Undanþágur frá atvinnuleyfi vegna skammtímavinnu
Samkvæmt 23. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga eru tilteknir útlendingar undanþegnir kröfunni um að þurfa atvinnuleyfi til að starfa hér á landi í allt að 90 daga. Þar sem um undanþágu frá meginreglu laganna er að ræða er nauðsynlegt að atvinnurekandi tilkynni um fyrirhuguð störf útlendings hér á landi áður en hann hefur störf. Er það gert í þeim tilgangi að Vinnumálastofnun geti metið hvort störf útlendings hér á landi uppfylli skilyrði 23. gr. laganna. Æskilegt er að með tilkynningu fylgi útlistun á skammtímavinnu einstaklings í viðhengi, svo sem afrit af þjónustusamning, rannsóknartilkynning eða upplýsingar um tónleikahald. Er það nauðsynlegt svo unnt sé að staðfesta að verkefni falli innan undanþágureglu laganna um skammtímavinnu.
Vinnumálastofnun vekur athygli á því að þrátt fyrir að vinna útlendings hér á landi sé undanþegin kröfunni um atvinnuleyfi þá gilda lög og reglur íslensks vinnumarkaðar um vinnu útlendingsins hér á landi. Skulu ráðningakjör hans meðal annars vera í samræmi við gildandi kjarasamninga. Enn fremur er atvinnurekanda og útlendingi skylt að veita lögreglu og Vinnumálastofnun aðgang að þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að sýna fram á að ekki sé brotið gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
Leiðsögumenn og hópstjórar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins
Leiðsögumenn
Vinsamlegast athugið að leiðsögumenn falla ekki undir undanþágu 23. gr. laganna og þurfa leiðsögumenn með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins að sækja um tímabundið atvinnuleyfi hér á landi vegna starfa sinna á Íslandi. Það sama gildir um aðra starfsmenn í ferðaþjónustu sem ekki eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi og sinna störfum sem almennt teljast falla innan íslenskra kjarasamninga og íslensks vinnumarkaðar. Nánari upplýsingar um réttindi og skyldur erlendra ferðaþjónustuveitenda með starfsemi á Íslandi er hægt að finna hér.
Hópstjórar
Hópstjórum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem fylgja hópum ferðamanna til og frá landinu falla undir undanþáguákvæði laganna vegna skammtímavinnu og er heimilt að vera við störf hér á landi í allt að 90 daga vegna viðskiptaerinda.
Hlutverk hópstjóra er einkum að fylgja hópnum til og frá landi og er í forsvari s.s. gangvart leiðsögumanni og öðrum innlendum þjónustuaðilum.
Þar sem um undanþáguákvæði er að ræða er nauðsynlegt að tilkynna um komu hópstjóra áður hann kemur til landsins. Með tilkynningu um komu þarf að skila inn upplýsingum um þá ferðaskrifstofu og/eða leiðsögumann sem mun annast leiðsögn hér á landi
Tilkynningin er send inn rafrænt með því að smella hér.
Athugið að senda þarf tilkynningu fyrir hvert tímabil sem undanþágan er nýtt.
Hér má nálgast leiðbeiningar við útfyllingu rafrænnar tilkynningar
Eftirfarandi útlendingar falla undir framangreinda undanþágu. Vakin er athygli á því að ekki er hægt að gefa tæmandi talningu um hvaða tilfelli falla undir hvern flokk heldur er það mat Vinnumálastofnunar hverju sinni.
Hafa samband
Þurfir þú frekari leiðbeiningar má hafa samband með því að senda tölvupóst á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is eða á símatíma atvinnuleyfa. Yfirlit símatíma má finna hér.
Vísinda- og fræðimenn
Hér undir falla vísinda- og fræðimenn, þ.m.t. doktors- og starfsnemar, í tengslum við kennslu-, fræði-, vísindastörf eða önnur sambærileg starfsemi hér á landi. Gerð er krafa um að viðkomandi útlendingur hafi lokið háskólanámi í tengslum við það starf sem um ræðir. Bent er á að vari dvöl viðkomandi lengur en undanþágan leyfir má kanna hvort viðkomandi geti sótt um tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli samstarfssamnings sbr. 15. gr. laganna.
Listamenn, að undanskildum hljóðfæraleikurum sem ráða sig til starfa á veitingahúsum
Hér undir falla meðal annars leikarar, kvikmyndagerðarmenn, ljósmyndarar, fjöllistamenn og hljóðfæraleikarar að undanskildum þeim sem ráða sig til starfa á veitingahúsum. Hér undir geta einnig fallið einstaklingar sem sinna annarskonar skapandi störfum svo sem gestalistamenn af ýmsu tagi svo sem húðflúrlistamenn sem starfa sem gestalistamenn á innlendum stofum.
Íþróttaþjálfarar
Hér er einkum átt við þá útlendinga sem koma hingað til lands til að sinna sérhæfðri þjálfun á vegum íþróttafélaga eða sambanda. Undanþágan á ekki við um leikmenn er koma hingað til lands til að æfa eða keppa fyrir hönd innlendra íþróttafélaga eða sambanda.
Fulltrúar í viðskiptaerindum
Hér er einkum átt við þá útlendinga sem koma hingað til lands til þess að kynna vöru og þjónustu en einnig þeir útlendingar sem koma hingað til lands til að sækja viðskiptafundi og hópstjórar sem fylgja hópum ferðamanna. Vinsamlegast athugið að leiðsögumenn falla ekki hér undir.
Ökumenn fólksflutningsbifreiða
Hér undir falla eingöngu þeir útlendingar sem koma til landsins með fólkflutningsbifreið og með bifreiðinni kemur einnig hópur af ferðamönnum. Ökumenn sem koma ekki inn með bifreiðinni heldur taka við akstri hennar hér á landi falla ekki hér undir.
Blaða- og fréttamenn erlendra fjölmiðla
Hér undir falla þeir útlendingar sem starfa hjá erlendum fréttamiðlum, hvort sem um er að ræða ljósvaka-, net- eða prentmiðil.
Starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja
Hér undir falla fyrst og fremst þau tilfelli þegar tæki eru seld hingað til lands með ábyrgð seljanda og ábyrgðin er háð því skilyrði að uppsetning, prófanir og tímabundið eftirlit sé í höndum sérhæfðra starfsmanna seljanda eða annarra sem hann viðurkennir í því skyni. Uppsetning á hugbúnaði, innréttingum og húseiningum, þ.m.t. gluggar, lagnir eða byggingareiningar teljast ekki til tækja í skilningi undanþágunnar. Sækja þarf um tímabundið atvinnuleyfi vegna slíkrar vinnu óháð tímalengd verkefnis.
.