Samstarfsamningur undirritaður vegna rannsóknar á sviði fæðingarorlofs
Félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun og Háskóli Íslands hafa undirritað með sér þríhliða samstarfssamning til þriggja ára vegna frekari rannsóknar á sviði fæðingarorlofs. Það eru þau Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf, og Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði, sem munu stýra rannsókninni sem ber heitið Taka og nýting á fæðingarorlofi.
Markmið rannsóknarinnar er að meta hvernig íslensk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof nýtist foreldrum og horft verður sérstaklega í áhrif þeirra auknu réttinda sem hafa verið innleidd á síðustu 3 árum.
Rannsókninni er skipt í þrjá megin rannsóknarþætti:
- Rannsókn sem byggir á fyrirliggjandi gögnum Fæðingarorlofssjóðs þar sem afurðin verður söguleg samantekt á nýtingu fæðingarorlofs.
- Tvær megindlegar kannanir, annars vegar meðal foreldra sem hafa nýtt rétt sinn hjá sjóðnum og hins vegar meðal foreldra sem ekki hafa sótt til sjóðsins. Afurðir þessa hluta verða gagnaskrár með svörum foreldra við spurningum kannananna og skýrslur um niðurstöður beggja rannsóknanna.
- Greining á þeirri stefnumótun sem lá til grundvallar löggjöfinni árið 2000. Afurðir þessa hluta verða fræðilegar greinar til birtingar í íslenskum og alþjóðlegum tímaritum um stefnumótun sem lá til grundvallar lagasetningunni árið 2000.