Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta

Ofgreiddar atvinnuleysisbætur, þ.m.t. ofgreiddar bætur í hlutabótaleið, ber að innheimta skv. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Geta skuldir myndast vegna ýmissa þátta en bótaþegum er tilkynnt um skuldamyndun á hverjum greiðsluseðli sínum og með sérstakri tilkynningu á Mínum síðum eða með sendingu bréfs vegna ákvarðana stofnunarinnar er leitt geta til skuldamyndunar. 

Skuldir vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta geta sem dæmi myndast vegna einhverra eftirfarandi þátta:

  • Tekna sem umsækjandi fær samhliða atvinnuleysisbótum, til dæmis vegna vinnu, frá lífeyrissjóðum, Tryggingastofnun, sjúkrasjóðum stéttarfélaga o.fl., þó að gættu frítekjumarki, sem er 73.827 kr. á mánuði,
  • Þegar atvinnuleysisbætur eru reiknaðar út er skerðing atvinnuleysisbóta vegna tekna reiknuð út í samræmi við áætlaðar tekjur t.a.m. í hlutastarfi, þar sem rauntekjur úr launagreiðendaskrá RSK berast ekki fyrr en í fyrsta lagi í mánuðinum á eftir verða leiðréttingar alltaf afturvirkar. Vegna þessa geta atvinnuleysisbætur verið vanskertar við útborgun.
  • Tímabila þar sem umsækjandi uppfyllti ekki skilyrði um atvinnuleysisbætur t.d. vegna verktakavinnu, ótilkynntrar vinnu, dvalar erlendis, afplánun refsingar o.s.frv.
  • Ósamrýmanlegra greiðslna samhliða atvinnuleysisbótum sbr. sjúkra- og slysadagpeninga vegna óvinnufærni, að fullu eða að hluta, ætluðum til framfærslu, endurhæfingarlífeyris, fæðingarorlofs, greiðslna til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna utan endurgreiðslu kostnaðar, greiðslna vegna orlofs og starfsloka. 

Ofgreiddar atvinnuleysisbætur eru innheimtar á eftirfarandi hátt:


Umsækjandi fær áfram greiddar atvinnuleysisbætur:

  • Umsækjanda er tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar og upphæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta á mínum síðum eða bréfleiðis.

  • Ofgreiddum atvinnuleysisbótum er skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings  sem nemur 25% af síðar tilkomnu atvinnuleysisbótunum í hverjum mánuði.

Umsækjandi fær ekki greiddar atvinnuleysisbætur:

  • Afskrái umsækjandi sig af atvinnuleysisskrá eru eftirstöðvar skuldar vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta innheimtar skv. neðangreindu.
  • Umsækjanda er tilkynnt ákvörðun Vinnumálastofnunar og upphæð ofgreiddra atvinnuleysisbóta með 15% álagi með sendingu innheimtubréfs.
  • Fella skal niður álagið samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
  • Verði umsækjandi ekki við greiðsluáskorun Vinnumálastofnunar er málið sent til Innheimtumiðstöðvar Sýslumannsins á Blönduósi til frekari innheimtu.

Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta eru aðfararhæfar. Athuga ber að stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum innheimtu nema að því marki að aðför frestast þar til úrskurður velferferðarmála liggur fyrir.

Endurgreiðsla:

Hægt er að greiða upp skuld við Vinnumálastofnum með því að millifæra inn á eftirfarandi bankareikning:

Banki: 0160-26-004404, kt. 440407-0640


Athugið að ef greiðsla er ekki framkvæmd af reikningi skuldara þarf að setja í skýringu kennitölu skuldara.

Greiðsludreifing:

Ef þörf er á greiðsludreifingu er hægt að senda kröfuna til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi Ekki bætist aukakostnaður við kröfuna þegar hún er send Innheimtumiðstöð á Blönduósi. Athygli er vakin á því að 30 dögum frá dagsetningu innheimtubréfs eða viðurlagaákvörðunar, mun skuldin flytjast þangað til frekari meðferðar.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni