Fordæmalausar aðstæður á vinnumarkaði
Atvinnuleysi í mars mælist 9,2% og hefur staðan á vinnumarkaði gjörbreyst frá lok febrúarmánaðar vegna þeirra takmarkana sem settar voru á með samkomubanni fólks vegna Covid-19 heimsfaraldurs. Fyrirtæki tengd flugsamgöngum og ferðaþjónustu hafa hvað mest fundið fyrir þeim afleiðingum þar sem komur erlendra ferðamanna hafa nánast lagst af og sama er að segja um ferðalög Íslendinga innanlands sem utan.
Almennt atvinnuleysi fór strax vaxandi framan af marsmánuði, einkum þó þegar líða tók á mánuðinn þegar lög um minnkað starfshlutfall tóku gildi sem heimiluðu að starfshlutfall launafólks yrði fært niður í allt að 25% starf á móti greiðslum atvinnuleysisbóta sem námu þá allt að 75% hlutfalli á móti launum.
Um 5.200 fyrirtæki nýttu sér þennan möguleika fyrir samtals um 24.400 einstaklinga í marsmánuði og gera má ráð fyrir að allt að 6.500 fyrirtæki muni nýta sér úrræðið fyrir nálægt 35.000 launþega á því tímabili sem þetta verður heimilt.
Fjöldi einstaklinga á atvinnuleysisskrá í lok mars voru nálægt 38.600, þar af um 24.400 í minnkuðu starfshlutfalli sem fyrr segir og ríflega 14.200 manns að auki á almennum atvinnuleysisbótum.
Smelltu hér til að nálgast allar nánari upplýsingar um mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar