Hlutverk Vinnumálastofnunar
Vinnumálastofnun heyrir undir félagsmálaráðuneytið og fer m.a. með yfirstjórn vinnumiðlunar í landinu og daglega afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa auk fjölmargra annara vinnumarkaðstengdra verkefna.
Vinnumálastofnun starfar samkvæmt lögum nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og lögum nr. 54/2006 um Atvinnuleysistryggingar, ásamt því að fara með framkvæmd fjölmargra annarra laga. Markmið laganna um vinnumarkaðsaðgerðir er að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði, auk þess sem lögunum er ætlað að stuðla að jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir vinnuafli í landinu
Vinnumálastofnun rekur átta þjónustuskrifstofur í kringum landið þar sem veitt er öll almenn þjónusta við atvinnuleitendur, skráning, mat á færni, ráðgjöf og úrræði og vinnumiðlun auk samvinnu við aðra þjónustuaðila um úrræði og vinnumarkaðs-aðgerðir.
Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipar tíu manna stjórn Vinnumálastofnunar að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn, sem skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Þá skipar velferðarráðherra sjö manna svæðisbundin vinnumarkaðsráð sem skulu vera hlutaðeigandi þjónustustöð Vinnumálastofnunar til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum.
Verkefni Vinnumálastofnunar
- halda skrá yfir laus störf sem í boði eru á landinu öllu, miðla upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda og veita þeim aðstoð við að finna störf við hæfi og aðstoða atvinnurekendur við ráðningu starfsfólks og veita þeim upplýsingar um framboð á vinnuafli,
- annast skráningu atvinnulausra, útreikninga og greiðslu atvinnuleysisbóta,
- annast skipulag vinnumarkaðsúrræða, s.s. námskeiða, starfsúrræða, ráðgjöf, námsúrræða og atvinnutengdrar endurhæfingar. Þjónusta ráðgjafa Vinnumálastofnunar skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins atvinnuleitanda. Vinnumálastofnun ber að leggja mat á vinnufærni atvinnuleitanda þegar hann sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Á grundvelli matsins er gerð áætlun um atvinnuleit hans og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum eða honum leiðbeint um aðra þjónustu ef þörf er talin á,
- halda utan um og afla upplýsinga um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnuhorfur frá einstökum landshlutum. Einnig fylgist Vinnumálastofnun með samsetningu vinnuaflsins í landinu, kannar reglubundið mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum og miðlar upplýsingum um atvinnuástandið í landinu,
- annast útgáfu atvinnuleyfa og skráningu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði og starfsmannaleigum.