Greiðslur atvinnuleysisbóta til námsmanns fyrst við annarlok.
Nr. 51 - 2003
Úrskurður
Hinn 23. júní 2003 kvað úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 51/2003.
Málsatvik og kæruefni
1.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið samþykkti á fundi sínum þann 22. apríl 2003 umsókn B um atvinnuleysisbætur frá 4. apríl 2003. Nefndin ákvað jafnframt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefjist ekki fyrr en vorönn Háskóla Íslands lýkur. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli upplýsinga frá Háskóla Íslands um að B hefði stundað þar nám á vorönn 2003 og hætt námi þann 13. mars s.l.
2.
B kærði ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta með bréfi dags. 7. maí 2003. Í bréfi sínu segist hann hafa stundað nám við Háskóla Íslands en hætt námi snemma í mars. Kennslu í þessari námsönn hafi lokið 9. apríl s.l. og hafi hann búist við því að fá atvinnuleysisbætur frá þeim tíma. Honum hafi hins vegar verið tjáð af starfsmanni úthlutunarnefndar að hann fái ekki bætur fyrr en við lok síðasta prófs sem er 14. maí. Þetta finnst honum ósanngjarnt og kærir því þessa ákvörðun.
3.
Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð frá Háskóla Íslands dags. 9. apríl 2003 þar sem staðfest er að B hafi verið skráður stúdent við skólann háskólaárið 2002-2003 og að hann hafi hætt námi 13. mars 2003. Einnig liggur fyrir vottorð skólans dags. 14. maí s.l. þar sem segir að B hafi verið skráður í nám í X-fræði og að síðasta próf í þeirri skor sé 14. maí. 2003.
Niðurstaða
1.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997, eiga launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu. Í 2. gr. laganna eru sett fram þau lágmarksskilyrði sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur verður að uppfylla til að eiga bótarétt samkvæmt lögunum en þar segir orðrétt:
Rétt til bóta samkvæmt lögum þessum hafa þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 5. gr.:
1. Eru orðnir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.
2. Eru búsettir hér á landi eða hafa fengið leyfi til atvinnuleitar í EES-landi.
3. Hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi.
4. Hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði. Til að finna vinnuframlag sjómanna skal telja fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst 21,67 lögskráningardagar.
5. Hafa í upphafi bótatímabils verið skráðir sem atvinnulausir í þrjá daga samfellt. Ákvæði þetta gildir ekki um starfsfólk í fiskvinnslu sem ekki hefur rétt til að gera kauptryggingarsamning samkvæmt kjarasamningi VMSÍ og VSÍ/VMS.
6. Eru reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa.
Við ákvörðun bóta samkvæmt framangreindu teljast ekki með þeir dagar er maður hefur verið í verkfalli eða verkbann tekur til.
2.
Í 5. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997, er kveðið á um að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi sem stundað er á venjulegum dagvinnutíma, nema annað leiði af samningi um starfsleitaráætlun, sbr. 15. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.
Þá segir í 5. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að þeir skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum sem hætta námi fyrir lok námsannar. Í ákvæði þessu er kveðið á um að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sé heimilt að setja reglur um, að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt. Kveðið er á um slíka undanþágu í 6. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta nr. 545/1997, en þar segir orðrétt:
Ef námsmaður sem hefur áunnið sér rétt til bóta hverfur frá námi á hann ekki rétt til bóta þann tíma sem eftir stendur af námsönn.
Úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu, ef veruleg breyting hefur orðið á fjölskylduhögum eða fjárhagsstöðu sem valdið hafa því að hann hætti námi, sbr. 5. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta ber að túlka framangreint ákvæði samkvæmt orðanna hljóðan á þá vegu, að viðurlögum samkvæmt því verði beitt þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hættir á miðri námsönn. Hafi hann lokið námsönn og sæki þá fyrst um atvinnuleysisbætur á ákvæðið ekki við. Þá verður ákvæði 5. gr. áðurnefndrar reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta, ekki beitt um þá einstaklinga sem stunda nám utan venjulegs dagvinnutíma.
3.
Það er niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að ákvæði 5. tölul. 5. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta eigi við í máli kæranda. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að undanþáguákvæði 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eigi við um sig, þ.e. að verulegar breytingar hafi orðið á fjölskylduhögum eða fjárhagsstöðu hans, sem hafi valdið því að hann hafi orðið að hverfa frá námi. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta að staðfesta beri ákvörðun úthlutunarnefndar um að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda hefjist fyrst við lok vorannar x-fræðiskorar Háskóla Íslands eða þann 14. maí 2003, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.
Úrskurðarorð:
Úrskurður úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta nr. 1 fyrir höfuðborgarsvæðið frá 22. apríl 2003 um að greiðslur atvinnuleysisbóta til B skuli fyrst hefjast við lok vorannar í Háskóla Íslands er staðfestur.
Úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta
Þuríður Jónsdóttir
Árni Benediktsson Benedikt Davíðsson
Til baka