Niðurfelling bótaréttar í 40 bótadaga vegna starfsloka. Segir upp vinnu vegna ágreinings um laun. Staðfest.
Nr. 13 - 2006

Úrskurður

 

Þann 21. febrúar 2006 kvað úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta upp svohljóðandi úr­skurð í máli nr. 13/2006.

 

Máls­at­vik og kæru­efni

 

1.

Málsatvik eru þau að út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum sem haldinn var þann 28. desember sl. umsókn Y um atvinnuleysisbætur frá 5. desember 2005.  Jafnframt ákvað nefndin að réttur Y til atvinnuleysisbóta skyldi falla niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils með vísan til 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar.  Ákvörðun þessi var tekin með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði frá 8. desember sl. um starfslok Y hjá J.

 

2.

Y kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi mótt. 5. janúar 2006.   Í bréfinu segist hann  hafa unnið hjá J í næstum 9 mánuði áður en hann tók eftir að orlofið var vangreitt.  Þegar hann uppgötvaði þetta fór hann að taka eftir að ýmsu öðru.  Þannig hafi hann ekki fengið greitt fyrir eldsneyti vegna ökuferða í þágu vinnunnar og ekki fengið 3% launahækkun sem honum hafi verið sagt að allir ættu að fá.  Þegar hann minntist á eldsneytið við vinnuveitanda sinn hafi hann reiðst og sagt að hér eftir myndi hann vinna á sama staðnum.  Þremur dögum seinna hafi hann þó verið beðinn um að sækja málningu.  Hann hafi sagt vinnuveitanda sínum að hann væri ekki að fá kr. 1.235 í dagvinnu eins og hann ætti að fá ef orlofið vantaði.  Y segir að sér hafi fundist að vinnuveitandinn hafi verið að notfæra sér að hann þekkti rétt sinn ekki nægilega vel.

Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá J frá 8. desember 2005.  Þar kemur fram að Y starfaði hjá  J sem aðstoðarmaður í málningarvinnu tímabilið 8. nóvember 2004 til 20. nóvember 2005.  Ástæða starfsloka er sögð sú að hann hafi sjálfur sagt upp störfum.  Einnig liggur fyrir bréf frá Eflingu frá 12. desember 2005.  Í bréfinu er staðfest að Y hafi leitað til stéttarfélagsins vegna ágreinings við vinnuveitanda sinn um launamál.  Y hafi samið um kr. 1.250 í tímakaup, en þegar hann hafi fengið greitt út hafi komið í ljós að tímakaupið var kr. 1.235.  Síðar hafi komið í ljós að vinnuveitandinn greiddi orlofið út með laununum.  Það hafi því ekki komið ofan á launin heldur verið innifalið.  Af  þessum sökum hafi laun Y verið lægri en  hann taldi að hann hefði samið um og ekki hefði náðst samkomulag um leiðréttingu á málinu.  Y hafi því talið að um svik hafi verið að ræða og sagt upp starfi sínu. Í bréfi Eflingar segir að því miður hafi ekki verið staða til að vinna í málinu af hálfu stéttarfélagsins; fram hafi komið á launaseðlum að orlofið  væri innifalið.  Að sögn vinnuveitanda var ekki um skriflegan ráðningarsamning að ræða, sbr. símtal ritara úrskurðarnefndar við hann.  Samkvæmt kjarasamningum Eflingar voru laun Y yfir lágmarkslaunum.

 

 


Niður­staða

 

1.

Sam­kvæmt 4. tölul. 5. gr. laga nr. 12/1997, um at­vinnu­leysis­tryggingar, veldur það missi bóta­réttar í 40 bóta­daga ef um­sækjandi um at­vinnu­leysis­bætur hefur sagt lausu því starfi sem hann hafði án gildra ástæðna.  Ákvæði þetta er skýrt nánar í 7. gr. reglu­gerðar nr. 545/1997, um greiðslu at­vinnu­leysis­bóta, en þar segir eftirfarandi: 

 

 

Ef um­sækjandi um bætur hefur sagt starfi sínu lausu er út­hlutunar­nefnd at­vinnu­leysis­bóta heimilt að ákveða að hann skuli ekki missa rétt til bóta, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar, séu starfs­lok til­komin vegna einhverra eftir­talinna at­vika:

a.         Maki um­sækjanda hafi farið til starfa í öðrum lands­hluta og fjöl­skyldan hefur af þeim sökum þurft að flytja bú­ferlum.

b.         Upp­sögn má rekja til þess að um­sækjandi, að öðru leyti vinnu­fær, hefur af heilsu­fars­á­st­æðum sagt sig frá þeirri vinnu sem hann var í, að því til­skildu að vinnu­veitanda hans hafi mátt vera kunnugt um þessar ást­æður áður en hann lét af störfum. Heimilt er að óska eftir læknis­vott­orði þessu til stað­festingar.

Kjósi út­hlutunar­nefnd að beita heimild 4. tl. 5. gr. laga um at­vinnu­leysis­tryggingar í öðrum til­vikum en að ofan greinir, skal hún til­taka sér­stak­lega í ákvörðun sinni þau at­vik og sjónar­mið sem ákvörðun byggist á.

 

 

 

 

2.

 

Kærandi sagði upp starfi sínu vegna ágreinings um laun.  Orlof var greitt út jafnóðum en reiknaðist ekki ofan á launin.  Þetta gerði það að verkum að kærandi fékk lægra tímakaup en hann taldi sig hafa samið um.    Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við kæranda.  Samkvæmt upplýsingum stéttarfélags kæranda voru laun hans yfir lágmarkslaunum.  Einnig kom fram á launaseðlum að orlofið var greitt út en reiknaðist ekki ofan á launin.  Stéttarfélagið taldi því ekki efni til að gera neitt í málinu.   

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta teljast þær ástæður sem kærandi gefur fyrir starfslokum sínum ekki gildar í skilningi 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 545/1997. Hefur ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað ekki talist falla undir gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið um niðurfellingu bóta­réttar kæranda í 40 bóta­daga samkvæmt 4. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 staðfest.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Staðfest er ákvörðun út­hlutunar­nefndar at­vinnu­leysis­bóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 28. desember 2005 um að Y skuli missa rétt til at­vinnu­leysis­bóta í 40 bóta­daga  í upphafi bótatímabils.

 

Úr­skurð­ar­n­efnd at­vinnu­leysis­bóta

 

Linda Björk Bentsdóttir

for­maður

 

Elín Blöndal                              Arnar Þór Jónsson

 

Til baka

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni