Vinnumálastofnun er heimilt að greiða launamanni gjaldþrota félags atvinnuleysisbætur þann tíma sem hann er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan hann bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum, enda uppfylli hann skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Skilyrði er jafnframt að launamaður framselji Atvinnuleysistryggingasjóði þann hluta launakröfu sinnar á hendur Ábyrgðasjóði launa er nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem hann fær greiddar á þessum tíma.

Eftirfarandi gögn þarf að leggja fram eftir atvikum þegar sótt er um atvinnuleysisbætur í uppsagnarfresti:

 • Staðfestingu á starfstímabili eða staðfestingu á vinnustundum frá stéttarfélagi ef ekki er hægt að fá vottorð vinnuveitenda.
 • Yfirlýsing vegna framsals launakröfu til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
 • Staðfestingu frá stéttarfélagi að krafa verði gerð í réttmætan uppsagnarfrest.
 • Starfshæfnivottorð ef um skerta vinnufærni er að ræða.
 • Upplýsingar um starfshlutfall sem óskað er eftir og áætlaðar tekjur í hlutastarfi.
 • Gögn um greiðslur frá lífeyrissjóði, Tryggingastofnun og öðrum aðilum.
 • Gögn um fjármagnstekjur.
 • Vottorð frá Fæðingarorlofssjóði.
 • Skattkort.
 • Staðfestingu frá skóla um námslok þar sem fram kemur námstímabil umsækjanda.
 • Staðfestingu frá skóla um námshlutfall ásamt stundatöflu.
 • Upplýsingar um fjölda lögskráningardaga.

Umsókn um atvinnuleysisbætur felur jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

 • Greitt er frá þeim degi sem uppsagnarfrestur tekur gildi og að uppsagnarfresti loknum getur aðili þegið almennar atvinnuleysisbætur.
 • Launamaður gjaldþrota félags getur fengið tekjutengdar atvinnuleysisbætur.
 • Mikilvægt er að starfsmenn félagsins komi eins fljótt og auðið er á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þegar þeir leggja niður störf sín.

Ábyrgðarsjóður launa

Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi.  Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. lögum um gjaldþrotaskipti

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu