Niðurfelling bótaréttarí 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Segir upp starfi vegna óánægju með laun o.fl. Staðfest.
Nr. 17 - 2007
Úrskurður
Þann 18. maí 2007 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 17/2007.
Málsatvik og kæruefni
1.
Málsatvik eru þau að úthlutunarnefnd atvinnuleysistrygginga samþykkti þann 21. mars 2007 umsókn X um atvinnuleysisbætur frá 1. mars 2007. Bótaréttur hennar var hins vegar felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðun þessi var tekin með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, á grundvelli starfsloka hennar hjá K ehf.
2.
X kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags. 22. apríl 2007. Í bréfi sínu segist hún kæra ákvörðun úthlutunarnefndar á þeirri forsendu að um breyttar forsendur hafi verið að ræða. Þegar vinnubúðir K hafi verið fluttar að S hafi henni verið tjáð að mannskapurinn yrði að hámarki 12-14 manns, en raunin hafi orðið sú að um 18-20 manns hafi verið að ræða. Mjög erfitt hafi verið um alla aðdrætti; um 150 km til P og álíka langt til B aðra leiðina. Álagið hafi því verið mikið þar sem hugsa þurfti fyrir hverjum einasta hlut 11 daga fram í tímann. Þetta hafi verið allt önnur og erfiðari aðstaða en áður hafði verið. Starf hennar hafi því verið töluvert mikið breytt frá því sem áður hafði verið. X biður einnig um að tekið verði tillit til þess að í atvinnuleysinu í júní 2005 hafi hún ákveðið að halda áfram vinnu hjá K og hún hafi farið með þeim að Þ og þaðan á S. Eflaust hafi hún haft fullan rétt til að vera heima og fara á atvinnuleysisbætur eins og aðrar konur á staðnum. X segist einnig hafa unnið hjá K í 2 ½ ár og hafa látið ýmislegt yfir sig ganga. Þegar verið var að ráða 18-20 ára stráka, nýkoma með meirapróf, á hærri launum en ráðskonu með 30 ára starfsreynslu af matargerð hafi henni fundist nóg komið.
Í gögnum málsins liggur fyrir vinnuveitandavottorð frá K ehf. frá 1. mars 2007. Þar segir að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu sem matráðskona til 28. febrúar sl. Ástæða starfsloka er sögð sú að hún hafi sjálf sagt upp starfi sínu.
Einnig liggur fyrir tölvubréf Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum frá 9. maí 2007. Þar segir að kærandi hafi orðið atvinnulaus eftir verkhlé hjá K. Hún hafi ráðið sig að nýju um leið og þeir hafi hafið vegagerð aftur á Vestfjörðum eins og um hafi verið rætt í rágjafarviðtölum. Hún hafi hins vegar sagt upp eftir aðeins einn og hálfan mánuð og gefið þær skýringar að hún hafi ekki fengið launahækkun og að eiginmanni hennar hafi boðist önnur vinna á B, en hann hafi einnig verið í starfi hjá fyrirtækinu. Á B hafi verið langvarandi atvinnuleysi og því nánast borin von að kærandi gæti fengið atvinnu þar. Því hafi verið fyrirhyggjulítið að hætta í þessu starfi.
Niðurstaða
1.
Ákvæði 54. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, fjallar um þau atvik er starfi er sagt upp án gildra ástæðna. Í 1. og 2. mgr. 54. gr. segir eftirfarandi:
Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.
Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.
2.
Kærandi sagði upp starfi sínu, en hún vann sem matráðskona í vinnubúðum við vegagerð á ýmsum stöðum á Vestfjörðum. Kærandi starfaði í vinnubúðunum í 11 daga úthaldi og fékk síðan þriggja daga frí. Kærandi kveðst hafa verið óánægð með launin. Hún segist einnig hafa viljað fylgja manni sínum sem fékk starf á B, en áður höfðu þau búið á Í. Fram hefur komið að atvinnuleysi er mikið á B.
Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er orðalagið gildar ástæður skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Almennt flokkast ágreiningur milli starfsmanna og vinnuveitanda, s.s. um launakjör, vinnutíma og/eða aðstæður á vinnustað ekki sem gildar ástæður samkvæmt framangreindum reglum.
Það er mat úthlutunarnefndar að ástæður þær sem kærandi gefur upp fyrir uppsögn sinni geti ekki talsit gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framanritaðs er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygginga um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga staðfest með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.
Úrskurðarorð
Staðfest er ákvörðun úthlutunarnefndar atvinnuleysistrygging frá 21. mars 2007 um niðurfellingu bótaréttar X í 40 bótadaga.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða
Linda Björk Bentsdóttir
formaður
Elín Blöndal Arnar Þór Jónsson
Til baka