Listi yfir fyrirtæki í hlutabótaleið

Um birtingu á lista yfir fyrirtæki í hlutabótaleið.

 Á undanförnum dögum hefur krafa verið uppi um að Vinnumálastofnun birti lista yfir þau fyrirtæki sem gert hafa samkomulag við starfsfólk sitt um minnkað starfshlutfall, þ.e. nýtt hina svokölluðu hlutabótaleið. Ákall þetta er skiljanlegt enda miklir efnahagslegir hagsmunir húfi. 

Það sem oft hefur gleymst í þessari umræðu er að Vinnumálastofnun greiðir ekki bætur til fyrirtækja heldur tekur stofnunin við umsóknum frá einstaklingum og greiðir atvinnuleysistryggingar til þeirra. Krafa um birtingu á lista snýr ekki að þeim einstaklingum sem fá greiddar atvinnuleysistryggingar enda er flestum ljóst að slíkar upplýsingar skuli fara leynt. Vinnumálastofnun stendur nú frammi fyrir þeim vanda að afhending og birting á umræddum lista felur í sér upplýsingar um einka- og/eða fjárhagsmálefni þeirra einstaklinga sem hafa leitað til stofnunarinnar. Með því að birta upplýsingar yfir öll fyrirtæki sem hafa staðfest samkomulag um minnkað starfshlutfall hjá starfsfólki sínu, kann Vinnumálastofnun um leið að vera að upplýsa um þá einstaklinga sem hafa sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

 

Hér vegast því á mikilvægir hagsmunir sem stofnuninni er skylt að vernda. Annars vegar réttur almennings til upplýsinga um ráðstöfun á opinberu fé og hins vegar réttur einstaklinga og vernd persónuupplýsinga þeirra. Enginn einstaklingur sem sækir um greiðslur atvinnuleysistrygginga á að eiga það á hættu að birtar verði upplýsingar á opinberum vettvangi þar að lútandi. Vinnumálastofnun getur ekki brugðist þeim trúnaði. Af því leiðir að taka verður til skoðunar hvort upplýsingar sem birtar eru skulu að einhverju leyti takmarkaðar. Á það einkum við um einstaklinga í eigin atvinnurekstri og nöfn fámennra fyrirtækja þar sem birting á nafni fyrirtækisins getur um leið gefið til kynna upplýsingar um þann starfsmann eða þá starfsmenn sem fá greiddar atvinnuleysistryggingar.

Á grundvelli þessa mats hefur Vinnumálastofnun ákveðið að birta lista með nöfnum þeirra fyrirtækja sem staðfest hafa samkomulag um minnkað starfshlutfall við sex starfsmenn eða fleiri. Með þessum hætti telur stofnunin að orðið sé við þeirri kröfu með fullnægjandi hætti, að birta upplýsingar um og veita aðhald með ráðstöfun á opinberu fé, tryggja gagnsæja stjórnsýslu, gæta almannahagsmuna og tryggja um leið persónuvernduð réttindi einstaklinga.

 Listi verður birtur á vefsíðu Vinnumálastofnunar í dag, 22. maí 2020.

Fjöldi fyrirtækja sem staðfestu samkomulega um minnkað starfshlutfall við :

Einn starfsmann          2.950  

Tvo starfsmenn           1.138  

Þrjá starfsmenn               568     

Fjóra starfsmenn             372     

Fimm starfsmenn            245     

Smelltu hér til að nálgast listann.

 

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni