á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar. Sjá nánar á vef Útlendingastofnunar.

Tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki

Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna tiltekins starfs hér á landi þegar starfsfólk fæst hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, í EFTA-ríkjum eða í Færeyjum, þ.e. vegna skorts á starfsfólki (skortsleyfi), sbr. 9. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:

 • að leitað hafi verið aðstoðar Vinnumálastofnunar við að finna starfsmann innanlands og innan Evrópska efnahagssvæðinu, EFTA-ríkja eða Færeyja. Fylla má út rafræna auglýsingu hér.
 • að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekanda,
 • að aflað hafi verið umsagnar viðeigandi stéttarfélags og
 • að atvinnurekandi færi fram sérstök rök fyrir nauðsyn þess að ráða til sín erlent starfsfólk frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðinu, EFTA-ríkjunum eða Færeyja, m.a. á hvaða hátt það sé þýðingarmikið fyrir rekstur atvinnurekanda.

Vinnumálastofnun vekur athygli á því að atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki er einungis veitt í undantekningartilfellum og þá í þeim tilgangi að mæta tímabundnum sveiflum á íslenskum vinnumarkaði. Enn fremur þarf atvinnurekandi að leita að starfsmanni sem nú þegar hefur aðgang að íslenskum vinnumarkaði áður en sótt er um slíkt leyfi sem og þegar sótt er um framlengingu þess.

Umsókn um atvinnuleyfi vegna skorts á vinnuafli skal leggja fram hjá Útlendingastofnun ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. Hagkvæmast er að slíkri umsókn sé skilað inn á sama tíma og sótt er um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun.

Nauðsynleg gögn með umsókn:

1)    Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki.

a)     Afla þarf umsagnar stéttarfélags á umsókn áður en henni er skilað inn (reitur IV á umsókn).

b)    Bæði útlendingur og atvinnurekandi þurfa að skrifa undir umsókn.

2)    Ráðningasamningur  milli útlendings og atvinnurekanda þar sem m.a. þarf að koma fram:

a)     Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum, s.s. starfsheiti.

i)      Ef um lögverndað starfsheiti er að ræða eða löggilda iðngrein þarf að fylgja með staðfesting frá þar til bærum íslenskum yfirvöldum að útlendingur hafi tilskilinn réttindi til að sinna því starfi sem ráða skal hann til. Sjá nánar vegna iðngreina hér  og heilbrigðisstarfstétta hér . Sé um slíkt starf að ræða getur komið til þess að Vinnumálastofnun veiti fremur tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar þar sem skilyrði þess leyfis kunna þá að vera uppfyllt.

b)    Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.

c)     Launakjör útlendings þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga.

i)      Nauðsynlegt er að tilgreina launakjör í ráðningarsamningi eða vísa til viðeigandi launaflokks samkvæmt kjarasamningi.

3)    Upplýsingar um tilraunir atvinnurekanda til að ráða starfsmann sem nú þegar hefur aðgang að íslenskum vinnumarkaði áður en leitað var utan Evrópska efnahagssvæðisins að starfsfólki.

a)     Hafi atvinnurekandi ekki auglýst starfið í gegnum EURES vinnumiðlun Vinnumálastofnunar þegar umsókn berst stofnuninni, mun stofnunin alla jafna fresta afgreiðslu umsóknarinnar til að veita atvinnurekanda tækifæri til að auglýsa starfið.

4)    Röksemdir fyrir nauðsyn ráðningu þessa tiltekins útlendings til starfa hjá atvinnurekandanum og af hvaða ástæðum það er þýðingarmikið fyrir rekstur atvinnurekandans.

a)     Vakinn er athygli á því að hér er ekki átt við um ástæður sem lúta að útlendingnum sjálfum eða aðstæðum hans heldur einungis ástæðum er lúta að atvinnurekandanum og aðstæðum á innlendum vinnumarkaði.

5)    Staðfesting á því að atvinnurekandi greiði heimflutning útlendings að starfstíma loknum ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á eða ef útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slyss. Tiltaka skal til hvaða lands heimflutningur nær.

6)    Með umsókn um framlengingu á skortsleyfi þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn.

 

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem nauðsynleg eru með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.

Hér  má nálgast gátlista yfir þau gögn og upplýsingar sem leggja þarf fram þegar sótt erum atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki.

Tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki er heimilt að veita til allt að eins árs í senn. Sé atvinnuleyfi veitt til lengri tíma en átta mánaða og það kemur rof á gildistíma atvinnuleyfisins, s.s. vegna þess að sótt er um framlengingu eftir að fyrra leyfi rennur út, þarf útlendingur að yfirgefa landið í tvö ár áður en honum er heimilt að fá útgefið atvinnuleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki aftur. Vinnumálastofnun hefur engar lagaheimildir til að víkja frá framangreindri kvöð um dvöl útlendings erlendis í tvö ár.

Gildi atvinnuleyfið í skemmri tíma en átta mánuði á tólf mánaða tímabili þarf útlendingur ekki að dveljast erlendis í tvö ár svo heimilt að veita nýtt atvinnuleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki.

Umsókn um framlengingu atvinnuleyfis:

Með umsókn um framlengingu á skortsleyfi þurfa öll sömu skilyrði að vera uppfyllt og þegar leyfið var veitt í fyrsta sinn. Þarf fyrirtæki því meðal annars að auglýsa umrætt starf aftur nema að Vinnumálastofnun veiti undanþágu frá því. Vísast því til þeirra skilyrða sem tiltekin eru að ofan. Enn fremur þarf atvinnurekandi að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.

Útlendingi er almennt heimilt að starfa meðan að umsókn um framlengingu leyfis hjá sama atvinnurekanda er í vinnslu. Það er þó skilyrði að umsókn um framlengingu sé lögð inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en að fyrra leyfi rennur út.

Nýr atvinnurekandi:

Vilji útlendingur, sem hefur fengið útgefið skortsleyfi, skipta um vinnu þarf hann að sækja um atvinnuleyfi hjá hinum nýja atvinnurekanda. Útlendingi er óheimilt að hefja störf hjá hinum nýja atvinnurekanda fyrr en atvinnuleyfið hefur verið veitt. Að öðru leyti fer um umsóknina líkt og þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki í fyrsta sinn. Þarf atvinnurekandi því meðal annars að auglýsa umrætt starf nema að Vinnumálastofnun veiti undanþágu frá því. Vísast því til þeirra skilyrða sem tiltekin eru að ofa

Tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk

Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa íþróttafólks hjá íþróttafélagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:

 • að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við íþróttafélag um að stunda eða þjálfa tiltekna íþrótt hjá félaginu þar sem meðal annars er tekið fram í hvaða lífeyrissjóð skuli greiða vegna útlendings og
 • að íþróttafélagið greiði heimflutning útlendings að starfstíma loknum í ákveðnum tilfellum.

Umsókn um tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk skal leggja fram hjá Útlendingastofnun ásamt nauðsynlegum fylgigögnum. Hagkvæmast er að slíkri umsókn sé skilað inn á sama tíma og sótt er um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun.

Nauðsynleg gögn með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk:

 1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk.
 2. Bæði útlendingur og fulltrúi íþróttafélagsins þurfa að skrifa undir umsókn og ráðningarsamning.
 3. Ráðningasamningur milli útlendings og íþróttafélagsins þar sem m.a. þarf að koma fram:
  1. Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá íþróttafélaginu.
  2. Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.
  3. Launakjör útlendings og önnur fríðindi sem hann nýtur.
  4. Staðfesting á því að atvinnurekandi greiði heimflutning útlendings að starfstíma loknum ef um er að ræða ráðningarslit sem starfsmaður á ekki sök á eða ef útlendingur verður óvinnufær um lengri tíma vegna veikinda eða slyss. Tiltaka skal til hvaða lands heimflutningur nær.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem nauðsynleg eru með umsókn um tímabundið atvinnuleyfi. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.

Hér má nálgast gátlista yfir þau gögn og upplýsingar sem leggja þarf fram þegar sótt erum atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk.

Atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk sem veitt er í fyrsta skipti er ekki veitt lengur en í eitt ár, en þó aldrei lengur en sem nemur ráðningartímanum samkvæmt ráðningarsamningi.  Heimilt er að framlengja atvinnuleyfi í allt að tvö ár í senn. Með umsókn um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn.

Umsókn um framlengingu atvinnuleyfis:

Með umsókn um framlengingu á atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk þurfa öll sömu skilyrði að vera uppfyllt og þegar leyfið var veitt í fyrsta sinn. Vísast því til þeirra skilyrða sem tiltekin eru að ofan. Enn fremur þarf íþróttafélagið að hafa staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins.

Útlendingi er almennt heimilt að starfa meðan að umsókn um framlengingu leyfis hjá sama íþróttafélagi er í vinnslu. Það er þó skilyrði að umsókn um framlengingu sé lögð inn til Útlendingastofnunar fjórum vikum áður en að fyrra leyfi rennur út.

Útlendingur vill starfa fyrir nýtt íþróttafélag:

Vilji útlendingur, sem hefur fengið útgefið atvinnuleyfi fyrir íþróttafólk, skipta um íþróttafélag sem hann starfar fyrir þarf hann að sækja um atvinnuleyfi hjá hinum nýja íþróttafélagi. Útlendingi er óheimilt að hefja störf hjá hinum nýja íþróttafélagi fyrr en atvinnuleyfið hefur verið veitt. Að öðru leyti fer um umsóknina líkt og þegar sótt er um atvinnuleyfi vegna íþróttafólks í fyrsta sinn. Vísast því til þeirra skilyrða sem tiltekin eru að ofan.

Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna

Í undantekningartilvikum er heimilt að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna, sbr. sbr. 11. gr. laga nr. 80/2016 um atvinnuréttindi útlending, og eftirfarandi skilyrði eru m.a. uppfyllt:

 • bráðabirgðadvalarleyfi,
 • dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða
 • dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals,
 • dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals,
 • dvalarleyfi fyrir foreldra,
 • dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið eða
 • dvalarleyfi á grundvelli lögmæts tilgangs.

Nauðsynleg gögn með umsókn um nýtt tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna

 1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakara ástæðna
 2. Afla þarf umsagnar stéttarfélags á umsókn áður en henni er skilað inn (reitur IV á umsókninni)
 3. Bæði útlendingur og atvinnurekandi þurfa að skrifa undir umsóknina
 4. Ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda þar sem m.a. þarf að koma fram:
   a)Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum.
   b)Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.
   c)Launakjör útlendings þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga.
   d)Ef útlendingur á að starfa við vinnu er krefst lögverndaðra starfsréttinda eða við löggilda iðngrein þarf að fylgja með staðfesting frá þar til bærum íslenskum yfirvöldum að útlendingur hafi tilskilinn réttindi til að sinna því starfi sem ráða skal hann til.

Með umsókn um framlengingu á atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn.

Tímabundið atvinnuleyfi vegna sérstakra ástæðna í tengslum við dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða getur verið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.

Tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar

Heimilt er að veita útlendingi tímabundið atvinnuleyfi ef nánasti aðstandandi hans er íslenskur ríkisborgari eða hefur tiltekin atvinnuleyfi hérlendis, sbr. 12. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:

 • að útlendingur sé:
  -sambúðarmaki íslensks ríkisborgara,
  -barn maka eða sambúðarmaka íslensk ríkisborgara að nánari skilyrðum uppfylltum,
  -maki, sambúðarmaki eða barn, eldra en 18 ára og að nánari skilyrðum uppfylltum, útlendings sem hefur fengið eitt af eftirtöldum  atvinnuleyfum:
 • Tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sbr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga,
 • Tímabundið atvinnuleyfi sem tengist dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga  eða
 • Óbundið atvinnuleyfi, sbr. 17. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga
 • að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekanda og
 • að aflað hafi verið umsagnar viðeigandi stéttarfélags.

