Fordæmalausar aðstæður á vinnumarkaði
Atvinnuleysi í mars mælist 9,2% og hefur staðan á vinnumarkaði gjörbreyst frá lok febrúarmánaðar vegna þeirra takmarkana sem settar voru á með samkomubanni fólks vegna Covid-19 heimsfaraldurs. Fyrirtæki tengd flugsamgöngum og ferðaþjónustu hafa hvað mest fundið fyrir þeim afleiðingum þar sem komur erlendra ferðamanna hafa nánast lagst af og sama er að segja um ferðalög Íslendinga innanlands sem utan.