Umsókn um greiðslur

Foreldri skal sækja um greiðslur í sorgarleyfi til Vinnumálastofnunar.

Útreikningur á greiðslum byggir á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Samfellt starf á innlendum vinnumarkaði

Til að öðlast rétt til greiðslna í sorgarleyfi þarf foreldri að hafa verið í a.m.k. 25% samfelldu starfi í 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir barnsmissi.

Fullt starf starfsmanns er 172 vinnustundir á mánuði en þó skal jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi telst fullt starf. Þannig myndu 43 vinnustundir á mánuði almennt teljast vera 25% starf.

Fullt starf foreldris sem starfar við eigin rekstur miðast við að foreldri hafi greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt og tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi eða launum er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein eða samkvæmt kjarasamningi.

Hafi foreldri starfað í öðru aðildarríki að EES-samningnum á framangreindu 6 mánaða tímabili er tekið tillit til þess hafi foreldrið hafið störf á innlendum vinnumarkaði innan 10 virkra daga frá því það hætti störfum á vinnumarkaði í því ríki og sé þátttakandi á innlendum vinnumarkaði við barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát. Í þessum tilvikum skal foreldri láta S-041 vottorð fylgja með umsókn sinni sem staðfestir áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki að EES-samningnum og ráðningarsamning sem staðfestir hvenær störf hófust á innlendum vinnumarkaði.

Til viðbótar samfelldu starfi eru ákveðin tilvik sem jafnframt teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði, sjá nánar undir kaflanum um hvað annað telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði.

Hvað annað telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði

Auk samfellds starfs telst jafnframt til þátttöku á innlendum vinnumarkaði:

-Orlof eða leyfi foreldris sem vinnur launað starf í annarra þjónustu samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti, og foreldri hafi á því tímabili sem um ræðir verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli. Hafi starfsmaður verið í ólaunuðu leyfi þarf að berast afrit af ráðningarsamningi og samkomulagi við vinnuveitanda um leyfið.

-Sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eftir slíkum bótum, hefði átt rétt á slíkum bótum hefði foreldrið skráð sig án atvinnu eða foreldrið hefur hætt atvinnuleit tímabundið vegna orlofs erlendis og ekki hafa liðið meira en tíu virkir dagar þar til atvinnuleit hefur hafist að nýju samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%. Greiðslustofa Vinnumálastofnunar metur hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það sótt um þær, berast þarf afrit af matinu.

-Sá tími sem foreldri fær greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli laga um fæðingar- og foreldraorlof eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldrið sótt um þær, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%.

-Sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, sætir biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið sótt um þá á grundvelli laga um sjúkratryggingar og laga um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%. Sjúkratryggingar Íslands metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslunum hefði það sótt um þær, berast þarf afrit af matinu.

-Sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slyss, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%.

-Sá tími sem foreldri fær tekjutengdar greiðslur á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins, hafi starfshlutfall foreldris á viðmiðunartíma fyrir framangreindar greiðslur verið a.m.k. 25%. Tryggingastofnun ríkisins metur hvort foreldri hefði átt rétt á greiðslunum hefði það sótt um þær, berast þarf afrit af matinu.

Viðmiðunartímabil og útreikningur á greiðslum

Viðmiðunartímabil:

  • Viðmiðunartímabil við útreikning á greiðslum til foreldra á vinnumarkaði er 6 mánaða samfellt tímabil sem lýkur 2 almanaksmánuðum fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát.
  • Þrátt fyrir framangreinda 6 mánaða reglu skal einungis miða við þá mánuði sem foreldri hefur verið á innlendum vinnumarkaði auk þeirra tilvika sem talin eru upp undir liðnum hvað annað telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en 3 við útreikninginn.
  • Foreldrar sem hafa t.d. verið í meira en 10 ECTS námi og í minna eða 25% starfi eða starfandi erlendis gætu átt rétt á því að fá mánuði undanskilda við útreikning á greiðslum og þannig hækkað greiðslur til sín í sorgarleyfi. Telji foreldrar slíkar aðstæður geta átt við hjá sér eru þeir beðnir um að setja sig í samband við þjónustuskrifstofu VMST á Hvammstanga* sem leiðbeinir um framhaldið.  

Útreikningur á greiðslum:

  • Mánaðarleg greiðsla til foreldris er 80% af meðaltali heildarlauna þeirra mánaða sem koma til útreiknings á viðmiðunartímabili.
  • Til launa teljast hvers konar laun, þóknanir og reiknað endurgjald samkvæmt lögum um tryggingagjald auk þeirra tilvika sem talin eru upp í stafliðum a-f undir liðnum hvað annað telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði og greiðslur skv. a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.
  • Útreikningur á greiðslum byggist á upplýsingum um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.
  • Tekjulágum foreldrum er tryggð ákveðin lágmarksgreiðsla og þá er hámark á greiðslum, sjá nánar undir liðnum hámarks- og lágmarksgreiðslur.

Hámarks- og lágmarksgreiðslur

Lágmarksgreiðslur

Tekjulágum foreldrum er tryggð ákveðin lágmarksgreiðsla í samræmi við starfshlutfall þeirra. Fjárhæðir miðast við á hvaða ári foreldri verður fyrir barnsmissi, andvanafæðing eða fósturlát á sér stað.

Upplýsingar um lágmarksgreiðslur fyrir 25-49% og 50-100% starfshlutfall má nálgast hér.

Hámarksgreiðslur

Þrátt fyrir að greiðslur í sorgarleyfi reiknist sem 80% af meðaltali heildarlauna á ákveðnu tímabili geta þær aldrei orðið hærri en sem nemur ákveðinni fjárhæð. Hámarksgreiðslur miðast við á hvaða ári foreldri verður fyrir barnsmissi, andvanafæðing eða fósturlát á sér stað.

Upplýsingar um hámarksgreiðslur má nálgast hér.*

Hvenær er greitt?

Greitt er eftir á fyrir undanfarandi mánuð í sorgarleyfi.

Dæmi: Foreldri sem hefur verið í sorgarleyfi í janúar fær greitt síðasta virka dag þess mánaðar.

Greiðslur í lífeyrissjóð og til stéttarfélags

Meðan á sorgarleyfi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af sorgarleyfisgreiðslu í lífeyrissjóð og Vinnumálastofnun að lágmarki 11,5% mótframlag.

Foreldri er heimilt að greiða í séreignasjóð en Vinnumálastofnun greiðir ekki mótframlag.

Foreldri er heimilt að greiða til stéttarfélags meðan á sorgarleyfi stendur. Sé það ekki gert kunna réttindi hjá stéttarfélagi að skerðast eða falla niður.


Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hvað er helst að?

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu

Þessi vefur notar vefkökur (e. cookies).

Sjá nánar í persónuverndarstefnu Vinnumálastofnunar.

Hæ, Vinný hér! Hvernig get ég aðstoðað?
Vinný snjallmenni