  Nauðsynleg gögn með umsókn um nýtt tímabundið atvinnuleyfi vegna fjölskyldusameiningar:
 1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
 2. Afla þarf umsagnar stéttarfélags á umsókn áður en henni er skilað inn (reitur IV á umsókn).
 3. Bæði útlendingur og atvinnurekandi þurfa að skrifa undir umsóknina.
 4. Ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda þar sem m.a. þarf að koma fram:
 5. Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum.
 6. Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.
 7. Launakjör útlendings þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga.
 8. Ef útlendingur á að starfa við vinnu er krefst lögverndaðra starfsréttinda eða við löggilda iðngrein þarf að fylgja með staðfesting frá þar til bærum íslenskum yfirvöldum að útlendingur hafi tilskilinn réttindi til að sinna því starfi sem ráða skal hann til.

Með umsókn um framlengingu á atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn.

Tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar getur verið grundvöllur óbundins atvinnuleyfis ef útlendingur leiðir rétt sinn til tímabundins atvinnuleyfis af útlendingi með óbundið atvinnuleyfi eða íslensks ríkisborgara.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef óskað er eftir því.

Tímabundið leyfi fyrir nám

Heimilt er að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa útlendings sem stundar nám hér á landi (námsmannaleyfi), sbr. 13. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:

 • að útlendingur hafi gert ráðningarsamning við atvinnurekenda,

 • að starfshlutfall útlendings sé ekki meira en 40% nema vinna sem innt er af hendi í námsleyfi eða í verknámi og

 • að útlendingi hafi verið veitt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt lögum um útlendinga.

  Nauðsynleg gögn með umsókn um námsmannaleyfi:

 1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi vegna náms.
 2. Ráðningarsamningur milli útlendings og atvinnurekanda þar sem m.a. þarf að koma fram:
 3. Upplýsingar um fyrirhugað starf útlendings hjá atvinnurekandanum.
 4. Upplýsingar um lífeyrissjóð sem greiða á til vegna starfa útlendings.
 5. Launakjör útlendings þurfa að vera í samræmi við gildandi kjarasamninga.
 6. Ef útlendingur á að starfa við vinnu er krefst lögverndaðra starfsréttinda eða við löggilda iðngrein þarf að fylgja með staðfesting frá þar til bærum íslenskum yfirvöldum að útlendingur hafi tilskilinn réttindi til að sinna því starfi sem ráða skal hann til.

Með umsókn um framlengingu á námsmannaleyfi þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.

Tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings

Heimilt er, við sérstakar aðstæður, að veita tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings, sbr. 15. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga. Skilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt ákvæði þessu eru m.a.:

 • að hið erlenda fyrirtæki sem veita á þjónustu hér á landi hafi ekki starfstöð hér á landi,

 • að gerður hafi verið þjónustusamningur milli hins erlenda þjónustufyrirtækis og hins innlenda notendafyrirtækis og

 • að í þjónustusamningi eða staðfestum viðauka við hann komi fram að nauðsynlegt sé að sá útlendingur sem sótt er um atvinnuleyfi fyrir sinni þeirri þjónustu sem á að veita,

   

  Nauðsynleg gögn með umsókn um nýtt tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings:

 1. Frumrit af umsókn um tímabundið atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings.
 2. Þjónustusamningur milli hins erlenda þjónustufyrirtækis og hins innlenda notendafyrirtækis
 3. Það þarf að koma fram í samningnum sjálfum eða staðfestum viðauka við hann að nauðsynlegt sé að sá útlendingur, sem sótt er um atvinnuleyfi vegna, sinni þeirri þjónustu sem á að veita.
 4. Ráðningarsamningur milli útlendings og þjónustufyrirtækisins þar sem m.a. þarf að koma fram:
 5. Upplýsingar um launakjör útlendings meðan hann dvelur hér á landi.

Með umsókn um framlengingu á atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna á grundvelli þjónustusamnings þarf að skila inn sömu gögnum og með nýrri umsókn.

Það er á ábyrgð umsækjanda að leggja fram þau gögn sem eru á listanum. Ef öll gögn eru ekki lögð fram með umsókninni leiðir það til þess að afgreiðslan tefst eða umsókninni verður synjað. Vinnumálastofnun getur óskað eftir viðbótargögnum ef stofnunin telur þörf á.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni