Spurt og svarað


Hverjir eiga rétt á ráðgjöf og stuðningi vegna skertrar starfsgetu?

Atvinnuleitendur með skerta starfsgetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar geta fengið aðstoð við að finna störf á almennum vinnumarkaði. Ráðgjafar Vinnumálastofnunar aðstoða við atvinnuleitina og er stuðningur og eftirfylgd einstaklingsbundinn. Ráðgjafar hjá Vinnumálastofnun og atvinnuleitendur leita eftir mögulegum störfum til að veita atvinnuleitendum tækifæri á almennum vinnumarkaði.

Vinnuveitandi og starfsmaður hafa aðgang að ráðgjafa eftir þörfum.

Hvaða atvinnurekendur geta nýtt sér þjónustuna?

Fyrirtæki og stofnanir á almennum vinnumarkaði sem vilja leggja sitt af mörkum í samfélagslegri ábyrgð og stuðla að fjölbreytileika í starfsmannahópnum.

Ég vil ráða einstakling með skerta starfsgetu, hvernig er þjónustuferlið?

Fyrsta skrefið í átt að atvinnu getur verið starfskynning. Með þeim hætti getur einstaklingurinn kynnt sér starfið og yfirmenn mátað starfsmann við starfið. Engin binding felst í því þegar einstaklingur kemur í starfskynningu. Komi til ráðningar veitir Vinnumálastofnun starfsmanni og vinnuveitanda stuðning, ráðgjöf og eftirfylgd eftir þörfum. Eftirfylgdin minnkar eftir því sem færni og öryggi eykst en ráðgjafar eru alltaf til staðar. Jafnframt geta atvinnurekendur fengið aðstoð við að kortleggja störf og verkefni sem koma til greina.

Hvað er vinnusamningur öryrkja?

Vinnusamningur öryrkja er endurgreiðslusamningur við atvinnurekendur sem hafa ráðið fólk með skerta starfsgetu til starfa. Vinnumálastofnun er umsjónaraðili fyrir vinnusamning öryrkja. Fyrirtæki og stofnanir sem eru tilbúin að ráða einstaklinga með skerta starfsgetu geta óskað eftir því að nýta sér vinnusamning. Hann er gerður  í samstarfi við Vinnumálastofnun og felur í sér 75% endurgreiðslu launa í allt að tvö ár. Endurgreiðslan lækkar síðan um 10% á ári eftir það uns 25% endurgreiðslu er náð.

 

Atvinnurekandi greiðir starfsmanni á vinnusamningi laun samkvæmt gildandi kjarasamningi og skilar mánaðarlega inn launaseðlum í atvinnurekendagátt. Vinnumálastofnun endurgreiðir atvinnurekanda hlutfall af launum og launatengdum gjöldum.

 

Ráðgjafar sjá um gerð samninga og kynna fyrir atvinnurekendum hvernig endurgreiðsluferlinu er háttað. Ferlið er rafrænt inn á heimasíðu Vinnumálastofnunar og einfalt í sniðum.

Hverjir eiga rétt á vinnusamningi öryrkja?

Skilyrði fyrir vinnusamningi öryrkja er að einstaklingur hafi fengið starf á almennum vinnumarkaði, hafi gilt örorkumat, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk undir 50% og fái greiðslur frá Tryggingastofnun.

Hver eru næstu skref ef fyrirtæki vill ráða atvinnuleitanda með skerta starfsgetu?

Vinnusamningur öryrkja er ætlaður til að auka möguleika atvinnuleitenda með skerta starfsgetu til að ráða sig í vinnu á almennum vinnumarkaði. Ef fyrirtæki og stofnanir hafa áhuga á því að ráða til sín einstakling með skerta starfsgetu er best að senda erindi á netfangið ams@vmst.is eða hringja í  515-4800 og óska eftir samtali við ráðgjafa sem sinnir þessum málaflokki.


Viltu vita meira?

Þú getur sent okkur tölvupóst á netfangið ams@vmst.is eða hringt í okkur í síma 515 4800.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni