Launamaður

Launamenn á aldrinum 18-70 ára eiga rétt á atvinnuleysisbótum að því tilskildu að þeir hafi áunnið sér tryggingarétt og uppfylli eftirfarandi skilyrði:

  • séu í virkri atvinnuleit,
  • séu búsettir og staddir hér á landi,
  • hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana,
  • hefur verið launamaður á ávinnslutímabili, 
  • leggur fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda og vottorð frá skóla þegar það á við,
  • hefur verið í atvinnuleit samfellt í þrjá virka daga frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst Vinnumálastofnun.

Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Launamaður telst að fullu tryggður eftir að hafa starfað samfellt á síðustu 12 mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnleysisbætur til Vinnumálastofnunar.

Launamaður, sem starfað hefur skemur en 12 mánuði en lengur en 3 mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma.

Dæmi um útreikning bótaréttar:

  • Launamaður sem hefur starfað í 100% starfi í 12 mánuði hefur áunnið sér 100% bótarétt.
  • Launamaður sem hefur starfað í 100% starfi í 6 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.
  • Launamaður sem hefur starfað í 75% starfi í 8 mánuði hefur áunnið sér 67% bótarétt.
  • Launamaður sem hefur starfað í 50% starfi í 10 mánuði hefur áunnið sér 50% bótarétt.

Bótaréttur umsækjanda verður aldrei hærri en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili eða því starfshlutfalli sem hann er tilbúinn að ráða sig í. Hafi launamaður ekki verið í sama starfshlutfalli allt ávinnslutímabilið skal miða við meðalstarfshlutfall hans á þeim tíma.

Nám sem launamaður hefur stundað í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi enda hafi hann sannanlega lokið náminu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.

  • Vottorð frá hlutaðeigandi skóla skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi stundað námið og lokið því.
  • Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á hverju bótatímabili.

Heimilt er að taka tillit til starfs sem unnið er með námi við útreikning á atvinnuleysistryggingu launamanns en þá telst námið ekki til vinnuframlags hans.
Atvinnutengd starfsendurhæfing sem launamaður hefur tekið þátt í á þeim tíma sem hann telst óvinnufær svarar til þrettán vikna vinnuframlags í fullu starfi, enda hafi hann sannanlega lokið atvinnutengdri starfsendurhæfingu og starfað í a.m.k. þrjá mánuði á innlendum vinnumarkaði á ávinnslutímabilinu.

  • Vottorð frá starfsendurhæfingarsjóði skal fylgja umsókn um atvinnuleysisbætur þar sem fram kemur að launamaður hafi tekið þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og lokið henni.
  • Heimild þessi getur einungis komið til hækkunar á tryggingarhlutfalli launamanns einu sinni á bótatímabili.

Vinnuframlag sjómanna miðast við fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst vera 21,67 lögskráningardagar.

Launamaður skal vera fullra 16 ára þegar ávinnslutímabil hefst.

Hafi launamaður einnig verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur skal taka mið af öllum störfum hans við ákvörðun á atvinnuleysistryggingu hans.


Hvaða gögnum þarf að skila?

Þegar þú sækir um atvinnuleysisbætur  á Mínum síðum þarftu eftir atvikum að skila gögnum með umsókninni. Það kemur fram í umsóknarferlinu hvaða gögn það eru. 
Það fer allt eftir aðstæðum þínum hvaða gögnum þú þarft að skila. 

Hér eru dæmi um gögn sem þarf að skila:

  • Staðfestingu á starfstímabili eða staðfestingu á vinnustundum frá stéttarfélagi ef ekki er hægt að fá staðfestingu starfstímabils frá atvinnurekanda.
  • Starfshæfnivottorð ef um skerta vinnufærni er að ræða.
  • Ef þú ert í öðru starfi þarf að skrá það inn í umsókn um atvinnuleysisbætur.
  • Tilkynna þarf um greiðslur frá lífeyrissjóði, Tryggingastofnun og öðrum aðilum með aðgerðinni "Tilkynna tekjur eða vinnu" á Mínum síðum. 
  • Staðfestingu frá skóla um námslok þar sem fram kemur námstímabil umsækjanda.
  • Staðfestingu frá skóla um námshlutfall.

Athugaðu að ef þú hefur fyllt út umsókn og þarft að skila viðbótargögnum að þá  getur þú alltaf gert það á Mínum síðum með aðgerðinni "Skila gögnum".

í umsóknarferlinu kemur fram hvaða gögnum þú þarft að skila en ef frekari gagna er óskað verður haft samband við þig. 


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni