Dómur Hæstaréttar um tekjur utan innlends vinnumarkaðar á viðmiðunartímabili
Þann 28. febrúar sl. féll dómur í Hæstarétti í máli nr. 24/2023 þar sem álitaefnið sneri að því hvort lög um fæðingar- og foreldraorlof brytu í bága við skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum. Í málinu sem stefnandi höfðaði gegn íslenska ríkinu var þess krafist að felldur yrði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna í fæðingarorlofi. Stefnandi hafði verið búsett og starfandi í öðru EES-ríki á tólf mánaða viðmiðunartímabili sem lauk sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Þar sem hún hafði ekki aflað tekna á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu fékk hún greiddar lágmarksgreiðslur í samræmi við lög um fæðingar- og foreldraorlof. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Fæðingarorlofssjóður hefði ekki getað virt að vettugi skýr og afdráttarlaus fyrirmæli laga um fæðingar- og foreldraorlof við ákvörðun um útreikning greiðslna úr sjóðnum. Þau málsatvik sem voru til umfjöllunar í dómnum áttu sér stað í tíð eldri laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Í núgildandi lögum nr. 144/2020 eru þau ákvæði sem á reyndi í málinu óbreytt. Hefur dómurinn því fordæmisgildi þegar kemur að útreikningi greiðslna til foreldra sem hafa ekki starfað á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili.