Tilkynning um hópuppsagnir til Vinnumálastofnunar
Að höfðu samráði skv. 5. og 6. grein skal atvinnurekandi senda þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar (svæðisvinnumiðlun) tilkynningu um fyrirhugaðar uppsagnir og jafnframt senda trúnaðarmanni /fulltrúa starfsmanna afrit af þeirri tilkynningu. Í tilkynningunni skulu koma fram:
- ástæður uppsagna
- fjöldi starfsmanna hjá fyrirtækinu
- hve mörgum starfsmönnum er verið að segja upp
- á hvaða tímabili uppsagnirnar eiga að taka gildi – hér er átt við hvenær þeim sem sagt er upp láta af störfum.
- hvort samráð hefur verið haft við trúnaðarmenn eða aðra fulltrúa starfsmanna og þá með hvaða hætti, en þar þarf að koma fram a.m.k. við hvern var haft samráð og hvenær (helstu samskipti / fundir)
Hægt er að nálgast tilkynningu um hópuppsagnir hér .
Ferli eftir að tilkynning berst Vinnumálastofnun
Dagsetning tölvupósts á netfangið hopuppsagnir@vmst.is jafngildir formlegri tilkynningu og þegar tilkynningin berst fer stofnunin yfir hvort um hópuppsagnir sé að ræða skv 1 gr laganna og yfirfer hvort tilkynningin sé formlega rétt þ.e. að hún innihaldi allar þær upplýsingar sem kveðið er á um í 7. grein laganna. Sé einhverjum formsatriðum ábótavant í tilkynningunni hefur skrifstofa VMST samband við viðkomandi atvinnurekanda og óskar eftir leiðréttingu.
Þegar ljóst er að um formlega og rétta tilkynningu um hópuppsagnir er að ræða uppfærir stofnunin skjal með samantekt um hópuppsagnir þar sem fram kemur fjöldi starfsmanna sem sagt er upp og hvenær uppsagnir munu koma til framkvæmda, í hvaða atvinnugrein viðkomandi fyrirtæki starfar og heildarfjöldi starfsmanna viðkomandi fyrirtækis.
Eftir að formleg tilkynning um hópuppsagnir hefur borist Vinnumálastofnun notar viðkomandi þjónustuskrifstofa þann tímaramma, sem að lágmarki er 30 dagar, til að til að leita lausnar á þeim vanda sem fyrirhugaðar uppsagnir munu valda, eins og segir í 8. gr. laganna.
Hvernig það er útfært fer eftir eðli máls í hvert sinn, en felst að meira eða minna leyti í eftirtöldu:
- hafa samráð við aðila máls, s.s. stéttarfélag, starfsmannafélag, trúnaðarmann eða aðra fulltrúa starfsmanna um hvernig bregðast skuli við.
- vinna með viðkomandi sveitarstjórnum, atvinnuþróunarfélögum og sambærilegum aðilum að því að leita lausna hvað varðar atvinnuuppbyggingu og atvinnuþróun.
- eiga fundi með þeim starfsmönnum sem um ræðir og kynna fyrir þeim þá möguleika sem stofnunin hefur upp á að bjóða hvað varðar námskeið, laus störf og önnur úrræði.
- vinna með einstökum starfsmönnum í samræmi við hvenær uppsagnir þeirra koma til framkvæmda.
- að nýta þær vinnumarkaðsaðgerðir sem stofnunin hefur yfir að ráða, þ.e. vinnumiðlun, starfs- og námsúrræði og önnur endurhæfingarúrræði til að auðvelda viðkomandi starfsmönnum að finna sér nýtt starf.