Andvana fæðing og fósturlát
Við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu skapast réttur til sorgarleyfis eða sorgarstyrks skv. lögum um sorgarleyfi nr. 77/2022.
Fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu
Við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu myndast tveggja mánaða sjálfstæður réttur foreldris til sorgarleyfis eða sorgarstyrks. Lágmarkstími sorgarleyfis eða sorgarstyrks eru tvær vikur í senn og rétturinn fellur niður 24 mánuðum eftir fósturlát.
Andvanafæðing eftir 22 vikna meðgöngu
Við andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu myndast þriggja mánaða sjálfstæður réttur foreldris til sorgarleyfis eða sorgarstyrks. Lágmarkstími sorgarleyfis eða sorgarstyrks eru tvær vikur í senn og rétturinn fellur niður 24 mánuðum eftir andvanafæðingu.
Réttur til sorgarleyfis eða sorgarstyrks
Skilyrði fyrir rétti til sorgarleyfis eða sorgarstyrks og greiðslna frá Vinnumálastofnun í kjölfar andvanafæðingar eða fósturláts eru þau sömu og vegna barnsmissis.
Réttur til sorgarleyfis myndast þegar foreldri hefur verið samfelldu starfi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, hvort sem það eru launuð störf í annarra þjónustu eða við eigin rekstur.
Réttur til sorgarstyrks er fyrir foreldra í fullu námi eða eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.
Nánari upplýsingar má finna undir sorgarleyfi og sorgarstyrkur á heimasíðunni.*
Gögn sem þurfa að berast:
Gögn sem þurfa að berast auk hefðbundinna umsóknargagna:
Læknisvottorð eða staðfesting frá sjúkrahúsi þar sem tímalengd meðgöngu kemur fram og móðerni og faðerni barnsins, þ.e. hverjir eru foreldrar barnsins.
Hafi foreldri skilað umsókn til Fæðingarorlofssjóðs áður en til fósturláts eða andvanafæðingar kom gæti þurft að skila nýrri tilkynningu um tilhögun sorgarleyfis.
Greiðslur
Um greiðslur fer samkvæmt sömu reglum og koma fram undir liðum um greiðslu sorgarleyfis og greiðslu sorgarstyrks. Nánari upplýsingar er hægt að finna hér.