Styrkir til Atvinnumála kvenna úthlutað

Styrkjum til atvinnumála kvenna var úthlutað þann 11.maí síðastliðinn og fengu 36 verkefni styrki samtals að fjárhæð 37.180.000 kr. Formleg athöfn var ekki að þessu sinni í tengslum við úthlutun styrkjanna vegna aðstæðna í þjóðfélaginu.

Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Unnt er að sækja um styrki vegna vinnu við gerð viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 229 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið þær á undanförnum vikum. Nefndina skipuðu þær Herdís Á. Sæmundardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Elín Sigríður Þórðardóttir og Kolbrún Ágústa Guðnadóttir. Í ár var sjónum sérstaklega beint að frumkvöðlakonum af erlendum uppruna og frumkvöðlakonum sem búsettar eru á landsbyggðinni.

Hæsta styrk, eða 4.000.000 kr., hlaut Renata Stefanie Bade Barajas fyrir verkefni sitt Greenbytes en verkefnið snýr að þróun gerfigreindarbúnaðar fyrir veitingahús til að sjá fyrir matarnotkun með það að markmiði að minnka matarsóun og lækka kostnað við matarinnkaup. Styrkurinn er veittur vegna launakostnaðar og vöruþróunar.

Jarðgerðarfélagið hlaut næsthæsta styrkinn að fjárhæð 2.500.000 kr. en viðskiptahugmynd Jarðgerðarfélagsins felst í því að þróa umhverfisvæna og hagkvæma lausn fyrir sveitarfélög til meðhöndlunar á lífrænum úrgangi. Söluafurðir Jarðgerðarfélagsins verða í grunninn tvær; annarsvegar þjónustupakki fyrir meðhöndlun á lífrænum úrgangi og hinsvegar hágæða lífrænn áburður sem til verður við meðhöndlun úrgangsins. Styrkurinn er til vöruþróunar og markaðssetningar.

Sæbjörg Freyja Gísladóttir hlaut annan hæsta styrkinn að upphæð kr. 2.428.000 kr. vegna verkefnisins Markaðssetning á kalksalti. Kalksalt ehf. framleiðir kalksteina og saltbætiefnafötur fyrir skepnur og nýtir umframsalt frá vestfirskum fiskvinnslum í vörur sínar, ásamt kalkþörungum frá Bíldudal. Styrkurinn er vegna launakostnaðar styrkhafa og markaðssetningar.

Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir hlaut styrk að upphæð kr. 2.100.000 kr. fyrir að þróa verkefnið sitt Tré lífsins sem er persónulegur gagnagrunnur sem heldur utan um hinstu óskir, erfðamál og sögu einstaklings og minningagarða þar sem aska hins látna verður gróðursett ásamt tré sem verður merkt með nafni hins látna og QR kóða sem leiðir inn á rafræna minningasíðu viðkomandi. Styrkurinn er til vefhönnunar.

Af öðrum spennandi verkefnum má nefna vöruþróun sauðamjólkuríss, þróun ilmbanka íslenskra jurta, vöruþróun fyrir heilsulind og mjólkurböð í Eyjafirði, hönnun og markaðssetningu í tengslum við framleiðslu á fatnaði úr notuðum fötum, þróun íslenskrar jurtamjólkur, miðstöð skapandi greina á Ströndum og vinnslu krafts úr þörungum.

 

Lista yfir verkefni sem hlutu styrk má finna á heimasíðu verkefnisins www.atvinnumalkvenna.is

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni