Sorgarleyfi er leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við missi barns yngra en 18 ára. Þá stofnast réttur til sorgarleyfis við fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu og andvanafæðingu eftir 22 vikna meðgöngu. Lög um sorgarleyfi gilda frá 1. janúar 2023 og eiga við foreldra sem verða fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti 1. janúar 2023 eða síðar.
Tímalengd sorgarleyfis
Foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að sex mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi.
Foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að þrjá mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu.
Foreldri sem hefur verið í samfelldu starfi á sjálfstæðan rétt til sorgarleyfis í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlát á sér stað eftir 18 vikna meðgöngu.
Upphafstími sorgarleyfis og hvenær réttur fellur niður
Réttur til sorgarleyfis stofnast þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi og fellur niður 24 mánuðum síðar. Heimilt er að hefja töku sorgarleyfis þann dag sem foreldri verður fyrir barnsmissi.
Foreldrar barns
Rétt til sorgarleyfis á foreldri og/eða forsjáraðili barns samkvæmt ákvæðum barnalaga, sem og aðrir sem hafa gegnt foreldraskyldum gagnvart viðkomandi barni í lengri tíma en síðustu 12 mánuði fyrir barnsmissi. Því getur stjúp- eða fósturforeldri átt rétt á sorgarleyfi hafi það verið í skráðri sambúð eða gift foreldri/forsjáraðila barnsins eða verið með barnið í fóstri í lengri tíma en 12 mánuði fyrir barnsmissinn.
Nánari upplýsingar um hverjir teljast foreldri barns veitir þjónustuskrifstofa VMST á Hvammstanga.*
Uppsöfnun og vernd réttinda
Sorgarleyfi reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem veikindarétti sem og rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta.
Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í sorgarleyfi og skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur til starfs síns að því loknu. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning.
Óheimilt er að segja foreldri sem nýtir rétt sinn til sorgarleyfis upp störfum á grundvelli þess að það hefur tilkynnt um nýtingu á rétti til sorgarleyfis eða er í sorgarleyfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni.